Innviðir Hálft ár er frá því skemmdarverk voru unnin á Nord Stream.
Innviðir Hálft ár er frá því skemmdarverk voru unnin á Nord Stream.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ráðamenn í Moskvu hyggjast ekki gera við Nord Stream gasleiðslurnar að svo stöddu heldur láta duga að innsigla þær og verja gegn frekari skemmdum. Frá þessu greinir Reuters og hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum

Ráðamenn í Moskvu hyggjast ekki gera við Nord Stream gasleiðslurnar að svo stöddu heldur láta duga að innsigla þær og verja gegn frekari skemmdum. Frá þessu greinir Reuters og hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum.

Þann 26. september síðastliðinn voru unnin skemmdarverk á Nord Stream 1 og Nord Stream 2 sem samanstanda hvor um sig af tveimur gasleiðslum. Skemmdust báðar leiðslur Nord Stream 1 og önnur leiðsla Nord Stream 2 og hafa sérfræðingar leitt líkum að því að Bandaríkjaher hafi verið þar að verki.

Rússnesk stjórnvöld eiga 51% hlut í leiðslunum í gegnum ríkisfyrirtækið Gazprom á móti þýskum, frönskum og hollenskum hluthöfum sem eiga minnihluta í leiðslunum. Hafa fulltrúar Gazprom fullyrt að gerlegt sé að laga skemmdirnar á leiðslunum en að sögn Reuters er það mat rússneskra stjórnvalda að ekki sé tímabært að ráðast í viðgerðir.

Verður að öllum líkindum látið nægja að loka leiðslunum á þeim stöðum þar sem þær skemmdust og fylla þær með efni sem ver innra byrði leiðslanna gegn tæringu. ai@mbl.is