Jóhann Eyrbekk Sigurðsson fæddist 15. október 1928. Hann lést 12. febrúar 2023. Útförin fór fram 2. mars 2023.

Þá er elsku afi okkar dáinn en hann var stór hluti af lífi okkar alla tíð. Hann afi var alltaf mikill fjölskyldumaður og sinnti börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum af mikilli alúð og sýndi öllu sem við tókum okkur fyrir hendur raunverulegan áhuga. Þegar við vorum börn leið varla það íþróttamót eða tónleikar í tónlistarskóla án þess að afi væri viðstaddur. Á hverjum sunnudegi fóru afi og amma með okkur í sunnudagaskólann. Heimsóknirnar voru margar og ferðalögin bæði innanlands og utan voru mörg og alltaf hafði afi tíma til að sinna okkur, leika við okkur og segja okkur sögur. Þegar við urðum fullorðin og komum með börnin okkar í heimsókn spurði hann langafabörnin frétta og var alltaf tilbúinn að bregða á leik. Hann lagðist jafnvel í gólfið til að taka þátt í leiknum, algjörlega óumbeðinn. Elstu langafabörnin voru afi og amma alltaf tilbúin til að passa og var afi einstaklega þolinmóður og natinn við að sinna þeim, leika við þau og spjalla við þau. Og þrátt fyrir að tvö okkar flyttu í burtu frá höfuðborgarsvæðinu ferðaðist hann ásamt ömmu í heimsókn til okkar, sérstaklega þegar viðburðir voru í fjölskyldunni, líkt og skírnir barnanna okkar. Afi ljómaði alltaf þegar afa- og langafabörnin komu í heimsókn. Hann fylgdist vel með öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur, hrósaði óspart og stoltið leyndi sér ekki. Hann vildi líka hjálpa okkur eins og hann gat og lagði rafmagn og tengdi ljós eins lengi og hann hafði krafta til.

Samheldnin hjá afa og ömmu var líka áberandi, þau stóðu alltaf saman og aldrei heyrðum við styggðaryrði falla þeirra á milli. Það var yndislegt að þau gátu varið síðustu mánuðunum saman á Eir því fram að því höfðu þau verið aðskilin í nokkurn tíma vegna veikinda. Þá var áberandi í heimsóknum til þeirra beggja hvað þau söknuðu hvort annars mikið og vildu vera saman.

En fyrir utan fjölskylduna var það flugið sem átti hug hans allan. Hann vann sem rafvirki hjá Flugfélagi Íslands eða Flugleiðum alla sína starfsævi og lagði mikla áherslu á að sinna sínu starfi vel. Lengi vel átti hann flughermi í tölvunni heima hjá sér og skemmti sér við að fljúga flugvélum þar. Best fannst honum ef börnin vildu sitja hjá honum og fljúga með. Það voru líka ófáar flugsýningar sem hann sótti og bauð okkur og síðar börnum okkar gjarnan með.

Afi var líka mjög listrænn og eftir að hann hætti störfum hóf hann tréútskurð af miklum móð og eru ófá listaverkin sem prýða heimili okkar allra.

Elsku afi, söknuðurinn er sár en allar minningarnar um yndislegar samverustundir munu ylja okkur um ókomin ár.

Laufey, Magnús Þór

og Hlín.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Mér finnst þetta ljóð eiga vel við elsku Jóhann afa minn sem kvaddi okkur nýlega. Það sem kemur fyrst upp í hugann þegar ég hugsa um afa var hvað hann var mikill fjölskyldumaður og hafði alltaf áhuga á því sem við barnabörnin og síðar barnabarnabörnin vorum að gera. Afi var tilfinningaríkur maður og var ekkert að fela það þegar hann táraðist yfir einhverju sem honum fannst fallegt eða sorglegt. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var fullorðin hvað það var sérstakt fyrir mann af hans kynslóð.

Ég á óteljandi góðar minningar um afa og flestar þeirra tengjast ömmu líka. Samrýndari hjón en afa og ömmu er varla hægt að ímynda sér og ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann séð afa kveðja ömmu þegar hann fór eitthvað út án þess að kyssa hana bless, og það yfirleitt svona tvisvar til þrisvar í röð. Ég bjó mestalla æsku mína á Akureyri en kom mjög reglulega suður til afa og ömmu og fékk oft að fljúga á milli þar sem hann var starfsmaður Flugleiða. Það fannst mér mjög spennandi enda hafði ég gaman af flugi eins og afi. Á heimili afa og ömmu í Sólheimunum fengum við frændsystkini mín endalaust að leika okkur saman og ég man aldrei eftir því að við höfum verið skömmuð þótt það hljóti nú stundum að hafa heyrst vel í okkur. Mér þótti alltaf gott að koma í Sólheima og get enn séð fyrir mér hvern krók og kima þar þótt það séu mörg ár síðan þau fluttu þaðan.

Frá seinni hluta unglingsára bjó ég erlendis en kom yfirleitt heim á hverju ári. Þá var ég alltaf sótt og svo keyrð út á Keflavíkurflugvöll af afa og ömmu. Ég áttaði mig mun seinna á því að það þykir ekki sjálfsagt í öllum fjölskyldum að keyra og sækja fjölskyldumeðlimi þangað í hvert skipti sem farið er úr landi en það þótti afa sjálfsagt að gera fyrir okkur alla tíð. Seinna þegar ég eignaðist syni mína og bjó fyrst á Reyðarfirði og svo á Akureyri þá fannst þeim líka sjálfsagt að keyra þangað til þess að hitta nýjustu barnabarnabörnin og mæta nokkrum vikum síðar aftur þangað í skírn. Í báðum tilvikum voru þau komin vel yfir eftirlaunaaldur en töldu það ekkert eftir sér að ferðast landshluta á milli fyrir fjölskylduna.

Nú eru synir mínir orðnir 14 og 18 ára og ég er afskaplega þakklát fyrir að þeir hafi líka fengið tækifæri til að kynnast þessari hlýju og góðu fyrirmynd sem afi minn var okkur öllum. Hann lék við þá á gólfinu þegar þeir voru ung börn, sat með þeim í flugvélaleik í tölvunni sinn þegar þeir voru aðeins eldri og ræddi svo við þá um daginn og veginn þegar þeir voru orðnir unglingar. Góðar minningar um Langa lifa áfram með þeim.

Það segir kannski einna mest um afa minn að þótt við höfum fengið næstum því 95 ár með honum þá hefðum við gjarnan viljað meiri tíma. Við erum þakklát fyrir öll þessi ár en söknuðurinn er mikill.

Takk fyrir allt elsku afi, blessuð sé minning þín.

Karen Júlía

Sigurðardóttir.

Elsku langi, minningarnar eru margar enda varst þú mikill fjölskyldumaður og skipaði fjölskyldan stóran sess í lífi þínu. Sara Mjöll var svo lánsöm að fá að vera í pössun hjá þér og langömmu frá eins árs aldri og þangað til hún komst inn á leikskóla og Stefán Kári fékk oft að koma í pössun líka þegar hann var lítill. Minningarnar frá þeim tíma eru margar, allar gönguferðirnar með þér og langömmu í Laugardalinn að skoða fuglana, á leikvöllinn og svo í fiskbúðina til að kaupa fisk í hádegismatinn. Þú varst einstaklega þolinmóður og duglegur að sinna okkur, nenntir alltaf að leika við okkur bæði úti og inni, sagðir okkur margar sögur og hrósaðir okkur óspart. Þó að þú ættir erfiðara með að fara niður á gólf og leika þegar Kristinn Snær og Jökull Páll voru yngri þá léstu það ekkert stoppa þig, alltaf tilbúinn til að leika og hafa ofan af fyrir okkur. Þú hafðir mikinn áhuga á flugi og öllu sem því tengdist og hafðir gaman af því að sitja við tölvuna þína og fljúga. Þá leiddist þér ekki að leyfa okkur að sitja í fangi þínu og hjálpa þér að fljúga. Nú situr Kristinn Snær, flugmaðurinn þinn eins og þú kallaðir hann oft, og flýgur í sinni tölvu og skoðar bækurnar um flugvélar sem þið skoðuðuð svo oft saman.

Elsku langi, þú varst alltaf svo duglegur að koma og heimsækja okkur og fylgjast með öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Þú ljómaðir alltaf þegar við komum í heimsókn og spurðir hvernig gengi í skóla og íþróttum, hrósaðir okkur óspart og stoltið leyndi sér ekki. Við trúum því að þú sitjir nú í sumarlandinu og haldir áfram að fylgjast með okkur, segja sögur, rifja upp minningar og monta þig af öllum afrekum okkar. Þú og langa voruð alla tíð svo samhent að við töluðum yfirleitt um ykkur bæði, langa og löngu, í sömu setningu. Það er því tómlegt að horfa á annan stólinn auðan þegar við komum að heimsækja löngu á Eir.

Takk fyrir allt elsku langi.

Sara Mjöll, Stefán Kári, Kristinn Snær og

Jökull Páll.

í dag verður til grafar borinn minn yndislegi bróðir, Jóhann Eyrbekk, eða Hanni eins og við kölluðum hann. Hanni var einstaklega ljúfur, fallegur og hlýr maður, sem var alltal boðinn og búinn til að aðstoða og hjálpa þeim sem til hans leituðu.

Hann lærði rafvirkjun og vann við það allan sinn starfsaldur. Fyrstu árin á verkstæði og síðar hjá Flugfélagi Íslands og Flugleiðum, en þar vann hann við viðhald á Reykjavíkurflugvelli.

Hann var einstakt snyrtimenni enda bar heimili hans og Laufeyjar merki þess að þar fóru saman tveir einstaklingar sem dáðu hvort annað og vildu hafa fallegt í kringum sig.

Þau bjuggu lengst af í Sólheimum 56 og þá nutu þau þess að sækja messur hjá séra Sigurði Hauki í Langholtskirkju. Þau voru bæði virk í kirkjustarfinu, hann í starfi bræðrafélagsins og einnig lét hann sig ekki vanta þegar verið var að byggja kirkjuna, því þar unnu félagar við ýmis störf í sjálfboðavinnu. Þegar kór kirkjunnar hélt tónleika voru þau hjónin alltaf mætt í sín sæti og fóru þau nokkrar ferðir með kórnum erlendis.

Hanni var handlaginn og fór að sækja útskurðarnámskeið og skar út fallega muni sem hann gaf frá sér. Ég á fallega útskorna viðarplötu af Jóhanni afa okkar frá Litlu-Háeyri á Eyrarbakka (1872-1952), þar sem gamli maðurinn er að koma úr róðri klæddur í olíustakk, sauðskinnsskó og með stóran sjóhatt.

Ég og mín fjölskylda eigum ekkert nema yndislegar og fallegar minningar um elsku Hanna minn, sem við munum ávallt varðveita. Elsku Laufey mín og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur og megi góður Guð blessa minningu

hans.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Hrefna, Ólafur,

Fjóla, Ólafur Haukur

og fjölskyldur.