Sögukennari Veröld okkar breytist hratt og til að mæta því eru menntun og þekking mikilvægt veganesti.“ segir Auður Þóra.
Sögukennari Veröld okkar breytist hratt og til að mæta því eru menntun og þekking mikilvægt veganesti.“ segir Auður Þóra. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Nú er stríð í Úkraínu og mótmæli í Íran eru blóðug. Þegar slíkar aðstæður eru uppi er sjálfsagt að slíkt sé tekið fyrir í skólastarfi og nemendur fái kennslu um sögulegan bakgrunn átaka,“ segir Auður Þóra Björgúlfsdóttir, kennari við Kvennaskólann í Reykjavík og formaður Félags sögukennara. „Kennslu í sögu þarf þó að taka í stóru samhengi. Tæpast verður fjallað um Úkraínustríðið án þess að nemendur þekki aðeins til kalda stríðsins og falls Sovétríkjanna. Innrásin í Úkraínu og orðræða valdhafa í Rússlandi er áminning um að kennsla í sögu og gagnrýninni hugsun skiptir máli.“

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Nú er stríð í Úkraínu og mótmæli í Íran eru blóðug. Þegar slíkar aðstæður eru uppi er sjálfsagt að slíkt sé tekið fyrir í skólastarfi og nemendur fái kennslu um sögulegan bakgrunn átaka,“ segir Auður Þóra Björgúlfsdóttir, kennari við Kvennaskólann í Reykjavík og formaður Félags sögukennara. „Kennslu í sögu þarf þó að taka í stóru samhengi. Tæpast verður fjallað um Úkraínustríðið án þess að nemendur þekki aðeins til kalda stríðsins og falls Sovétríkjanna. Innrásin í Úkraínu og orðræða valdhafa í Rússlandi er áminning um að kennsla í sögu og gagnrýninni hugsun skiptir máli.“

Sögukennsla í skólum er á undanhaldi og hefur að mörgu leyti orðið afgangsstærð, enda aðrar námsgreinar settar í forgang. Þetta er áhyggjuefni meðal sögukennara framhaldsskólanna sem funduðu um málið í síðustu viku. Sums staðar hefur saga verið felld út úr kjarna náms, til dæmis til stúdentsprófs, og um slíkar ráðstafanir eru skiptar skoðanir. Viðhorf um þetta voru rædd á fundi Sagnfræðingafélags Íslands sem haldinn var í síðustu viku. Rauður þráður í málflutningi þar var að kennsluefni vantaði í sögu sem hefði minnkandi vægi í náms- og stundaskrám.

Án þess að þurfa einn einasta söguáfanga

„Ákvörðun um að minnka vægi sögukennslu er skólanna, stjórnenda þeirra og kennara, enda móta þeir námskrár sem svo þurfa samþykki menntamálaráðuneytis. Framhaldsskólalög frá árinu 2008 og námskráin sem fylgdi hafa opnað á að hægt er að bjóða upp á bóknámsbrautir til stúdentsprófs án þess að nemendur þurfi að taka einn einasta söguáfanga,“ segir Auður Þóra. Í þessu sambandi bendir hún til samanburðar á að til dæmis í Danmörku sé sögukennslu gert mjög hátt undir höfði. Nemendur þar, sem taka stúdentspróf á bóknámsbraut, séu í sögunámi öll þrjú framhaldsskólaárin og þegar kemur að innritun í háskóla sé sögunám oft aðgangsviðmið.

„Vissulega hefur mörgu í starfi framhaldsskóla á Íslandi verið breytt í tengslum við að nám til stúdentsprófs var stytt úr fjórum árum í þrjú. Við megum þó ekki einfalda mál um of. Svo virðist sem sótt sé að sögunni úr ýmsum áttum. Í Menntaskólanum í Reykjavík er enn mikil sögukennsla miðað við aðra skóla, 16 einingar í kjarna óháð braut. Félagsgreinar hafa almennt sterka stöðu í Kvennaskólanum í Reykjavík, þar sem ég kenni, þó í umræðunni sé að fækka þar einingum í kjarna í sögu á náttúrufræðibraut úr 10 í 5,“ segir Auður og heldur áfram:

„Sagnfræði er í dag flokkuð til hugvísinda og greinar í þeim flokki eiga erfitt uppdráttar nú til dags á framhaldsskólastiginu. Þá á ég til dæmis við erlend tungumál önnur en ensku. Í grunnskólum er saga kennd undir hatti samfélagsgreina og það virðist vera mjög mismunandi eftir skólum hver áherslan er á sögu milli skóla. Mörg fög hafa í dag verið sett undir hatt samfélagsfræðinnar.“

Nýtt námsefni sárvantar

Um 20 ár eru frá því síðasta kennslubók í sögu fyrir framhaldsskóla kom út. Bók um sögu Íslands og mannkyns frá lokum 19. aldar til dagsins í dag hefur þó verið endurnýjuð í vefútgáfu, en almennt segir Auður að sárlega vanti nýtt námsefni í sögu fyrir framhaldsskóla.

„Vissulega er vel hægt að kenna sögu án námsbókar, en þá fer mikil vinna kennara í að finna námsefni. Því er mikilvægt að gefnar séu út vandaðar kennslubækur, til dæmis á netinu, þar sem efni er sett fram skýrt, hnitmiðað og myndrænt,“ segir Auður. Hún bætir við að vissulega sé rétt að finna megi svör við flestu til dæmis í leitarvélum á netinu. Slíkt dugi þó ekki; mikilvægt sé fyrir ungt fólk að þekkja að minnsta kosti allra stærstu viðburði sögunnar og hafa þekkingu og færni til að geta metið þær upplýsingar sem finna má.

„Söguþekking er fólki nauðsynleg til að hafa læsi á mál sem eru í fréttum eða efst á baugi í þjóðfélagsumræðunni. Mikilvægt hlutverk sögukennara er að þjálfa nemendur í gagnrýninni hugsun. Sögukennsla í dag miðar almennt ekki að því að mata nemendur bara á staðreyndum. Sókrates var búinn að komast að því þegar á 5. öld fyrir Krist að slíkt var ekki leiðin til náms.“

Enginn stöðvar tímans þunga nið, segir í ljóðinu. Dagur fellur af degi og mannfólkið mótar söguna í sambýli sínu við reginöfl náttúrunnar. Að þekkja til þessarar framvindu sem aftur mótar framtíðina er nauðsynleg. Atburðir og mál af alþjóðavettvangi sem má ætla að fólk þurfi að þekkja eru til dæmis helförin, heimsstyrjaldir, kalda stríðið og þjóðernishyggja, sem djarfar fyrir á líðandi stundu. Af innlendum vettvangi er efnahagshrunið 2008 nokkuð sem mikið má læra af og nú eru að renna upp þeir tímar að baráttan við kórónuveiruna verði lærdómsrík saga.

Tími og mannréttindi

„Í framhaldsskólunum er auðvitað ekki hægt að kenna nemendum allt sem vert væri. En mikil ósköp; við þurfum að þekkja fortíð og sögu til að geta lesið í flókið samfélag 21. aldarinnar. Nemendur mínir vildu að minnsta kosti meina að svo væri þegar ég spjallaði við þá um nákvæmlega þetta í kennslustund í morgun. Við lærum af sögunni og gætum gert betur þar. Hér í Kvennó höfum við alltaf lagt töluvert mikið upp úr því að kenna um mannréttindabaráttu hinna ýmsu hópa. Ræðum að þó ákveðin réttindi séu í höfn þá er ekki sjálfsagt að þau sé komin til að vera að eilífu. Veröld okkar og samfélag breytast hratt og til að mæta því eru menntun og þekking mikilvægt veganesti,“ segir Auður Þóra að síðustu.

Hver er hún?

Auður Þóra Björgúlfsdóttir er fædd árið 1980 og menntuð í sagnfræði, alþjóðasamskiptum og kennslufræði. Hefur svo starfað sem framhaldsskólakennari í tæp 16 ár; aðallega við Kvennaskólann í Reykjavík.

Þegar starfi sleppir segist Auður reyna að eyða sem mestum tíma í Tyrklandi, sem er föðurland Ernu, dóttur hennar, sem er sautján ára. Þar eiga mæðgurnar sitt annað heimili og hafa tekið að sér kött, í bæ þar sem hvar þær eru umvafðar sögu, náttúrufegurð og vinalegu fólki.