Anton Sigurðsson fæddist 17. desember 1955. Hann varð bráðkvaddur 19. janúar 2023. Útför Antons fór fram 13. febrúar 2023.

Pabbi minn, ég er mjög þakklát fyrir öll góðu árin sem við áttum saman og allt það sem þú kenndir mér. Ég leit alltaf mikið upp til þín í æsku og minnist þess hvernig þú vildir bara að okkur systrunum liði vel en kenndir okkur samt að maður þarf að hafa fyrir hlutunum. Svo minntir þú okkur reglulega á hvað þú værir sko ríkur að eiga okkur.

Núna hugsa ég til allra góðu tímanna og þá kemur ýmislegt upp í hugann. Til dæmis man ég vel eftir þeim skiptum sem þú leyfðir mér sem barni að spreyja vatni á hárið þitt og klippa það, örugglega daginn áður en þú áttir að fara í klippingu, og þegar ég mætti í skólann daginn eftir montaði mig af að ég fengi að klippa hárið hans pabba.

Svo var alltaf gaman að fá að fara með þér í vinnuna og heim til fólks. En þegar maður nennti ekki að fara út meðal almennings þá fékk maður alltaf að heyra „maður er manns gaman“ eða að það væri svo „gaman að sýna sig og sjá aðra“. Já, þú varst mikil félagsvera og áttir marga vini og kunningja.

Svo rifjast upp þegar ég fékk að fara með þér á mótorkross-keppnirnar á Kirkjubæjarklaustri sem mér fannst mikið sport og á leiðinni fræddir þú mig um hvað öll fjöllin heita.

Þú varst líka alltaf hjálpsamur eins og þú sýndir og sannaðir þegar þú syntir lengst út í sjó út á Spáni og komst manni sem var að drukkna á land, þú beiðst ekki eftir að einhver annar myndi bregðast við og hjálpa sem sýnir hvernig maður þú varst.

Mér þykir mjög dýrmætt hvernig þú hjálpaðir mér í gegnum seinustu meðferð sem ég fór í, þá sendir þú mér nokkur bréf þar sem þú skrifaðir hvetjandi orð til mín og minntir mig á að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af neinu og að þú værir stoltur af mér.

Þótt sambandið hafi ekki verið mikið seinustu árin þá er ég mjög þakklát fyrir árin sem ég fékk með þér. Þú kenndir mér margt og hafðir marga góða eiginleika sem ég vil tileinka mér í lífinu.

Vonandi fáum við að hittast aftur, pabbi minn.

Anna Antonsdóttir.