Kristrún Frostadóttir
Kristrún Frostadóttir
„Við verðum tilbúin að vinna kosningar og taka við stjórnartaumunum og það sem er mikilvægast af öllu: Tilbúin að leiða raunsæjar breytingar — grundvallarbreytingar fyrir fólkið í landinu,“ sagði Kristrún Frostadóttir formaður…

„Við verðum tilbúin að vinna kosningar og taka við stjórnartaumunum og það sem er mikilvægast af öllu: Tilbúin að leiða raunsæjar breytingar — grundvallarbreytingar fyrir fólkið í landinu,“ sagði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar í setningarávarpi sínu á fundi flokksstjórnar um helgina. Inntak ræðunnar var brýning til fólks í Samfylkingu sem nú, að sögn formannsins, undirbýr að taka við stjórn landsmála og leiða breytingar. Þar verði lögð áhersla á kjarnamál jafnaðarmanna; kjör, velferð og efnahag venjulegs fólks.

„Verkefnin sem kalla,“ segir Kristrún Frostadóttir um úrlausnarefnin sem blasa við jafnaðarfólki og Samfylkingu, svo sem í húsnæðismálum og heilbrigðisþjónustu. „Við ætlum að endurreisa velferðarkerfið á Íslandi eftir áratug hnignunar. Og eftir því sem þessi ríkisstjórn hangir lengur á stólunum — algjörlega verkstola — þá bætist við verkefnalistann. Við ætlum að koma skikki á stjórn efnahagsmála; vinna gegn verðbólgunni um leið og við verjum heimilisbókhaldið hjá fólki,“ segir formaðurinn sem telur að sitjandi ríkisstjórn hafi misst stjórn á verðbólgu, vöxtum og fleiru.

„Launafólk hefur ekki lengur trú á því að hér sé þjónandi forysta sem stýrir þjóðarskútunni, skapi farveg samhjálpar og skilning á mikilvægi þess að kjarabætur séu sniðnar að þörfum fólksins í landinu gegnum velferðarkerfið okkar. Þessi staða bitnar líka á litlu fyrirtækjunum í landinu sem flest eiga ekkert skylt við þau stóru.“

Í Samfylkingu á nú að þétta raðir með málefnastarfi, þar sem setja á fram forgangsröðun og pólitíska stefnu í ákveðnum málaflokkum. Byrjað verður á heilbrigðismálum og öldrunarþjónustu með starfi stýrihóps undir stjórn Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, leiðtoga öldrunarmála hjá Reykjavíkurborg. Atvinna, samgöngur og húsnæðis- og kjaramál verða svo brotin til mergjar með líku lagi á næstu misserum. sbs@mbl.is