Nú er spurning hvort pólitískur skjálfti fylgir í kjölfarið

Mánuður er í dag síðan jörð skalf í Tyrklandi og hluta Sýrlands með skelfilegum afleiðingum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sagt skjálftann, sem var 7,8 að stærð, vera verstu náttúruhamfarir sem gengið hafa yfir Evrópu í heila öld. Eflaust má það til sanns vegar færa. Yfir fimmtíu þúsund létust í skjálftanum, sem reið yfir þegar fólk var í fastasvefni kl. 4:17 að nóttu og átti sér engrar undankomu auðið. Um 90% hinna látnu voru í Tyrklandi, en hinir í Sýrlandi, en um 10% þeirra sem voru Tyrklands-megin voru að vísu flóttamenn frá Sýrlandi, því að íbúar þar hafa mátt þola aðrar hamfarir um árabil; stríðshörmungar sem valdið hafa fjöldaflótta úr landinu.

Mannfallið er vitaskuld það skelfilegasta við þennan mikla skjálfta, en tjón á mannvirkjum er einnig gríðarlegt. Tyrknesk yfirvöld hafa sagt að 214.000 byggingar hafi hrunið af völdum skjálftans en að auki hafa samgöngumannvirki og fleira farið mjög illa á stórum svæðum. Talið er að um fjórtán milljónir Tyrkja, sjötti hver íbúi landsins, hafi orðið fyrir beinum áhrifum af skjálftanum, og Erdogan forseti segir að yfir þrjár milljónir hafi orðið að flýja hamfarasvæðin.

Erdogan hefur sætt töluverðri gagnrýni fyrir síðbúin og veik viðbrögð yfirvalda við skjálftanum og hefur viðurkennt að þau hafi verið ófullnægjandi og beðist afsökunar á því. En hann hefur líka nefnt að útilokað sé að vera búinn undir hamfarir af þessari stærðargráðu og það er mikið til í því. Hvernig í ósköpunum ætti ein þjóð að geta búið sig undir slíkt með fullnægjandi hætti? Erfitt er að sjá að það sé raunhæft og þess vegna skiptir miklu að alþjóðleg aðstoð berist hratt og örugglega þegar slíkt ríður yfir, en þar vantaði einnig nokkuð upp á þó að ekki verði heldur horft fram hjá því að afar erfitt var að koma aðstoð þangað sem hennar var þörf.

Það sem þjóðir geta þó gert til að búa sig undir stóra jarðskjálfta, einkum þar sem byggt er á þekktum jarðskjálftasvæðum eins og á við um það fimm hundruð kílómetra langa svæði sem varð fyrir skjálftanum nú, er að tryggja að byggingar standist slíkt álag og þó þær kunni að skemmast að þá hrynji þær ekki til grunna og grafi alla sem inni eru undir rústunum. Á þessu hefur verið mikill misbrestur í Tyrklandi og verktakar hafa komist upp með að fara afar frjálslega eftir fyrirmælum byggingaryfirvalda. Þetta verður líklega meðal þess sem valda mun Erdogan erfiðleikum í komandi kosningum, en þær eiga að fara fram um miðjan maí. Þá verður deilt um hvort stjórn hans ber ábyrgð á þeim lélegu mannvirkjum sem urðu til þess að svo margir létu lífið, eða hvort sá vandi er eldri. Bent hefur verið á að flest þau hús sem hrundu hafi verið byggð áður en Erdogan komst til valda árið 2003, fyrst sem forsætisráðherra en svo sem forseti frá árinu 2014.

Hvort það hjálpar honum er óvíst. Segja má að það sé kaldhæðni örlaganna að jarðskjálfti geti orðið forsetanum að falli nú, en stór og mannskæður jarðskjálfti árið 1999 og gagnrýni Erdogans þá á viðbrögð stjórnvalda hjálpuðu honum að styrkja pólitíska stöðu sína og ná embætti forsætisráðherra. Síðan hefur pólitísk staða hans styrkst enn frekar, meðal annars með umdeildum lagabreytingum sem hann hefur náð í gegn, og eru völd forsetans nú meiri en góðu hófi gegnir að margra mati, ekki síst stjórnarandstöðunnar í Tyrklandi.

Stjórnarandstaðan í landinu er hins vegar sundurleitur hópur og Erdogan hefur meðal annars þess vegna tekist að deila og drottna jafn lengi og raun ber vitni. Stjórnarandstöðuflokkarnir hafa gert sér grein fyrir þessu og sex þeirra sameinuðust gegn Erdogan með áform um að bjóða fram sameiginlegt forsetaefni í maí. Nú er ekki útlit fyrir að það takist, því formaður næststærsta stjórnarandstöðuflokksins hefur lýst sig algerlega andsnúinn þeirri niðurstöðu sem varð um frambjóðanda, en það var leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins sem flestir sameinuðust um.

Engin leið er að segja til um það nú hvernig úr spilast, en sundurlyndi stjórnarandstöðunnar eykur í það minnsta líkurnar á að Erdogan verði áfram í sínu sæti eftir kosningarnar í maí.