Sverrir Vilhelm Bernhöft fæddist 29. október 1945. Hann lést 29. janúar 2023. Sverrir var jarðsunginn 17. febrúar 2023.

Mig langar að kveðja mág minn og vin, Sverri Vilhelm Bernhöft, með fáeinum orðum.

Ég kynntist Sverri fyrst þegar ég var um ellefu eða tólf ára gamall, eða á þeim tíma þegar hann og systir mín voru að kynnast. Ég hafði gaman af Sverri því hann var orkumikill og fullur eldmóðs. Það gustaði af honum og fór ekkert á milli mála hver væri á ferðinni þegar Sverrir Bernhöft mætti á staðinn, hávaxinn og yfirburðaglæsilegur maður. Í návist Sverris miðlaði hann oftar en ekki heimspeki sinni, lífsreynslu og gjarnan þeim viðskiptamöguleikum sem hann sá í hinu og þessu til manns, því hann vildi mér ávallt vel. Sverrir hafði reyndar tröllatrú á mér og oft var það hann sem stappaði í mig stálinu þegar ég var eitthvað lítill í mér eða óöruggur með mína vegferð. Á sama tíma gat hann líka á stundum verið skaphundur, við gátum hnakkrifist og verið ósammála um margt, en líka skemmt okkur konunglega saman og yfirleitt var stutt í hláturinn, því það var einn af hans mörgu kostum að hafa góða kímnigáfu. Þær eru ófáar hláturrokurnar sem við tókum saman. Það hló enginn eins og Sverrir, hátt og mikið. Sverrir var drengur góður og var sannur vinur vina sinna, stórtækur og gjafmildur. Hann sá einstaklega vel fyrir fjölskyldunni sinni og skóp þeim aðstæður til að búa fallega. Þó svo að Sverrir gæti á stundum virkað hrjúfur, þá innst inni var hann frekar meyr og mátti í raun ekkert aumt sjá. Ef einhver var í vandræðum sem honum þótti vænt um, þá var hann mættur til að rétta fram hjálpahönd - þannig var hann bara.

Það eru ótaldar bílferðirnar sem við tveir rúntuðum um sveit og bæ og töluðum opinskátt um hvað væri í gangi í lífi okkar hverju sinni. Við hittumst líka víðsvegar um heiminn og áttum ætíð skemmtilegar og fallegar stundir saman. Mér þótti mjög vænt um þær stundir og hef saknað þeirra mikið seinustu árin. Lífið er hverfult og tekur oft óvænta stefnu og því miður veiktist Sverrir alvarlega fyrir um fjórtán árum og náði sér aldrei aftur á strik eftir það. Veikindin voru mikið högg og reiðarslag fyrir mann sem var fullur orku, alltaf á ferðinni og með hjartað og höfuðið stútfullt af draumum og framtíðarmarkmiðum.

Fyrir 10 árum fluttist ég til útlanda og lífið og aðstæður urðu til þess að samskipti okkar Sverris voru engin eftir það. Ég harma það, því ég á Sverri svo margt að þakka og þótti afar vænt um hann og okkar áratuga vinskap og bý sannarlega vel að þeim ráðum sem hann gaf mér og má segja að mörg þeirra hafi lýst minn veg og þá stefnu sem ég hef kosið að taka í lífinu. Gullkornin hans Sverris lifa áfram og eru í hávegum höfð. Far í Guðs friði og sofðu vært, Sverrir minn. Takk fyrir allt og allt og við hittumst kannski einhvern tímann aftur og tökum gott spjall og nokkrar hláturrokur saman - það er mér mikið tilhlökkunarefni, elsku vinur og mágur. Ég kveð þig með þinni eigin þversagnarkenndu lífsspeki og sé fyrir mér að við skellum upp úr saman þegar ég segi: „Bless vinur og gangi þér vel, bara ekki betur en mér!“

Richard Scobie.