Jóhann Ingi Guðjónsson
Jóhann Ingi Guðjónsson
Fullgildar rafrænar undirskriftir eru öruggasti valkosturinn þegar kemur að undirskriftum í dag og því er mikilvægt að halda áfram að þróa tæknina.

Jóhann Ingi Guðjónsson

Rafræn undirskrift er ferlið þegar notast er við stafrænar aðferðir til að undirrita skjöl. Notkun þeirra hefur aukist hratt á Íslandi og með áframhaldandi þróun tækninnar er líklegt að hún muni halda áfram að vaxa og dafna. Skoðum dæmi sem gætu mótað framtíð þeirra.

Gervigreind

Gervigreind er að þegar byrjuð að breyta lífi okkar með því að því að gera ýmsa ferla einfaldari og skilvirkari – og rafrænar undirskriftir ættu ekki að vera undantekning.

Skjalaundirbúningur - Með gervigreind væri hægt að búa til skjöl sjálfkrafa, sem myndi draga úr þörfinni fyrir handvirkan innslátt og bæta skilvirkni rafræna undirskriftarferlisins. Þannig gæti gervigreindin útrýmt mannlegum mistökum við skjalagerð og auðveldað ferlið samtímis.

Greining svika – Gervigreind getur greint undirskriftarferlið og uppgötvað hugsanleg svik, svo sem falsanir eða hagræðingar á skjölum. Með því að greina svik áður en þau verða stærra vandamál getur gervigreind hjálpað til við að tryggja öryggi og takmarkað skaða.

Persónustilling – Gervigreind gæti greint þarfir og óskir notenda og bent á bestu undirskriftarmöguleikana, til dæmis öryggisstig undirskriftar með tilliti til gerðar skjalsins. Þetta gæti hjálpað til við að gera rafræna undirskriftarferlið þægilegra og notendavænna – og bætt innleiðingu hjá hópum sem kunna lítið á tæknina.

Bálkakeðjur

Bálkakeðju má líkja við opinbera minnisbók sem allir geta skoðað og bætt við, en enginn getur breytt því sem hefur verið ritað. Þegar einhver vill bæta við upplýsingum verða þær að vera samþykktar af öllum aðilum. Bálkakeðjur eru dreifstýrðar, þannig enginn einstaklingur eða fyrirtæki er í forsvari þess.

Skjalavarsla og gagnsæi - Bálkakeðjur leyfa ekki breytingar á skráðum upplýsingum, því er ekki hægt að eiga við skjal eftir að það hefur verið skráð. Allir geta séð viðskiptasöguna og sannreynt innihald skjalsins, sem myndi draga úr hættu á svikum. Þó skal taka fram að ekki er hægt að eiga við skjal með fullgildri rafrænni undirskrift – en tækni er sífellt að þróast og mikilvægt að aðlagast framtíðinni.

Samræmi og samvirkni - Með auknu gagnsæi er auðveldara fyrir eftirlitsaðila að fylgjast með að öllum lögum sé fylgt. Þá er hægt að geyma og sannreyna rafrænar undirskriftir á stöðluðu sniði. Þar sem allir aðilar hafa aðgang að sama gagnasafni er auðveldara fyrir kerfi og hugbúnaði að tala saman. Þetta gæti bætt skilvirkni og dregið úr þörfinni fyrir handvirkum verkferlum.

Þó að rafrænar undirskriftir séu gríðarlega hentugar getur samþætting gervigreindar og bálkakeðjutækni gert þær enn þægilegri. Fullgildar rafrænar undirskriftir eru öruggasti valkosturinn þegar kemur að undirskriftum í dag og því er mikilvægt að halda áfram að þróa tæknina.

Höfundur er markaðs- og samskiptastjóri Dokobit, leiðandi fyrirtækis í rafrænum undirskriftum.