Sigurreif Diljá var ánægð með verðlaunagripinn á laugardagskvöldið.
Sigurreif Diljá var ánægð með verðlaunagripinn á laugardagskvöldið. — Morgunblaðið/Eggert
Ellen Geirsdóttir Håkansson ellen@mbl.is Diljá Pétursdóttir, 21 árs söngkona úr Kópavogi, sigraði í Söngvakeppni Sjónvarpsins sem fram fór á laugardagskvöld. Hún söng lagið Power sem hún samdi sjálf með Pálma Ragnari Ásgeirssyni.

Ellen Geirsdóttir Håkansson

ellen@mbl.is

Diljá Pétursdóttir, 21 árs söngkona úr Kópavogi, sigraði í Söngvakeppni Sjónvarpsins sem fram fór á laugardagskvöld. Hún söng lagið Power sem hún samdi sjálf með Pálma Ragnari Ásgeirssyni. Diljá hafði betur í einvígi við hljómsveitina Langa Sela og Skuggana sem fluttu lagið OK.

Aldrei hefur verið meiri þátttaka í atkvæðagreiðslu Söngvakeppninnar að því er fram kemur á vef RÚV, rétt tæplega 260 þúsund atkvæði bárust samtals.

Þar með er ljóst að Diljá verður fulltrúi íslensku þjóðarinnar í Eurovision sem fram fer í Liverpool í maí.

„Í mínum huga er Eurovision skemmtilegasta konsept í heiminum. Eurovision er hátíð þar sem Evrópa sameinast með tónlist,“ sagði Diljá í viðtali við mbl.is í aðdraganda keppninnar en þar kom jafnframt fram að hana hefur dreymt um sigur síðan hún var sjö ára gömul.

Ekki náðist í Diljá í gær þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir en Pálmi Ragnar sagði í samtali við mbl.is að mikið spennufall hefði verið að vakna daginn eftir sigurinn. Hann var spar á yfirlýsingar um sigur úti í Liverpool. „Ég ætla ekki að fara í neinar slíkar fullyrðingar en við förum bara út og gerum okkar allra besta og spyrjum svo að leikslokum, segjum það.“

„Það er ótrúlega gaman að taka þátt í þessari keppni en eins og ég sagði þá er þetta „all consuming“ og einhverra hluta vegna stressar mig alveg svakalega mikið. Þannig ég er guðslifandi feginn að þetta sé búið, það verður eiginlega bara að orða það þannig,“ segir Pálmi og hlær.

Hvernig horfa næstu mánuðir við ykkur í teyminu?

„Það þýðir lítið að spyrja mig um næstu mánuði núna, ég veit ekki einu sinni hvað ég á að gera út daginn. Ég get örugglega svarað því betur eftir viku, þegar ég veit eitthvað meira hvernig þetta verður. Ég efast ekki um að þetta verði mikið af skemmtilegri og góðri vinnu og við erum klár í þetta, það er ekki flóknara en það.“