Tónlist Gunnar lýsir breyttu rekstrarumhverfi tónlistarfólks og nefnir að hrun hafi orðið í plötusölu.
Tónlist Gunnar lýsir breyttu rekstrarumhverfi tónlistarfólks og nefnir að hrun hafi orðið í plötusölu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anton Guðjónsson anton@mbl.is Á árinu 2022 hlutu 74 umsækjendur endurgreiðslu vegna hljóðritunar á tónlist, samtals 27.196.852 krónur. Þar af voru erlend verkefni 26% og innlend 74%. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu við fyrirspurn Morgunblaðsins. Er þetta tæplega helmingi lægri fjárhæð en endurgreidd var á árinu 2021, en þá voru greiddar til baka 56.245.652 krónur.

Anton Guðjónsson

anton@mbl.is

Á árinu 2022 hlutu 74 umsækjendur endurgreiðslu vegna hljóðritunar á tónlist, samtals 27.196.852 krónur. Þar af voru erlend verkefni 26% og innlend 74%. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu við fyrirspurn Morgunblaðsins. Er þetta tæplega helmingi lægri fjárhæð en endurgreidd var á árinu 2021, en þá voru greiddar til baka 56.245.652 krónur.

Lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist tóku gildi þann 19. október 2016. Markmið laganna var að efla tónlistariðnað á Íslandi með því að veita útgefendum hljóðrita tímabundinn rétt til 25% endurgreiðslu á kostnaði sem fellur til við hljóðritun hér á landi.

Á fyrsta árinu eftir að lögin tóku gildi, árið 2017, voru endurgreiddar 7.554.022 krónur. Ári síðar var upphæðin rúmlega tvöfalt hærri eða 16.286.031 krónur. Á árinu 2019 var svo aðeins meira greitt út, eða 20.190.359 krónur. Árið 2022, þegar heimsfaraldurinn hófst, voru endurgreiddar 39.743.415 krónur til tónlistarmanna vegna hljóðritunar, tvöföldun frá árinu á undan. Árið 2021 var metár þegar rúmar 56 milljónir króna voru greiddar út, en í fyrra voru 27 milljónir greiddar út. Gunnar Hrafnsson, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna, FÍH, telur að um sé að ræða áhrif vegna heimsfaraldursins og að hljóðritun á tónlist sé í miklum vexti á Íslandi um þessar mundir.

„Ég held að þetta sé búið að vera stigvaxandi. Svo finnst mér núna, á síðustu metrunum, þá er þetta að taka risastökk og það helgast svolítið af því sem er að gerast hjá Menningarfélagi Akureyrar (MAK) fyrir norðan og Reykjavík Recording Studios í Reykjavík þar sem kvikmyndatónlistin er að koma öflug inn,“ segir Gunnar í samtali við Morgunblaðið. Hann segir Covid skýra þann samdrátt sem varð í endurgreiðslum á síðasta ári.

„Það er sennilega summan af verkefnum sem eru að klárast þarna í sambandi við Covid því að þá var allt í frosti. Við erum mjög sátt við það sem við höfum séð á síðustu umsóknum, þetta er að jafna sig aftur, sem betur fer,“ segir Gunnar.

Endurgreiðslur til erlendra aðila hafa farið stigvaxandi en á tímabilinu 2017-2021 fóru um það bil 30% af heildarendurgreiðslum til erlendra aðila. Gunnar segir að í mörgum tilvikum komi íslenskir flytjendur að þeim verkefnum og tekur sem dæmi kvikmyndatónlist sem er tekin upp hér á landi.

„Það skilar sér í íslenskri vinnu og í vinnu íslensks tæknifólks. Það er verið að nota íslenska flytjendur í þessum verkefnum. Ég held að við séum að ná í sneið af kökunni erlendis frá, að verkefnin séu unnin hér með íslensku listafólki. Við erum svo heppin að fá oft verðug tækifæri, þetta er eitthvað sem kallar á gæði, þú getur ekki sett einhverja „amatöra“ í þetta. Þetta fer á dómharða staði, hvort sem það er Netflix eða Disney eða eitthvað ámóta,“ segir Gunnar.