Reykjavík Mikið er byggt á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir, til dæmis efst í Úlfarsárdalnum þar sem þessi mynd var tekin.
Reykjavík Mikið er byggt á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir, til dæmis efst í Úlfarsárdalnum þar sem þessi mynd var tekin. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Háir vextir og verðbólga eru farin að bíta, svo húsnæðismarkaðurinn er hálffrosinn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. „Við slíkar aðstæður hægir eðlilega á markaðinum sem þó kallar eftir að áfram verði byggt, eins og ég tel líka að eðlilegt sé að ríkið styðji við. Fyrir sveitarfélög eru hraður vöxtur og uppbygging áskorun. Aðkoma ríkisins að málum getur því verið nauðsynleg og slíkt viljum við líka gera.“

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Háir vextir og verðbólga eru farin að bíta, svo húsnæðismarkaðurinn er hálffrosinn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. „Við slíkar aðstæður hægir eðlilega á markaðinum sem þó kallar eftir að áfram verði byggt, eins og ég tel líka að eðlilegt sé að ríkið styðji við. Fyrir sveitarfélög eru hraður vöxtur og uppbygging áskorun. Aðkoma ríkisins að málum getur því verið nauðsynleg og slíkt viljum við líka gera.“

Sjóður til stuðnings

Í Morgunblaðinu á laugardag var sagt frá mikilli uppbyggingu í Vogum á Vatnsleysuströnd. Þar eru nú 250 íbúðir í byggingu og búist er við að íbúum í byggðarlaginu fjölgi um vel á þriðja hundrað á árinu. Fyrir fjárhag sveitarfélagsins er þróun þessi krefjandi. Því nefnir Gunnar Axel Axelsson sveitarstjóri þá hugmynd að settur verði á laggirnar innviðasjóður, þar sem sveitarfélög sem þurfa að ráðast í stór fjárfestingarverkefni vegna fjölgunar íbúa geti sótt stuðning.

Markmið til að vinna út frá

Síðastliðið sumar var undirritað samkomulag ríkis og sveitarfélaga um byggingu 35 þúsund nýrra íbúða á næstu tíu árum. Markmiðið er að tilbúnar verði minnst 4.000 íbúðir á ári fyrstu fimm árin og 3.500 íbúðir hin fimm síðari. Einnig að ríki og sveitarfélög komi að byggingu allt að 30% þessara íbúða, með stofnframlögum, hlutdeildarlánum, aðgangi að hagkvæmu lánsfé og fleiru slíku. Þannig verði hægt að tryggja nægt framboð eigna á viðráðanlegu verði. Þá er stefnt að því að 5% tilbúinna eigna verði félagslegar, það er til útleigu fyrir fatlað fólk, efnaminni hópa og svo framvegis.

„Þetta eru markmið sem við ætlum að vinna út frá húsnæðisáætlunum sem sveitarfélögin gera. Samningur við Reykjavíkurborg frá í janúar síðastliðnum var á þessum nótum og við viljum halda áfram á þessari braut. Öflug aðkoma ríkisins og sveitarfélaga að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á þessum nótum er nokkuð sem munar um,“ segir Sigurður Ingi. Hann telur enn fremur að mjög muni greiða fyrir uppbyggingu næstu ára að umsýsla húsnæðismála, þar með talin skipulagsmál, sé nú öll í umsjón stofnana innviðaráðuneytis. Slíkt geri ferlana sem á eftir koma greiðari.

Húsnæðisskortur úti á landi

Nauðsynlegt er að skapa jafnvægi í framleiðslu á nýjum íbúðum. Í því sambandi er bent á þá miklu uppbyggingu sem var 2004-2007, sem svo stöðvaðist í efnhagshruninu. Mörg ár tók að koma hjólunum aftur af stað.

„Slík teppa má ekki skapast aftur. Stundum þarf hið opinbera að stíga inn og leiða þróun. Slíkt þyrfti að gera núna víða úti á landi þar sem húsnæðisskortur stendur í vegi fyrir að fyrirtækin geti fengið til sín fólk, enda ekki markaðslegar forsendur fyrir því að byggja,“ segir Sigurður Ingi.