Hálfleikur Ummæli Christine Lagarde gefa til kynna að nær öruggt sé að stýrivextir SBE hækki um 50 punkta í þessum mánuði.
Hálfleikur Ummæli Christine Lagarde gefa til kynna að nær öruggt sé að stýrivextir SBE hækki um 50 punkta í þessum mánuði. — AFP/Frederick Florin
Í viðtali sem spænska dagblaðið El Correo birti um helgina kvaðst Christine Lagarde, seðlabankastjóri Evrópu, reikna með því að til skemmri tíma litið muni kjarnaverðbólga í Evrópu haldast há, þrátt fyrir að greina megi merki um að hægt hafi á hækkun neysluverðsvísitölu í álfunni

Í viðtali sem spænska dagblaðið El Correo birti um helgina kvaðst Christine Lagarde, seðlabankastjóri Evrópu, reikna með því að til skemmri tíma litið muni kjarnaverðbólga í Evrópu haldast há, þrátt fyrir að greina megi merki um að hægt hafi á hækkun neysluverðsvísitölu í álfunni. Undanskilur kjarnaverðbólga matvörur, áfengi, tóbak og eldsneyti þar eð þessir liðir geta sveiflast mikið í verði.

Sagði hún því verulegar líkur á að SBE hækki stýrivexti sína um 50 punkta á vaxtaákvörðunarfundi sem haldinn verður um miðjan þennan mánuð. Yrði vaxtahækkunin sú sjötta síðan í júlí síðastliðnum.

„Það er ljóst hvert leiðin liggur og þurfum við að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að ná verðbólgu aftur niður í 2%,“ sagði Lagarde.

Eru stýrivextir SBE á daglánum í dag 2,50% og hafa hækkað um þrjú prósentustig síðan í júlí. Vextir vegna skammtímalánafyrirgreiðslu eru í dag 3,00% og hafa hækkað í takt við daglánavextina.

Fyrir helgi greindu sérfræðingar JP Morgan frá því að þeir væntu þess að stýrivextir í Evrópu færu upp í 3,75% en Morgan Stanley spáir því að toppinum verði náð í 4%.

Spurð um spár markaðsgreinenda svaraði Lagarde að ekkert hámark væri á þeim stýrivöxtum sem SBE getur ákveðið, og að bankinn væri fyrst og fremst bundinn af 2% verðbólgumarkmiði. „Ég get ekki sagt neitt til um það hve hátt vextir fara, en ég veit að þeir verða hærri en þeir eru í dag og að við eigum ærinn starfa fyrir höndum áður en hægt verður að lýsa yfir sigri.“ ai@mbl.is