Akureyri Byggt verður stærra hjúkrunarheimili en stóð til fyrst.
Akureyri Byggt verður stærra hjúkrunarheimili en stóð til fyrst. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, hafa undirritað samning um stækkun á nýju hjúkrunarheimili í bænum. Í eldri samningi, sem forveri Willums, Svandís Svavarsdóttir, gerði var kveðið á um 60 íbúðir en nú voru áformin stækkuð í 80 íbúðir

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, hafa undirritað samning um stækkun á nýju hjúkrunarheimili í bænum.

Í eldri samningi, sem forveri Willums, Svandís Svavarsdóttir, gerði var kveðið á um 60 íbúðir en nú voru áformin stækkuð í 80 íbúðir. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næsta ári og að heimilið verði tilbúið til notkunar árið 2026.

Hjúkrunarheimilið mun rísa við Vestursíðu 13 í Glerárhverfi. Áætlaður heildarkostnaður nemur tæpum 4,3 milljörðum króna, sem skiptist þannig að ríkið greiðir rúma 3,6 milljarða og Akureyrarbær um 650 milljónir kr.

Gert er ráð fyrir að hjúkrunarheimilinu verði skipt niður í nokkrar litlar heimiliseiningar með um 8-11 einkarýmum ásamt sameiginlegum rýmum fyrir íbúa og starfsfólk.