Reykjanesbraut Þetta er kaflinn sem verður tvöfaldaður. Myndin er tekin í byrjun febrúar sl. þegar alvarlegt slys varð nálægt álverinu í Straumsvík.
Reykjanesbraut Þetta er kaflinn sem verður tvöfaldaður. Myndin er tekin í byrjun febrúar sl. þegar alvarlegt slys varð nálægt álverinu í Straumsvík. — Morgunblaðið/Eggert
Vegagerðin hefur auglýst eftir tilboðum í tvöföldun Reykjanesbrautar á um 5,6 kílómetra kafla milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns ásamt aðliggjandi hliðarvegum. Einnig er innifalið í verkinu bygging fimm brúarmannvirkja og einna undirganga úr stáli

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Vegagerðin hefur auglýst eftir tilboðum í tvöföldun Reykjanesbrautar á um 5,6 kílómetra kafla milli Krýsuvíkurvegar og Hvassahrauns ásamt aðliggjandi hliðarvegum. Einnig er innifalið í verkinu bygging fimm brúarmannvirkja og einna undirganga úr stáli.

Þessi hluti vegarins, við álverið í Straumsvík, er síðasti kafli Reykjanesbrautar, sem enn er einbreiður. Þetta hefur verið einn helsti slysakafli Reykjanesbrautar síðustu áratugina. Nú síðast varð alvarlegt umferðarslys þarna í byrjun febrúar sl. Tveir bílar skullu harkalega saman og slösuðust báðir bílstjórarnir, annar alvarlega.

Megintilgangur breikkunarinnar á kaflanum er að auka umferðaröryggi vegarins. Alþingi hefur tryggt fjármagn til verkefnisins.

Framkvæmdir við tvöföldun Reykjanesbrautar hófust fyrir 20 árum, þ.e. árið 2003, og hefur verkið síðan verið unnið í áföngum. Nú er komið að síðasta áfanganum.

Áætlað er að breikkun Reykjanesbrautar við Straumsvík taki þrjú ár og skal verkinu að fullu lokið 30. júní 2026.

Verk þetta er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Hafnarfjarðarbæjar, HS Veitna, Mílu, Orkufjarskipta, Ljósleiðarans, Carbfix og Veitna. Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilboðum skilað í síðasta lagi þriðjudaginn 4. apríl 2023.

Gríðarstórt verkefni

Af helstu magntölum má sjá að um er að ræða gríðarmikið verkefni. Bergskeringar verða 192.000 rúmmetrar og fyllingar 131.100 m3. Lagt malbik verður rúmlega 242 þúsund rúmmetrar og yfirborðsmerkingar verða 35 þúsund metrar að lengd. Og í mannvirki á kaflanum fara 1.824 rúmmetrar af steypu og 233 tonn af steypustyrktarjárni.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson