Skjöldur, Gunni og Kormákur segja að vaðmálsfatnaðurinn sé endingargóður og geti gengið milli kynslóða.
Skjöldur, Gunni og Kormákur segja að vaðmálsfatnaðurinn sé endingargóður og geti gengið milli kynslóða. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikill áhugi er á íslensku vaðmáli (e. tweed) sem Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar hóf framleiðslu á árið 2020. Þeir Skjöldur Sigurjónsson og Kormákur Geirharðsson eigendur fyrirtækisins og Gunni Hilmars yfirhönnuður segjast ekki geta kvartað yfir viðtökunum

Mikill áhugi er á íslensku vaðmáli (e. tweed) sem Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar hóf framleiðslu á árið 2020. Þeir Skjöldur Sigurjónsson og Kormákur Geirharðsson eigendur fyrirtækisins og Gunni Hilmars yfirhönnuður segjast ekki geta kvartað yfir viðtökunum. „Útlendingurinn virðist vilja vaðmál,“ segja þeir.

Efnið var formlega kynnt til sögunnar á Hönnunarmars sumarið 2020. Síðan þá hefur það ratað í margvíslegan klæðnað og fylgihluti, auk þess sem það nýtur vinsælda hjá bólstrurum. Þeir nota vaðmálið til að klæða gömul og ný húsgögn.

Á dögunum sýndi verslunin í fyrsta skipti heildstæða vörulínu, þar á meðal vaðmálsfatnað, á bás á einni virtustu herrafatasýningu í Evrópu, Pitti Uomo í Flórens á Ítalíu. Í kjölfarið var haldið á aðra sýningu í Danmörku á Copenhagen Fashion Week.

Meiri hressleiki í litum

Skjöldur segir að bás fyrirtækisins hafi verið öðruvísi á sýningunum og þá sérstaklega í Danmörku.

„Það er meiri hressleiki í litum hjá okkur og það vakti athygli,“ segir hann og bætir við að viðtökur hafi verið afar góður á báðum stöðum.

„Nú eru pantanir farnar að berast. Við sjáum að menn eru tína til eitt og annað úr línunni, oft svona bland í poka.“

Spurðir um möguleika á að opna útibú á erlendri grund segja þeir að í skoðun sé að opna litlar búðir inni í stórverslunum frekar en eigin búðir sem er dýrt og mikil áhætta.

„Merkið er að mörgu leyti tilbúið í það eftir áratuga þróun. Við höfum einnig rætt samstarf við verslanir sem er á svipuðum nótum og okkar.“

Herrafataverslunin rekur verslun á Laugavegi í Reykjavík, í Hveragerði, Hótel Geysi í samstarfi við Geysi og Reykjadal auk þess sem verslun fyrirtækisins í Leifsstöð opnar á ný innan skamms.

„Við höfum fengið góðar viðtökur á Íslandi síðan við kynntum þessar vaðmálsvörur til leiks. Sala á fatnaði og fylgihlutum eins og bindum, slaufum, töskum, inniskóm og sixpensurum hefur gengið mjög vel,“ segir Skjöldur.

Það tekur þó tíma að undirbúa útrás eins og þá sem nú er hafin.

„Við höfum nýtt tímann síðan við kynntum þetta til sögunnar á Íslandi til að straumlínulaga framleiðsluferlið og utanumhaldið. Svo ákváðum við núna í janúar að kíkja út og sjá hvort heimurinn hefði áhuga á vörunum. Undirbúningurinn hefur tekið nokkur ár.“

Þurftu að stækka vörulínuna

Gunni segir að til að fara með fatnað á herrafatasýningar erlendis sé nauðsynlegt að geta boðið vörulínu af ákveðnu umfangi.

„Við þurftum að stækka og styrkja vörulínuna til að vera samkeppnisfærir. Línan þurfti að sýna fyrir hvað við stöndum. Í dag samanstendur vörulínan okkar af öllu frá sokkum upp í hatta og allt þar á milli.“

Skjöldur segir að þessi góði undirbúningur hafi fært þeim byr í seglin á sýningunum. „Við birtumst gestum sem þetta tuttugu og sex ára gamla vörumerki sem við erum. Þú fékkst ekki á tilfinninguna að við værum algerir nýliðar. Í vörulínunni eru bolir, peysur, jakkaföt, yfirhafnir, sokkar, skór og smávara en vaðmálið er hjartað í línunni.“

Gunni bætir við að markmiðið með útrásinni sé að vera með heildstæða vörulínu sem seld er í aðrar búðir um allan heim.

Spurðir að því hvort notast sé við sama vörumerki og hér heima segja þeir ákveðið hafi verið að einfalda málið. K & S Reykjavík varð fyrir valinu sem vörumerki utan landsteinanna.

„Þeir heita svo erfiðum nöfnum herramennirnir,“ segir Gunni og hlær. „Fólki finnst reyndar stundum gaman að spreyta sig á þeim,“ segir Kormákur og brosir.

Fyrirtækið hefur ráðið þaulreyndan danskan sölustjóra sem fer á milli og hittir þá sem sýnt hafa vörunum áhuga.

„Þetta er reynslumikill maður. Hann var sölustjóri í tuttugu ár hjá Fillppa K í svíðjóð og stjórnaði söluvexti þeirra.“

Um markhópinn segja þremenningarnir að hann sé helst búðir á svipuðu reki og Herrafataverslun Kormáks og Skjaldar, búðir sem selja menningarklæðnað (e. Heritage Clothing).

„Svo eru útivistarverslanir einnig að panta frá okkur,“ segir Skjöldur.

Hann bætir við að til að línan yrði auðseljanlegri hafi verið ákveðið að skipta henni í fjóra flokka; Vaðmálsvörur, fylgihluti, jakkaföt og skyrtur og að lokum hverdagsklæðnað eins og boli og peysur.

„Með þessu finnur sölufólkið að hægt er að kynna vörurnar fyrir margs konar verslunum. Það eykur möguleika á að komast á breiðari markað.“

Þeir segja að ýmislegt hafi komið á óvart. „Til dæmis hafði einn bara áhuga á sokkunum okkar því hann rak skóbúð.“

Þá segja þeir að vaðmálið sem slíkt hafi komið mörgum á óvart. Menn hafi margir haft á orði að gæðin minntu á Harry´s Tweed, eitt það þekktasta í bransanum. „Fólki finnst gaman að geta fengið vaðmál úr nýrri átt.“

Efnið er framleitt í 100 ára gamalli verksmiðju í Austurríki. Lokameðhöndlun fer fram á Ítalíu.

„Þetta er flókið ferli og mikill nördismi að þróa þetta.“

Um það hvernig fyrirtækið er í stakk búið komi til þess að pantanir verði miklar, segir Kormákur að mögulega þá fái færri það en vilja. „En við vitum betur eftir mánuð hvernig þetta leggst. Við höfum tíma til að bregðast við.“

Spurðir um tímann sem tekur að framleiða vaðmálsflík segja þeir hann um 3-4 mánuðir frá því ull er send úr landi og þar til vaðmálið er tilbúið í metravís. „Ég hef stundum sagt að þetta sé ein meðganga,“ segir Kormákur. „Eða níu mánuðir, þ.e. frá því að við leggjum inn ullarpöntun hér heima og þar til flík er tilbúin til sölu.“

Vaðmálsfatnaður er endingargóður að sögn Skjaldar sem gerir hann mjög sjálfbæran. Hann geti gengið kynslóða á milli.

Þróun efnisins heldur áfram og segir Kormákur að til standi að þynna ullarþráðinn. „Þá getum við framleitt léttari föt. 500 gramma jakki verður 370 grömm.“

Stál í rennilása

Spurðir um áhrif faraldursins og stríðsins í Úkraínu á starfsemina segja þeir þau helst að vörur hafi selst upp vegna tafa í framleiðsluferlinu. „Helsti óvinur fatabransans í dag er skortur á aðföngum,“ segir Gunni. „Til dæmis ef það kemur upp skortur á stáli fyrir rennilása. En við höfum ekki lent eins illa í þessu og margir aðrir.“

Nú þegar er hönnun á vörulínu fyrir 2024 hafin. „Við erum að færa ferlið framar og þá ættum við að geta verið í ágætis stöðu eftir eitt ár,“ segja þeir félagar að lokum.