Ráðherra Lloyd Austin lofar Írak áfram hervernd og aðstoð.
Ráðherra Lloyd Austin lofar Írak áfram hervernd og aðstoð. — AFP/Saul Loeb
Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Lloyd Austin, birtist í gær óvænt í Írak og átti m.a. fund með bandarískum hermönnum sem þar eru staddir. Sagði hann Bandaríkin mundu áfram halda úti herliði í landinu, en nærri 20 ár eru nú liðin frá því að…

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Lloyd Austin, birtist í gær óvænt í Írak og átti m.a. fund með bandarískum hermönnum sem þar eru staddir. Sagði hann Bandaríkin mundu áfram halda úti herliði í landinu, en nærri 20 ár eru nú liðin frá því að Bandaríkjaher réðst inn í landið og steypti af stóli einræðisherranum Saddam Hussein. „Bandaríkjaher er reiðubúinn til að hafa fasta viðveru í Írak að beiðni ríkisstjórnar Íraks,“ sagði Austin við blaðamenn að loknum fundi með Mohammed al-Sudani forsætisráðherra. „Bandaríkin munu halda áfram að styrkja samstarf okkar með öryggi Íraks í huga, stöðugleika og fullveldi.“

Sudani forsætisráðherra tók í svipaðan streng. Sagði stöðugleika Íraks vera lykil að stöðugleika og öryggi alls svæðisins. Áfram verði mikilvægt að eiga í góðum samskiptum við Bandaríkin og önnur bandalagsríki.

Ríki íslams ógnar

Bandaríkin eru nú með 2.500 manna herlið í Írak og 900 hermenn í Sýrlandi. Megintilgangur heraflans er að aðstoða og þjálfa hersveitir heimamanna í baráttu þeirra við vígamenn Ríkis íslams. Vígasamtökin náðu árið 2014 að leggja undir sig talsverð landsvæði í Írak og Sýrlandi. Síðan þá hefur staða þeirra versnað mjög þótt samtökin séu áfram ógnandi.

Varnarmálasérfræðingar telja heimsókn Austins um margt merkilega. Ekki sé einungis verið að boða áframhaldandi herlið í landinu heldur er einnig verið að minnka líkur á því að klerkastjórn Íran nái áhrifum þar.

Höf.: Kristján H. Johannessen