Andvígur Meirihluti Borgarstjórnar samþykkti í gær tillögu borgarstjóra um að leggja Borgarskjalasafn niður.
Andvígur Meirihluti Borgarstjórnar samþykkti í gær tillögu borgarstjóra um að leggja Borgarskjalasafn niður. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Borgarstjórn samþykkti í gær á fundi sínum tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að Borgarskjalasafn verði lagt niður og safnkostur þess færður til Þjóðskjalasafns. Var tillagan samþykkt með ellefu atkvæðum meirihlutans gegn tíu atkvæðum minnihluta

Borgarstjórn samþykkti í gær á fundi sínum tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að Borgarskjalasafn verði lagt niður og safnkostur þess færður til Þjóðskjalasafns. Var tillagan samþykkt með ellefu atkvæðum meirihlutans gegn tíu atkvæðum minnihluta. Meirihlutinn felldi jafnframt frávísunartillögu Sjálfstæðisflokks, sem og breytingartillögu Sjálfstæðisflokks, Flokks fólksins, Vinstri grænna og Sósíalista.

Borgarstjóri sagði í umræðum um tillöguna að hún væri studd mjög gildum rökum, og sagði hann gagnrýni um að samráð hefði skort í aðdraganda tillögunnar vera fráleita. Áætlað er að tillagan muni kosta um 1,5 milljarð króna á næstu sjö árum, en hún þótti hagkvæmasti kosturinn af þremur í skýrslu KPMG um safnið.

Kvaðst Dagur skilja að það gæti verið viðkvæmt að gera breytingar. Borgin þyrfti að vanda sig í hverju skrefi en ekki væri hægt að horfa fram hjá því að mikillar fjárfestingar væri þörf, bæði hvað varðar stafræn mál og húsnæðismál.

Hraði og leynd einkennt málið

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega fyrirætlanir meirihlutans í ræðu sinni. Sagði hún hraða og leynd hafa einkennt aðdraganda þessa máls, þar sem tillagan hefði verið lögð fram af borgarstjóra fyrirvaralaust í borgarráði, án samráðs við yfirmenn og starfsfólk safnsins eða borgarstjórn. Þá hafi verið krafist leyndar um tillöguna og var hún trúnaðarmerkt í fundargerð borgarráðs.

„Ætlunin var að fá hana samþykkta í skjóli nætur og án opinberrar umræðu. Slík vinnubrögð vekja upp grunsemdir um að eitthvað annað búi að baki málinu en faglegur ávinningur. Þessum trúnaði var svo ekki aflétt fyrr en eftir að minnihlutinn hafði gagnrýnt vinnubrögðin harðlega,“ sagði Marta í ræðu sinni og spurði hvers vegna í ósköpunum krafist hefði verið leyndar um málið.

Marta sagði jafnframt að skýrslan sem tillagan byggðist á væri illa ígrunduð og að hún stæðist ekki minnstu skoðun. Hún sagði að þó skyldi fara hægt í að gagnrýna höfunda hennar, því þeir hefðu lýst því yfir að skýrslan væri einungis samin samkvæmt þeim upplýsingum sem þeim hafi verið skammtaðar. „En slíkar staðhæfingar kalla svo fram eftirfarandi tvær spurningar: Hvaða upplýsingum var skýrsluhöfundum skammtað og af hverjum?“

„Skýrslan ber öll merki þess að vera fyrir fram pöntuð réttlæting fyrir fólskuverk sem lítur út fyrir að byggjast á persónulegum hégóma og hefnigirni gagnvart embættismanni sem einungis hefur gerst sekur um vinsamlegar ábendingar um fagleg vinnubrögð,“ sagði Marta.

Flotið sofandi að feigðarósi

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, sagði í umræðunum að það væri langt síðan hún hefði séð jafnléleg vinnubrögð borgarmeirihlutans í jafnstóru máli, og sagði hún að fara þyrfti aftur til 2010 þegar ráðist var í sameiningar á leik- og grunnskólum í borginni.

Líf sagði að það liti út fyrir að afgreiða hefði átt málið með einu pennastriki og ýta því í gegn án umræðu. Vandaðri vinnubrögð hefðu verið að leggja skýrsluna fyrst fram og fá síðan viðbrögð samfélagsins og pólitíska umræðu.

„Hér er flotið sofandi að feigðarósi,“ sagði Líf og bætti síðar við að hún teldi að með tillögunni væri verið að spara aurinn og kasta krónunni.