New York Fjölskyldan við hinn fræga „Friends“-brunn í Central Park í New York. Frá vinstri eru Breki Páll, Amalía, Daddi, Sara og Stefanía.
New York Fjölskyldan við hinn fræga „Friends“-brunn í Central Park í New York. Frá vinstri eru Breki Páll, Amalía, Daddi, Sara og Stefanía.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sara Pálsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 8. mars 1983. „Þrátt fyrir að ég hafi flutt þaðan á sjötta ári finn ég alltaf fyrir mjög sterkri tengingu til Eyja.“ Fjölskylda móður hennar er frá Vestmannaeyjum en faðir hennar er ættaður frá Sviss og Vík í Mýrdal

Sara Pálsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 8. mars 1983. „Þrátt fyrir að ég hafi flutt þaðan á sjötta ári finn ég alltaf fyrir mjög sterkri tengingu til Eyja.“ Fjölskylda móður hennar er frá Vestmannaeyjum en faðir hennar er ættaður frá Sviss og Vík í Mýrdal. „Amma mín var frá Sviss en kynntist svo afa mínum úti og kom með honum til Íslands.“

Sara flutti til Bretlands þegar að hún var fimm ára með foreldrum sínum og yngri systur sem var þá eins árs. „Mamma og pabbi stofnuðu fyrirtæki og þessi tvö ár sem að þau ætluðu að vera erlendis urðu að tíu árum enda leið okkur svakalega vel á Humber-svæðinu.“ Þegar kom að því að fara í menntaskóla fór Sara heim í Verslunarskóla Íslands. „Ég átti þar frábær fjögur ár. Á þessum árum kynntist ég megninu af mínum allra bestu vinkonum en er svo lánsöm að eiga nokkra þétta og góða vinahópa í kringum mig í dag.“

Eftir stúdentsprófið ákvað Sara að prófa eitthvað nýtt og réð sig sem au-pair á Spáni í þrjá mánuði. „Mér fannst ég þurfa að prófa að standa á eigin fótum. Þaðan fór ég norður á Akureyri í háskóla, eflaust aftur til að breyta um umhverfi, kynnast nýju fólki og auka sjálfstæðið. Árin á Akureyri voru frábær og ég á ekkert nema yndislegar minningar þaðan.“ Eftir að hún lauk BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri fékk hún starf hjá Landsbankanum í London þar sem hún starfaði sem sérfræðingur í markaðsmálum. „Ég stoppaði stutt þar enda skall kreppan á og þar sem ég hafði takmarkaðan áhuga á að flytja heim til Íslands flutti ég til Grimsby en þar áttu pabbi og mamma enn þá hús og þáverandi maðurinn minn starfaði þar. Ég fékk þá vinnu sem markaðsgreinandi hjá alþjóðlegu fyrirtæki sem heitir Reckitt Benckiser. Þetta er árið 2009 og í lok þess árs eignast ég draumaprinsinn minn Breka Pál, en hann fæðist 2. september það ár. Ári seinna fluttum við til Vestmannaeyja og fljótlega bættist Eyjamærin Stefanía við fjölskylduna og ég lauk mastersgráðu í Alþjóðaviðskiptum í fjarnámi frá Bifröst.“

Árið 2013 flutti fjölskyldan í Hafnarfjörðinn og Sara fór að vinna í söludeild Eimskips og var þar næstu átta árin og líkaði mjög vel. „Ég vann með góðu fólki, fékk tækifæri til að taka að mér meiri ábyrgð og þegar að ég hætti haustið 2021 hafði ég starfað sem forstöðumaður Innflutnings í nokkur ár. Haustið 2021 fæ ég svo tækifæri til að taka við nýju sviði hjá Landsbankanum sem heitir Samfélag en því sviði tilheyrir mannauðsdeild, markaðsdeild, greiningardeild, samskiptateymi og sjálfbærniteymi bankans. Við vinnum í stuttu máli við að efla jákvæð tengsl viðskiptavina og starfsfólks við bankann. Það var gott að koma aftur heim til Landsbankans en hér starfar frábært fólk með gríðarleg mikla reynslu, metnað og vilja til að þjónusta vel viðskiptavini úti um allt land. Nú sit ég í framkvæmdastjórn bankans og er orðin hluti af ótrúlega öflugu teymi mikilla snillinga! Þar situr bankastjórinn okkar Lilja Björk sem leiðir hópinn af miklum krafti.“

Sara hefur alltaf verið mikil félagsvera, fundist gott að hafa mikið fyrir stafni og að hafa fólkið sitt í kringum sig. „Áhugamálin mín hafa alltaf verið fjölskyldan og hreyfing. Ég stunda margs konar útivist, fjallgöngur, golf, skíði, hlaup, rjúpnaveiði og nýlega keypti ég mér rafmagnsfjallahjól og sé fram á að vera dugleg á því á sumrin. Uppáhaldið mitt er þó alltaf að vera með krökkunum okkar og honum Dadda mínum. Ég hef sömuleiðis lagt mig fram við að vera dugleg í vinnunni og vinna við það sem mér finnst skemmtilegt og gefandi. Það hefur fram að þessu gengið mjög vel. Ég tel mig afar lukkulega með lífið og er þakklát alla daga fyrir hvert ég er komin.“

Sara á tvö hálfsystkini og þrjú systkini. „Eldri systir mín býr í Eyjum með fjölskyldunni sinni og yngri tvö systkini mín búa í Kópavogi. Sjálf á ég tvö börn en var svo lukkuleg að fá fjögur í kaupbæti þegar ég kynnist manninum mínum fyrir nokkrum árum. Börnin eru því sex og eitt lítið ömmu- og afakríli á leiðinni. Maðurinn minn heitir Kjartan Á. Guðbergsson, Daddi, markaðsráðgjafi og diskókóngur með meiru!“

Sara segir að lífsgildi hennar séu einföld. „Ég reyni að vera góð fyrirmynd fyrir börnin okkar, sýna metnað í öllu sem ég geri, hversu ómerkilegt það kann að vera, og hafa gaman af lífinu. Þannig held ég að maður njóti lífsins og nái langt í því sem að veitir manni hamingju.“

Fjölskylda

Sambýlismaður Söru er Kjartan Á. Guðbergsson, f. 17.5. 1966, markaðsráðgjafi og diskótekari, og þau búa í Hjallahverfinu í Kópavogi. Börn Söru og Kjartans til samans eru 1) Stefanía Jónsdóttir, f. 6.10. 2011, 2) Breki Páll Jónsson, f. 2.9. 2009 3) Amalía Eir Kjartansdóttir, f. 8.7. 2005, 4) Calum Bjarmi Birnuson,f. 24.12. 2000, maki Guðný Eyjólfsdóttir, 5) Erla Kristín Kjartansdóttir, f. 26.10. 1990, maki Philip Grétarsson, 6) Benedikt Sigríðarson, f. 29.5. 1988, maki Rut Ragnarsdóttir.

Systkini Söru eru 1) Dóra Björk Gunnarsdóttir, f. 25.8. 1974, hafnarstjóri í Vestmannaeyjum; 2) Arna Sif Pálsdóttir, f. 5.1. 1988, grafískur hönnuður og 3) Sighvatur Pálsson, f. 14.5. 1990, viðskiptafræðingur.

Foreldrar Söru eru Sigurlaug Bjarnadóttir, f. 6.10. 1954, sem er yfir leikskólum Kópavogs, og Páll Sveinsson, f. 6.8. 1950, athafnamaður í Kópavogi.