Páll Pálmar Daníelsson
Páll Pálmar Daníelsson
Sjálf áætlunin um „þunga borgarlínu“ var aldrei frá upphafi raunhæf hugmynd.

Páll Pálmar Daníelsson

Kannski raungerist það á næstunni að svokallaður samgöngusáttmáli, sem sveitarfélögin í nágrenni höfuðborgarinnar gerðu við þáverandi borgarstjóra og innviðaráðherra um „borgarlínu“ og fleiri framkvæmdir, verði tekinn til rækilegrar endurskoðunar.

Sjálf áætlunin um „þunga borgarlínu“ var aldrei frá upphafi raunhæf hugmynd. Málið er nú komið út yfir allan þjófabálk, eins og gamalreynd kona orðaði það nýlega, og bæjarstjóri Kópavogs, sem er einnig margreynd kona, lét í ljós áhyggjur sínar yfir gjörbreyttum forsendum sáttmálans á þessum vettvangi.

Dregið hefur verið fram að forsvarsmenn sveitarfélaganna, allra nema Reykjavíkur, eru uggandi yfir gangi mála - því allar þessar áætlanir um almenningssamgöngur í okkar kalda og vindasama landi eru þvílíkar að gráti liggur nær. Við viljum öll frekar hafa bíl til umráða ef við erum í lagi. Ekkert okkar vill frekar bíða úti í nepjunni á næstu stoppistöð strætó. (Samt verður hann víst að vera þarna!)

Það verður að teljast ömurlegt hlutskipti höfuðborgar einnar framsæknustu þjóðar allrar Evrópu að fífl skyldu komast þar til valda að afloknum frjálsum kosningum - en hafa verður þó í huga að ein svæsnustu kosningasvik síðari tíma voru þá viðhöfð. Til að lappa upp á fallinn meirihluta fyrri kosningasvikara sem mig minnir að kallist sjóræningjar - ekki skortir köpuryrðin yfir ósómann.

Leiðinlegt að Framsóknarflokkurinn, þessi elsti stjórnmálaflokkur landsins, skyldi vera misnotaður svona sem andlit þessa valdaráns gegn vilja fólksins. Ótrúlega sérkennileg staðreynd sem við sitjum víst uppi með í allmörg ár enn. Ætli Einar tilvonandi borgarstjóri skeri upp aðra herör gegn öspum í borgarlandinu? Hann lofaði breytingum eins og mörg okkar muna en mun hann standa við stóru orðin? Nógu mörgum íbúðum er hann búinn að lofa að mati margra. En verður það loforð svikið líka?

Höfundur er leigubílstjóri.