Framför Stefán Stefánsson vill leggja sitt af mörkum til að auðvelda mönnum, sem greinst hafa, framhaldið.
Framför Stefán Stefánsson vill leggja sitt af mörkum til að auðvelda mönnum, sem greinst hafa, framhaldið. — Morgunblaðið/Eggert
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Krabbameinsfélagið Framför, félag karla með krabbamein í blöðruhálskirtli og aðstandenda þeirra, stefnir að því að opna félagsmiðstöðina Hellinn í Hverafold 1-3 í Reykjavík innan skamms með félagslega virkni, fræðslu og aukin lífsgæði að leiðarljósi. „Við viljum létta mönnum með blöðruhálskirtilskrabbamein lífið með mjúkri innkomu,“ segir Stefán Stefánsson ráðgjafi, sem sinnir félagsmálum og fjáröflun fyrir félagið.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Krabbameinsfélagið Framför, félag karla með krabbamein í blöðruhálskirtli og aðstandenda þeirra, stefnir að því að opna félagsmiðstöðina Hellinn í Hverafold 1-3 í Reykjavík innan skamms með félagslega virkni, fræðslu og aukin lífsgæði að leiðarljósi. „Við viljum létta mönnum með blöðruhálskirtilskrabbamein lífið með mjúkri innkomu,“ segir Stefán Stefánsson ráðgjafi, sem sinnir félagsmálum og fjáröflun fyrir félagið.

Oddur Benediktsson var helsti hvatamaðurinn að stofnun félagsins árið 2007. Stuðningshópurinn Frískir menn, menn sem hafa greinst með blöðruhálskirtilskrabbamein en ekki farið í meðferð, hafði forgöngu að endurreisn félagsins 2019 og ári síðar var samþykktur grunnur að nýrri hugmyndafræði og stefnumótun til framtíðar. Félagið er í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands, Ljósið, heilbrigðiskerfið og alþjóðleg samtök um ráðgjöf, stuðning og faglegar upplýsingar. Þráinn Þorvaldsson er formaður Framfarar og Guðmundur G. Hauksson framkvæmdastjóri.

Stefán greindist með krabbamein í blöðruhálskirtli 2018 og fór nánast strax í brottnám. Í ferlinu kynntist hann vel stöðu mála og vildi leggja sitt af mörkum til að auðvelda mönnum með greiningu framhaldið. „Forystumenn félagsins vissu af mér og fengu mig til að sinna ákveðnum verkefnum,“ segir hann.

Upplýsingar á einum stað

Greining á krabbameini er almennt mikið áfall, en Stefán bendir á að því fyrr sem mein í blöðruhálskirtli greinist því auðveldara sé að bregðast við. „Þess vegna er svo mikilvægt að karlar fari reglulega í eftirlit,“ leggur hann áherslu á. „Áður en systir mín dó úr krabbameini brýndi hún fyrir mér að ég sæi til þess að við bræðurnir færum í skoðun og ef við gerðum það ekki gengi hún aftur!“ Lengi vel hafi ríkt þöggun um krabbamein en um það þurfi að ræða eins og aðra hluti. „Í því sambandi er nauðsynlegt að detta ekki niður í þunglyndi heldur slá aðeins á létta strengi.“

Á heimasíðu Framfarar eru viðamiklar upplýsingar um allt sem viðkemur meininu auk þess sem félagið hefur gefið út bæklinga. Efnið er unnið í samstarfi við sérfræðinga sem vísa veginn eins og best verður á kosið. „Það er mikilvægt að menn geti gengið að réttum upplýsingum á einum stað og fengið aðstoð,“ segir Stefán.

Stefán segir að karlar sem hafi greinst með krabbamein í blöðruhálskirtli eigi það til að einangrast og bera harm sinn í hljóði. Það sé bara ávísun á þunglyndi og frekari áföll, en félagið vilji efla menn og styrkja. Þess vegna ætli það að boða til kynningarfundar og bjóða jafnvel upp á kótelettur í raspi eða hnallþórur. „Við viljum stuðla að því að menn sem glíma við svipuð mein komi saman og beri saman bækur sínar. Margir karlar eru í eigin helli og því er nærtækast að nefna félagsmiðstöðina Hellinn.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson