Mergjaður Þröstur Leó íbygginn undir stýri.
Mergjaður Þröstur Leó íbygginn undir stýri.
Bíóárið fer vel af stað. Á þessu ári hafa sterkar myndir verið frumsýndar og áhorfendur eru til í tuskið. Ein þessara kvikmynda er Á ferð með mömmu eftir Hilmar Oddsson. Myndin lýsir ferðalagi þar sem allt getur gerst og mörkin á milli veruleika og ímyndunar eru óljós og á iði

Karl Blöndal

Bíóárið fer vel af stað. Á þessu ári hafa sterkar myndir verið frumsýndar og áhorfendur eru til í tuskið.

Ein þessara kvikmynda er Á ferð með mömmu eftir Hilmar Oddsson. Myndin lýsir ferðalagi þar sem allt getur gerst og mörkin á milli veruleika og ímyndunar eru óljós og á iði. Lík talar og margt leynist í þokunni.

Frásögnin kann að virðast hæg, en leynir á sér og myndin er allt annað en tíðindalítil. Hún er fyndin og tragísk, uppfull af sögum og uppákomum, misskilningi og furðum, útúrdúrum og vendingum.

Þröstur Leó Gunnarsson fer á kostum í þessari frumlegu vegamynd og ekki er Kristbjörg Kjeld síðri í hlutverki móður hans, sem neitar að sleppa takinu út fyrir gröf og dauða. Hún er með líflegri líkum kvikmyndasögunnar – svo lífleg að þeir, sem mæta henni, átta sig ekki alltaf á því að hún er öll.

Það skemmtilega við Á ferð með mömmu er að myndin er ekki öll þar sem hún er séð. Maður heldur að maður viti í hvað stefni þegar myndin tekur upp á að fara í allt aðra átt.

Konungleg skemmtun.

Höf.: Karl Blöndal