Malbikun Öryggisúttekt er gerð eftir hverja yfirlögn slitlags.
Malbikun Öryggisúttekt er gerð eftir hverja yfirlögn slitlags. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Vegagerðin tekur undir þær ábendingar sem Ríkisendurskoðun hefur sett fram m.a. um mikilvægi þess að gæði og öryggi verði ávallt að vera í öndvegi við framkvæmdir og viðhald vegakerfisins og bendir á að sérstök áhersla hafi verið lögð á það. Greint var frá nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Vegagerðarinnar í Morgunblaðinu í gær en Ríkisendurskoðun telur m.a. að Vegagerðin verði að efla öryggisstjórnun.

Vegagerðin tekur undir þær ábendingar sem Ríkisendurskoðun hefur sett fram m.a. um mikilvægi þess að gæði og öryggi verði ávallt að vera í öndvegi við framkvæmdir og viðhald vegakerfisins og bendir á að sérstök áhersla hafi verið lögð á það. Greint var frá nýútkominni skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi Vegagerðarinnar í Morgunblaðinu í gær en Ríkisendurskoðun telur m.a. að Vegagerðin verði að efla öryggisstjórnun.

„Að mati Vegagerðarinnar sýna gögn um fjölda slysa á þjóðvegum þar sem slæmt ástand vegar eða yfirstandandi verkframkvæmdir eru skráð orsök að árangur hefur náðst hvað þetta varðar í starfi stofnunarinnar. Slysum þar sem slæmt ástand vega er skráð orsök hefur fækkað jafnt og þétt frá árinu 2016 þrátt fyrir stöðuga aukningu umferðar, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna. Slysum sem rekja má til framkvæmda hefur fækkað en þó í minna mæli í réttu hlutfalli við umfang framkvæmda á vegakerfinu,“ segir í viðbrögðum Vegagerðarinnar við skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem birt er á vef Vegagerðarinnar.

Viðbrögð stofnunarinnar eru einnig birt í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Bendir Vegagerðin m.a. á að auk eftirlits á meðan á vegagerð stendur og með lokaúttekt eftir að framkvæmd lýkur hafi Vegagerðin sumarið 2021 innleitt sérstaka öryggisúttekt sem fram fer að lokinni hverri yfirlögn bundins slitlags á vegi áður en umferð er hleypt á veg að nýju. Kröfur hafi einnig verið hertar um vegviðnám og auk þess muni Vegagerðin gera kröfu um faggildingu þeirra sem sinna eftirliti við framkvæmdir. Er stefnt að því að innleiðing þessara krafna hefist fyrir næstkomandi vor. Enn fremur hefur viðbragðsáætlun vegna vetrarblæðinga á vegum verið endurskoðuð.

Í umfjöllun um öryggi á vegum beinir Ríkisendurskoðun m.a. sjónum sínum að banaslysinu sem varð á Kjalarnesi sumarið 2020 og viðbrögðum í kjölfar þess en í ljós kom að vegviðnám eftir útlögn á malbiki stóðst ekki kröfur í útboðslýsingu. Einnig er fjallað um alvarlegar vetrarblæðingar sem urðu á þjóðvegi eitt í desember sama ár, sem náðu allt frá Borgarfirði að Öxnadalsheiði. Fram kemur að Ríkisendurskoðun telur að vðbrögð Vegagerðarinnar í kjölfar banaslyssins sem varð á Kjalarnesi séu til bóta. „Engu að síður verður að hafa hugfast að í því tilfelli hefði samkvæmt ákvæðum útboðslýsingar átt að stöðva útlögn þar sem ástand malbiksins gaf skýrt tilefni til þess. Ber það vott um að ekki hafi verið tekið það tillit til gæða- og öryggiskrafna sem gera mátti ráð fyrir,“ segir m.a. um þetta í skýrslunni. Í umfjöllun um vetrarblæðingarnar í desember 2020 segir að þær hafi leitt í ljós veikleika í viðbrögðum Vegagerðarinnar, ekki hafi verið brugðist nægilega hratt við ástandinu. Vegagerðin hefur í ljósi þessa atburðar endurskoðað viðbragðsáætlun sína og segir Ríkisendurskoðun mikilvægt að virkjun þessarar áætlunar verði æfð með reglubundnum hætti.

Fram kemur að alls bárust 128 tilkynningar um tjón vegna bikblæðinganna í desember 2020 og voru greiddar bætur í 126 tilfellum, samtals 27,5 milljónir kr. Birt er yfirlit yfir tjónakröfur vegna blæðinga á vegum á tímabilinu 2017-2020 en alls var tilkynnt um 217 tjón vegna blæðinga á þessu tímabili.

Vinna að úrbótum

Ríkisendurskoðun beinir ýmsum ábendingum að Vegagerðinni. Vegagerðin segir margar þeirra til bóta og að brugðist hafi verið við stórum hluta þeirra og unnið sé að úrlausn annarra.

Í skýrslunni segir að bæta þurfi aðgengi að fjárhagsupplýsingum framkvæmda og verkefna og segist Vegagerðin vinna hratt að því.