Inga Margrethe Frederiksen fæddist í Køge í Danmörku 5. október 1934. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Hrafnistu við Laugarás 22. febrúar 2023.

Foreldrar hennar voru Alda Valdimarsdóttir, f. 1.7. 1911, d. 2.2. 1970, og Jacob Emil Vilhelm Frederiksen, f. 27.7. 1902, d. 5.9. 1994. Systkini Ingu eru Kristján Frederiksen, f. 3.11. 1931, d. 10.3. 2015; Gréta Frederiksen, f. 28.7. 1938, d. 10.10. 2020; og Henning Frederiksen, f. 2.12. 1939, d. 3.6. 2007. Systkini Ingu sammæðra eru Hilmar Bjarnason, f. 23.8. 1930, d. 9.6. 2009; Ingibergur Magnússon, f. 25.7. 1950; og Kristín María Magnúsdóttir, f. 26.11. 1951.

Börn Ingu eru 1) Linda María Frederiksen, f. 27.1. 1954. Fyrrverandi sambýlismaður hennar er Jón Sigfússon, f. 22.5. 1946. Börn þeirra eru Helga, f. 1.8. 1978; Sigfús, f. 4.2. 1984; og Emil, f. 6.9. 1985. Áður átti Linda eina dóttur, Ingu Helgu, f. 12.2. 1972.

Inga giftist 17.5. 1959 Helga Guðlaugi Salómonssyni, f. 25.10. 1915, d. 22.7. 1981. Börn þeirra eru 2) Alda, f. 26.12. 1958, maki Rafael Daníel Vias Martinez, f. 11.10. 1956, d. 5.8. 2011. Börn þeirra eru Sylvia Lind, f. 2.6. 1979; og Rafael Daníel, f. 30.4. 1990. 3) Bylgja, f. 28.10. 1960, d. 13.11. 2014, fyrrverandi eiginmaður Gísli Karlsson, f. 10.10. 1956. Börn þeirra eru Rakel, f. 1.12. 1984; og Aníta, f. 20.9. 1985. 4) Bára, f. 7.7. 1962, d. 12.5. 2004. Börn hennar eru Helgi Michael, f. 7.11. 1984, faðir hans er Guðmundur Guðmundsson, f. 3.7. 1961. Fyrrverandi sambýlismaður Báru var Steindór Benediktsson, f. 3.12. 1969. Börn þeirra eru Eva Þórey, f. 18.12. 1991; Sara Rós, f. 5.9. 1994; og Benedikt Samúel f. 1.11. 1997.

Áður átti Helgi sex börn: Ragnheiði Sigurlaugu, f. 24.3. 1943; Erling, f. 21.5. 1944; Sigurjón, f. 14.3. 1947, d. 14.12. 2021; Kristin Geir, f. 2.1. 1950; Svavar, f. 12.8. 1951; og Kristínu Þórunni, f. 24.12. 1954.

Inga fæddist á Køge á Sjálandi í Danmörku. Hún bjó þar með fjölskyldu sinni til 14 ára aldurs. Eftir skilnað foreldra sinna flutti hún með móður sinni og systkinum til Íslands. Hún stoppaði stutt á Íslandi og fór fljótlega út til Danmerkur aftur. Hún stundaði nám í húsmæðraskóla í Kaupmannahöfn. Eftir skólagönguna flutti hún til Íslands á ný. Fljótlega eftir komuna til Íslands tók hún að sér starf sem ráðskona hjá Helga Salómonssyni í Ólafsvík. Stuttu síðar giftu þau sig. Inga vann í frystihúsinu í Ólafsvík ásamt því að reka stórt heimili. Inga og Helgi fluttu síðan til Reykjavíkur 1970 og vann hún þar við ýmis þjónustustörf.

Útför Ingu fer fram frá Háteigskirkju í dag, 8. mars 2023, klukkan 11.

Ástkæra móðir mín og besta vinkona er fallin frá. Mikið á ég eftir að sakna hennar. Ég veit að pabbi, Bylgja, Bára og Fali munu taka vel á móti henni í Draumalandinu.

Henni þótti ekkert skemmtilegra en að ferðast til útlanda og fór hún víða um heiminn. Spánn var þó alltaf í uppáhaldi hjá henni og fórum við ófáar ferðir þangað saman. Hún naut sín vel í sólinni með bjór við hönd.

Mikið þótti henni gaman að fara með fjölskyldunni í IKEA og fá sér franskar, kokteilsósu og rauðvínsglas með.

Það verður skrítið að fara ekki upp á Hrafnistu eftir vinnu alla daga og heimsækja hana. Hún var svo hress og jákvæð þessi elska. Á hjúkrunarheimilinu var hún í miklu uppáhaldi bæði hjá starfsfólki sem og öðru heimilisfólki á F-gangi Lækjartorgs. Verð ég ævinlega þakklát starfsfólkinu þar, sem hugsaði svo vel um mömmu.

Ég sendi þér vina mitt ljúfasta ljóð

Þú ert langbesta mamman í heimi.

Þú hefur verið mér vinkona góð,

sá vinur sem aldrei ég gleymi.

Þú gafst mér það eina sem áttir þú til:

Þig alla – að trúnaðarvini.

Með kærleik í hjarta í hjarta ég knúsa þig vil

og kyssa í þakklætisskyni.

Ef munum við vel það sem meistarinn kvað

og mestu í rauninni skiptir:

Að kærleikur sannur, þú kenndi mér það,

er kraftur sem fjöllunum lyftir.

Von mín er sú að ég verði þér lík

og veginn þinn fái að gylla.

(Lýður Ægisson)

Þín dóttir,

Alda.

Elsku amma mín, þá er komið að kveðjustund. Það eru svo margar yndislegar minningar sem koma upp í hugann þegar ég hugsa til baka. Ófáar utanlandsferðir sem við höfum farið saman, bara við tvær, man þegar ég kom heim úr skólanum einn daginn þegar ég bjó hjá þér á þeim tíma. Þá sagðir þú við mig hvort við ættum ekki bara að skella okkur til San Francisco sem við og gerðum, tveggja hæða flugvél og við vorum eins og prinsessur saman í þessu langa flugi. Fleiri ferðir voru það einnig ásamt fleirum og það er svo yndislegt að rifja svona minningar í huganum enda varstu ævintýramanneskja og hafðir gaman af að lífa lífinu og njóta. Við sem eftir sitjum erum heppin að hafa átt þig að, þau voru ófá samtölin sem við áttum saman í Álftamýrinni þegar ég bjó hjá þér, elsku amma. Ég bara vitlaus unglingur í framhaldsskóla en einhvern vegin gátum við alltaf talað saman um daginn og veginn, þess mun ég minnast. Það voru líka ófá skiptin sem þú birtist á „rauðu hættunni“ eins og við kölluðum bílinn þinn í morgunkaffi á Brunnavelli í sveitina, amma bara mætt kl 10 að morgni og sagðir: „Er ekki kaffi á könnunni?“, þetta hefðu nú ekki margir gert, að rífa sig upp rúmlega 5 að morgni og bruna austur og koma surprise, eins og þú orðaðir það. Það gerðir þú oft og ekki var það endilega til að slaka á því þú fórst hamförum í garðinum, hvort sem var aö rífa upp arfa eða að gróðursetja tré. Það segir bara hversu einstök þú varst. Síðasta Spánarferðin með þér var svo yndisleg, þú naust þín í sólinni og réðst danskar krossgátur sem þú elskaðir en samt undir sólhlífinni því þér fannst alltof heitt. Segjum tvær. Elsku amma, ég vildi svo mikið óska þess að samverustundirnar síðustu ár hefðu getað verið fleiri, ég er samt svo þakklát að hafa verið hjá þér og talað við þig nokkrum dögum áður en þú kvaddir. Elsku amma mín, þú ferð í friði, á eftir að sakna þín en minningarnar munu lifa í hjarta mínu. Elsku amma, elska þig.

Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta.

Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt
látinn mig haldið.

En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins.

Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Höf. ók.)

Takk elsku amma fyrir allt, elska þig endalaust og mun gera um alla tíð.

Helga Jónsdóttir.

Elsku amma, í dag kveðjum við þig í hinsta sinn. Okkur langar að kveðja þig með nokkrum orðum og þakka þér fyrir allan þann tíma sem við áttum saman. Við eigum erfitt með að trúa því að þú sért farin og að við getum ekki hitt þig aftur til þess að spjalla um daginn og veginn. Þú sagðir okkur ófáar sögurnar úr lífi þínu. Það sem fær okkur mest til þess að brosa og eigum mest eftir að sakna eru Spánarferðirnar okkar saman sem við fórum hvert einasta sumar.

Við munum alltaf eftir þér sitjandi á bekknum að gera danskar krossgátur sem þú elskaðir svo, með ískaldan bjórinn við hendina. Þú varst svo mikill húmoristi og mesti nagli sem við höfum kynnst. Þú elskaðir diskótónlist, eins og Bee Gees og Boney M., og munum við alltaf minnast þín þegar við heyrum hana spilaða í framtíðinni. Við erum svo ánægð að þú fékkst að ferðast og sjá heiminn, sem við vitum að þú elskaðir að gera. Nú síðustu árin á Hrafnistu áttum við einnig margar yndislegar stundir saman. Það var svo gott að sjá hvað þér leið vel þar. Elsku amma, hvað við munum sakna þín og þessara stunda okkar saman.

Tárin renna

sorgin snertir hjartað mitt

lítið tré fellir laufin

eitt og eitt

uns þau hverfa ofan í jörðina

og koma ekki upp aftur.

Ég sé þig í huga mér

og dagurinn hverfur út í buskann

og eilífðin sjálf stoppar.

Ég kveð þig

með söknuð í hjarta og tár á hvarmi.

Eins og hörpustrengur er hjarta mitt

þegar ég hugsa um brosið þitt

eins og fallegur dagur sem kemur
og fer

mun stjarnan þín lýsa upp hjá mér

þetta er kveðjan mín

til þín

elsku besta amma mín.

(Solla Magg)

Þín barnabörn,

Sylvia og Rafael.

Elsku Inga,

þá er kallið komið og þú farin í sumarlandið að hitta allt fólkið þitt sem á undan þér er farið. Ég minnist allra góðu stundanna sem við áttum saman. Þær voru ófáar, allar utanlandsferðirnar sem við fórum saman í, enda eitt það skemmtilegasta sem þú gerðir var að ferðast erlendis. Þú varst svo mikill dugnaðarforkur, þú stýrðir stóru heimili í Ólafsvík og varst alltaf útivinnandi líka. Eftir að þú fluttir til Reykjavíkur vannst þú um tíma hjá vinkonu minni og hrósaði hún þér mikið og sagðist ekki hafa haft betri vinnukraft en þig. Ég man hvað mér þótti gaman að fara vestur til Ólafsvíkur með Helga í flutningabílnum þegar ég var unglingur til að hitta þig og allan krakkahópinn. Ég kem til með að sakna allra heimsóknanna til þín upp á Hrafnistu sem hefur verið fastur liður síðustu fjögur árin.

Elskulega systir, með söknuði kveð ég þig.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sig.)

Þín systir,

Kristín María.