Fátækt Fjölskylduhjálpin tekur hér saman gjafir til barna.
Fátækt Fjölskylduhjálpin tekur hér saman gjafir til barna. — Morgunblaðið/Ernir
Um tíu þúsund börn á Íslandi búa við fátækt samkvæmt nýrri skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla sem birt var í gær. „Stjórnvöld þurfa að setja sér stefnu og aðgerðaáætlun til þess að uppræta fátækt meðal barna á Íslandi,“ er haft eftir…

Um tíu þúsund börn á Íslandi búa við fátækt samkvæmt nýrri skýrslu Evrópuhóps Barnaheilla sem birt var í gær. „Stjórnvöld þurfa að setja sér stefnu og aðgerðaáætlun til þess að uppræta fátækt meðal barna á Íslandi,“ er haft eftir Margréti Júlíu Rafnsdóttur, verkefnastjóra innlendra verkefna hjá Barnaheillum, í tilkynningu frá samtökunum.

Barnaheill tóku þátt í gerð skýrslunnar. Þar segir að fleiri börn búi við fátækt á Íslandi en í fyrra en hlutfallið er svipað eða um 13% barna. „Í skýrslunni kemur jafnframt fram að árið 2021 hafi 24,1% íslenskra heimila átt erfitt með að standa straum af daglegum útgjöldum og ná endum saman. Í rúmum helmingi tilfella voru það heimili einstæðra foreldra og 16,1% voru heimili tveggja eða fleiri fullorðinna með börn. Meiri líkur eru á að börn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins búi við fátækt eða um 15,8% þeirra,“ segir í tilkynningunni.

Barnaheill benda á að árið 2015 hafi stjórnvöld á Íslandi samþykkt heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og þar með minnka fátækt um helming á landinu fyrir 2030. Barnaheill fullyrða að hvorki áætlanir né stefna hafi verið gerðar í því skyni. Barnaheill skora á íslensk stjórnvöld að setja sér landsstefnu og aðgerðaáætlun til að uppræta fátækt á Íslandi fyrir árið 2030. Sú stefna og áætlun þurfi að tryggja öllum börnum á Íslandi jöfn tækifæri til heilsu, menntunar, verndar og þátttöku.

Til þess þurfi að bjóða fjárhagslega öruggt húsnæði fyrir lágtekjufjölskyldur, hækka barnabætur og byggja þær á framfærsluviðmiðum.