Í höfn Fulltrúar Afls, RSÍ og Alcoa undirrita samninginn.
Í höfn Fulltrúar Afls, RSÍ og Alcoa undirrita samninginn. — Ljósmynd/Alcoa
Undirritaður hefur verið nýr kjarasamningur á milli Afls Starfsgreinafélags á Austurlandi og Rafiðnaðarsambands Íslands við Alcoa Fjarðaál, sem gerður er fyrir starfsmenn í álveri Alcoa á Reyðarfirði

Undirritaður hefur verið nýr kjarasamningur á milli Afls Starfsgreinafélags á Austurlandi og Rafiðnaðarsambands Íslands við Alcoa Fjarðaál, sem gerður er fyrir starfsmenn í álveri Alcoa á Reyðarfirði. Samningurinn er til tveggja ára og gildir frá 1. mars sl. til 28. febrúar árið 2025.

Stytting vinnuvikunnar

Hjördís Þ. Sigurþórsdóttir, formaður Afls, segir í samtali við Morgunblaðið að meginefni samningsins séu launabreytingar og stytting vinnutíma sem samkomulag varð um. Hann fari nú í kynningu og verði lagður undir dóm félagsmanna í atkvæðagreiðslu.

Í tilkynningu frá Alcoa segir að samningurinn byggist á þeim samningum sem gerðir hafa verið milli stéttarfélaga og atvinnurekanda á síðustu vikum og mánuðum. Haft er eftir Einari Þorsteinssyni, forstjóra Alcoa Fjarðaáls, að ánægjulegt sé að náðst hafi samkomulag um nýjan samning um leið og sá eldri rann út og kveðst hann þakka samninganefndum félaganna og Alcoa Fjarðaáls fyrir markvissa og góða vinnu við gerð þessa samnings.