Jaðarsvöllur Mótið fór fram á Akureyri í fyrra. Mynd úr safni.
Jaðarsvöllur Mótið fór fram á Akureyri í fyrra. Mynd úr safni. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Kristján Ólafur Jóhannesson og Margeir Vilhjálmsson hyggjast áfrýja úrskurði Dómstóls Golfsambands Íslands (GSÍ) og verður kæra þeirra að óbreyttu tekin upp hjá Áfrýjunardómstóli GSÍ. Voru þeir ásamt Helga Svanberg Ingasyni úrskurðaðir í árs…

Kristján Ólafur Jóhannesson og Margeir Vilhjálmsson hyggjast áfrýja úrskurði Dómstóls Golfsambands Íslands (GSÍ) og verður kæra þeirra að óbreyttu tekin upp hjá Áfrýjunardómstóli GSÍ. Voru þeir ásamt Helga Svanberg Ingasyni úrskurðaðir í árs keppnisbann á mótum á vegum sambandsins af aganefnd GSÍ en Helgi áfrýjaði ekki þeim úrskurði. Hann er því í keppnisbanni þar til í september en þeir Kristján og Margeir vilja útkljá málið fyrir Áfrýjunardómstólnum og hafa tíma fram til morguns til að áfrýja.

Kylfingarnir þrír fengu frávísun á Íslandsmóti eldri kylfinga (50 ára og eldri) á Akureyri í júlí á síðasta ári og voru í framhaldi af því kærðir af mótsstjórninni til aganefndar GSÍ. Miðast upphaf keppnisbannsins við þann tíma þegar GSÍ dæmdi þá í bann í september í fyrra. Kristján og Helgi púttuðu á flöt eftir að þeir höfðu leikið holuna í mótinu, að sögn dómara mótsins, og var það brot á staðarreglum sem kostaði tvö högg í víti. Þegar kylfingarnir skiluðu inn skorkortum höfðu þeir ekki talið höggin með, sem þeir fengu sem refsingu, og skrifuðu því undir rangt skor sem og Margeir sem ritari annars þeirra en slíkt varðar frávísun úr golfmótum.

Í málflutningi Kristjáns og Margeirs kemur fram að þeim hafi ekki verið kunnugt um tiltekna staðarreglu og hafi ekki verið tilkynnt um hana.