Glaðbeitt Fulltrúar ÍA, Ísold og Akranesbæjar við undirskrift.
Glaðbeitt Fulltrúar ÍA, Ísold og Akranesbæjar við undirskrift. — Ljósmynd/Akraneskaupstaður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson kris@mbl.is Svæðið við Langasand á Akranesi mun taka miklum breytingum verði áform um uppbyggingu á svæðinu að veruleika. Akraneskaupstaður, Ísold fasteignafélag, Íþróttabandalag Akraness (ÍA) og Knattspyrnufélag Akraness undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um uppbyggingu við Langasand.

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Svæðið við Langasand á Akranesi mun taka miklum breytingum verði áform um uppbyggingu á svæðinu að veruleika. Akraneskaupstaður, Ísold fasteignafélag, Íþróttabandalag Akraness (ÍA) og Knattspyrnufélag Akraness undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um uppbyggingu við Langasand.

Hugmyndirnar eru umfangsmiklar og lúta að byggingu hótels, baðlóns og heilsulindar á svæðinu en um leið stendur til að fara í stefnumörkun varðandi ferðaþjónustu í bænum. Akranes hefur verið landsþekktur knattspyrnubær frá því um miðja síðustu öld og verða nýir knattspyrnuvellir á svæðinu samkvæmt kynningu á verkefninu í gær. Um viljayfirlýsingu er að ræða á þessu stigi málsins en á næstu vikum stendur til að móta stefnu í ferðaþjónustu og á þeirri vinnu að vera lokið eftir innan fjögurra mánaða. Auk þess á vitanlega eftir að gera deiliskipulag og kynna bæjarbúum það.

Af þessum sökum liggur ekki fyrir um hversu mikla fjárfestingu er að ræða þar sem umfangið mun skýrast með fullmótuðum hugmyndum og hvaða útfærsla verður að veruleika. Stærð hótelsins sem dæmi mun ráðast af því. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að ætla mætti að um milljarða fjárfestingu væri að ræða þótt of snemmt væri að slá neinu föstu. Hann bendir á að mörg störf geti skapast í tengslum við uppbygginguna.

„Að fá alvöru hótel og baðlón gæti skilað tugum starfa og jafnvel fleiri. Þarna gætu því orðið til störf sem gætu gagnast fólki til framtíðar fyrir utan að Akranes skapi sér sess í ferðaþjónustu og styrki innviði íþróttastarfsins,“ segir Sævar.

„Eins og tiltekið er í viljayfirlýsingu mun Akraneskaupstaður úthluta Ísold lóðum fyrir 80-120 íbúðir, þar sem Akraneskaupstaður hefur ákvörðunarvald um hvar lóðunum er úthlutað. Í upphafi mun hugmyndavinna fara fram þar sem meðal annars verður velt upp hvort rýmd svæðisins bjóði upp á íbúðabyggð, en ekkert er ákveðið í þeim efnum,“ segir meðal annars í upplýsingum um verkefnið hjá Akraneskaupstað.

Fasteignafélagið Ísold stendur að verkefninu en félagið er í eigu Bull Hill Capital. Forráðamaður þess er Aðalsteinn Gunnar Jóhannsson.

Höf.: Kristján Jónsson