Kristleifur Einarsson fæddist í Reykjavík 28. febrúar 1932. Hann lést á Landakotsspítala 22. febrúar 2023.

Foreldrar Kristleifs (Leifs) voru Einar J. Einarsson, f. 10. nóvember 1898, d. 9. september 1976 og Ástríður Guðjónsdóttir, f. 19. maí 1904, d. 16. júní 1986.

Systkini Kristleifs voru Margrét Einarsdóttir, f. 13. ágúst 1934, d. 31. maí 2006 og Valur Einarsson, dó tveggja ára gamall.

Hinn 6. júní 1953 kvæntist Kristleifur Önnu Hjálmarsdóttur frá Vestmannaeyjum. Foreldrar Önnu voru Hjálmar Eiríksson, f. 25. janúar 1900, d. 18. ágúst 1940 og Jóna Kristinsdóttir, f. 21. desember 1895, d. 27. október 1975.

Börn Kristleifs og Önnu eru: 1) Guðjón, f. 7. maí 1953, maki Esther Þorvaldsdóttir, f. 6. desember 1955. Synir þeirra eru: a) Bjarki, f. 18. janúar 1978, maki Valgerður Kristjánsdóttir, f. 1979. Börn þeirra eru Óliver, f. 2006 og Esther Emilía, f. 2010. b) Þorvaldur, f. 7. september 1984, maki Tinna Heimisdóttir, f. 1988. Synir þeirra eru Þorvaldur, f. 2016 og Matthías Örn, f. 2019. c) Kristleifur, f. 8. júní 1988, maki Berglind Svana Blomsterberg, f. 1986. Börn þeirra eru Elvar, f. 2015 og Valdís Björk, f. 2017.

2) Helga, f. 30. maí 1957, maki Ellert Ellertsson, f. 10. október 1957. Synir þeirra eru: a) Tómar Þór, f. 17. apríl 1978, maki Ellen Birna Loftsdóttir, f. 1978. Börn þeirra eru Thelma Kristín, f. 2002 og Róbert Atli, f. 2008. b) Davíð Ellertsson, f. 7. febrúar 1981, maki Hulda Sigmundsdóttir, f. 1981. Börn þeirra eru Hlynur, f. 2006, Helga Lilja, f. 2012 og Sölvi Freyr, f. 2020. c) Andri Ellertsson, f. 21. október 1985, maki Jóhanna Erla Birgisdóttir, f. 1986. Börn þeirra eru Svala, f. 2016, Harpa Líf, f. 2019 og Marinó, f. 2023.

3) Einar, f. 25. september 1959.

Kristleifur og Anna bjuggu lengst af í Hafnarfirði, fyrst á Smyrlahrauni, svo Þrúðvangi og síðast uppi á Eyrarholti. Kristleifur fór í Stýrimannaskólann og vann sem stýrimaður á Fossunum. Þegar hann hætti á sjónum hóf hann verslunarrekstur og rak búð í Laugarnesi. Árið 1967 er Kristleifur ráðinn til ÍSAL og fer í starfsnám til Sviss þar sem hann og fjölskyldan dvelja í 2 ár. Þegar heim var komið vann hann sem verkstjóri í steypuskálanum hjá ÍSAL þangað til hann hætti við 67 ára aldur. Kristleifur vann síðustu 3 starfsár sín sem húsvörður, fyrst í Iðnskólanum í Hafnarfirði og síðar í Lækjarskóla í Hafnarfirði.

Kristleifur var mikill áhugamaður um íþróttir, þá sérstaklega fótbolta og handbolta ásamt því að leggja stund á hestamennsku. Kristleifur var virkur meðlimur í Frímúrareglunni Hamri í Hafnarfirði í 49 ár.

Útför Kristleifs fór fram 7. mars 2023.

Elsku afi.

Það er erfitt að hugsa til þess að við komum ekki til með að hittast aftur eða spjalla saman í síma um allt og ekkert, þó aðallega enska boltann. Mínar fyrstu minningar um þig eru þegar þú og amma búið á Þrúðvanginum. Við bræðurnir í pössun, allir leikirnir í garðinum, kósíkvöldin þegar við vorum í næturpössun og að vakna daginn eftir þar sem gúrkubrauðið var tilbúið í morgunmat. Það er mér minnisstætt þegar ég sá þig rífa fram strauborðið til að strauja skyrturnar þínar því ekki datt mér í hug að amma myndi leyfa þér að sjá um það, þetta lýsir þér vel enda gekkstu í öll verkefni stór eða smá og þér féll aldrei verk úr hendi. Ég hugsa hlýtt til allra minninganna þegar ég var barn og man sérstaklega vel eftir einni lexíu sem þú kenndir mér, þú varst að vinna í garðinum eins og svo oft og varst að henda afklippum af rósarunnum, mig langaði að hjálpa til en þyrnirinn stakk mig og meiddi, þá sagðir þú: „Stundum þarf maður að gera hluti þó svo að þeir meiði þig.“ Þessi orð hafa fylgt mér síðan.

Þú sýndir fótboltaferlinum mínum alltaf mikinn áhuga og þú varst duglegur að koma og horfa á leiki þó svo að það þýddi að þú þyrftir að kíkja niður á Ásvelli, eitthvað sem mér þótti afar vænt um. Utanlandsferðirnar sem við fórum saman í til að horfa á liðin okkar spila verða alltaf ofarlega í huga mínum, þarna fékk ég að kynnast þér í nýjum aðstæðum. Gleðin hjá þér þegar við sáum Manchester United vinna á Old Trafford var ósvikin og fagnaðarlætin mikil.

Elsku afi, ég á eftir að sakna þess að geta ekki hringt og spjallað, ég á líka eftir að sakna þess að hafa þig ekki með í sunnudagsmat í Klausturhvamminum og fara með þér á þinn uppáhaldsstað í sumarbústað fjölskyldunnar við Hæðargarðsvatn en ég ylja mér við allar frábæru minningarnar sem við eigum saman.

Hvíldu í friði.

Davíð.