Tími ársuppgjöra og aðalfunda er runninn upp. Þá verður fróðlegt að fylgjast með því hvort og hvernig lífeyrissjóðir hafa áhrif á þá þætti, til að mynda stjórnarkjör.
Tími ársuppgjöra og aðalfunda er runninn upp. Þá verður fróðlegt að fylgjast með því hvort og hvernig lífeyrissjóðir hafa áhrif á þá þætti, til að mynda stjórnarkjör.
Þá verður ekki horft fram hjá því að fjárfestingar sjóðanna í mörgum af þeim félögum sem nú eru skráð á markað hafa gegnt algjöru lykilhlutverki í vexti og framþróun félaganna.

Markaðsvirði þeirra hlutabréfa sem íslenskir lífeyrissjóðir eiga í skráðum félögum hér á landi er á bilinu 730-750 milljarðar króna. Þar eru meðtalin bréf á Aðalmarkaði Kauphallarinnar sem og bréf á First North-markaði, hvar sjóðirnir eru þó umsvifalitlir.

Þó er rétt að geta þess að lífeyrissjóðir eiga rúmlega 1.000 milljarða í hlutabréfum (skráðum og óskráðum) og hlutdeildarskírteinum. Eignir sjóðanna í hlutabréfum eru þó aðeins á bilinu 10-15% af eignasafni þeirra og ræðst eðli málsins samkvæmt nokkuð af markaðsvirði bréfanna. Þannig rýrnuðu eignir lífeyrissjóða í fyrra um 750 milljarða króna á milli ára að raunvirði. Miklu munaði um lækkun á gengi skráðra hlutabréfa. Það eitt og sér segir þó ekki allt, því uppgangur hlutabréfaverðs var mikill á árinu á undan. Hér er aðeins bent á þetta sem dæmi um það hvernig eignir sjóðanna geta sveiflast töluvert á milli ára eftir aðstæðum á mörkuðum.

Gildi stærstur að markaðsvirði

Eins og sést í töflunni hér á síðunni eru lífeyrissjóðurinn Gildi umsvifamestur á markaði þegar horft er til markaðsvirðis þeirra bréfa sem sjóðurinn á í skráðum félögum. Sjóðurinn á um 156 milljarða króna í hlutabréfum miðað við markaðsvirði. Verðmætustu eignir Gildis eru 10,6% hlutur í Síldarvinnslunni og tæplega 10% hlutur í Arion banka.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) kemur fast á eftir (hér eru A- og B-deildir sjóðsins taldar saman) sem og Lífeyrissjóður verslunarmanna (Live). Markaðsvirði bréfa í eigu LSR er um 152 milljarðar og Live um 147 milljarðar. Báðir sjóðirnir eru að til að mynda stórir hluthafar og halda á verðmætum hlutum í Brimi og Arion. Þá eiga allir þeir þrír sjóðir sem hér hafa verið nefndir verðmæta hluti í Marel.

Birta er fjórði stærsti sjóðurinn þegar horft er á markaðsvirði bréfanna, með eignir upp á tæplega 58 milljarða króna í nokkuð dreifðu eignasafni. Þá nemur markaðsvirði bréfa í eigu Brúar um 48 milljörðum króna og Stapa rúmlega 45 milljörðum króna.

Eign í bönkunum vegur þungt

Hér verður ekki farið ítarlega yfir fjárfestingastefnu sjóðanna, enda er hún misjöfn eftir sjóðum. Þó má vekja athygli á því að á lista yfir 20 stærstu hluthafa skráðra félaga eiga sjóðirnir hér í töflunni allir hluti í smásölukeðjunum Festi og Högum og í fasteignafélaginu Regin. Þá eru allir nema Brú á lista yfir 20 stærstu í fasteignafélaginu Reitum, allir nema Lífsverk á lista yfir stærstu eigendur fjarskiptafélagsins Símans og allir nema Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda á lista yfir stærstu eigendur í Arion banka.

Eins og sést í minni töflunni til hægri, þar sem fjallað er um markaðsvirði hlutabréfa í eigu lífeyrissjóða, nemur eign sjóðanna í Arion banka rétt rúmum 100 milljörðum króna, eða um 10% af allri hlutabréfaeign sjóðanna. Þá er markaðsvirði bréfa í Íslandsbanka tæpir 80 milljarðar króna. Sem kunnugt er hyggja Íslandsbanki og Kvika banki á sameiningu en sameiginlegur hlutur lífeyrissjóðanna í bönkunum tveimur er nú rúmlega 116 milljarðar króna. Þá er hlutur aðeins þriggja sjóða í Marel um 65 milljarðar króna.

Ekki liggur fyrir með nákvæmum hætti hversu mikið lífeyrissjóðirnir eiga í Alvotech, sem í dag er verðmætasta fyrirtækið í Kauphöllinni þegar horft er til markaðsvirðis. Viðskiptablaðið hefur greint frá því að Birta hafi fjárfest fyrir um tvo milljarða króna í hlutabréfaútboði sem fór fram undir lok janúar, Stapi fyrir um 1,3 milljarða króna og LSR fyrir um 1,2 milljarða. Auk þess fjárfestu fleiri sjóðir fyrir minni upphæðir. Samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans má ætla að markaðsvirði bréfa í eigu lífeyrissjóða í Alvotech sé í dag á bilinu 11-14 milljarðar króna eftir miklar hækkanir frá áramótum. Þá hafa sjóðirnir verið duglegir að kaupa skuldabréf félagsins.

Dæmi um afskipti

Í einföldu máli má segja að lífeyrissjóðirnir og hlutabréfamarkaðurinn geti hvorugur án hins verið. Sjóðirnir þurfa að koma fjármagni sínu í vinnu og gera það með ýmsum hætti, meðal annars með fjárfestingum í skráðum félögum – bæði hér á landi og erlendis. Þær fjárfestingar skila sér alla jafna í auknum verðmætum til lífeyrissjóða í formi aukningar á markaðsvirði og arðgreiðslna.

Þá verður ekki horft fram hjá því að fjárfestingar sjóðanna í mörgum af þeim félögum sem nú eru skráð á markað hafa gegnt algjöru lykilhlutverki í vexti og framþróun félaganna. Sjóðirnir hafa alla jafna stutt vel við félögin þó fá dæmi séu um annað. Það er mörgum í fersku minni þegar Live tilkynnti á síðustu stundu að sjóðurinn myndi ekki taka þátt í hlutafjáraukningu Icelandair haustið 2020, þegar Icelandair hafði farið í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu í kjölfar þess að hafa orðið nær gjaldþrota vegna kórónuveirufaraldursins. Live hafði fram að þeim tíma verið einn stærsti hluthafi félagsins. Öllum mátti vera ljóst að VR, sem skipar helming stjórnar Live, beitti sjóðinn þrýstingi en Ragnar Þór Ingólfsson, sem var þá og er enn formaður VR, hafði í almennri umræðu reynt að valda félaginu töluverðum skaða. Fyrr á árinu hafði VR skipt út öllum sínum stjórnarmönnum í stjórn Live þegar stjórn sjóðsins tók ákvörðun um að hækka vexti á útlánum sem féll illa í kramið hjá stjórn VR. Til að rifja upp annað dæmi þá reyndi forysta Eflingar einnig að hafa áhrif á hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar árið 2019 og hvatti bæði lífeyrissjóði og almenning til að taka ekki þátt, þó við litlar undirtektir.

Þessi dæmi eru ekki mörg en þó á sér reglulega stað umræða um það hvort og þá hvaða hlutverki lífeyrissjóðir eiga að gegna við rekstur þeirra félaga sem þeir eiga hluti í. Þar takast á tveir skólar, annars vegar þeir sem halda því fram að eini tilgangur sjóðanna sé að ávaxta lífeyrisréttindi sjóðsfélaga með fjölbreyttum fjárfestingum – en hins vegar þeir sem telja að sjóðirnir geti og eigi í gegnum eignarhald sitt að hafa áhrif á strauma, stefnur og rekstur félaganna. Hér til hliðar er vikið að starfskjarastefnu skráðra félaga en áhrifin sem sjóðirnir geta haft einskorðast þó ekki við það. Dæmi er um að sjóðirnir hafi afskipti af samfélagsmálum skráðra félaga og eftir tilvikum rekstraráætlunum.

Fordæmi sett í fyrra?

Ljóst er að lífeyrissjóðir geta í krafti eignarhalds haft töluverð áhrif á rekstur og stefnu skráðra félaga. Það geta þeir bæði með því að hafa áhrif á stjórnarkjör eða eftir tilvikum með beinum afskiptum. Slíkum afskiptum eru þó takmörk sett vegna samkeppnissjónarmiða. Taka má sem dæmi að svigrúm lífeyrissjóða til að hafa áhrif á rekstur Haga og Festar eru mjög takmörkuð þar sem þeir eru flestir stórir hluthafar í báðum félögum. Þó er ekkert launungarmál að það eru ýmsar boðleiðir á milli sjóðanna og stjórna skráðra félaga.

Nú þegar tímabil aðalfunda er hafið verður fróðlegt að fylgjast með því hvort og þá hvernig sjóðirnir hafa áhrif á dagskrá aðalfunda, stefnu fyrirtækja og síðast en ekki síst stjórnarkjör. Viðmælendur ViðskiptaMoggans á markaði telja að fordæmin sem sett voru í fyrra með afskiptum sjóða af málefnum forstjóra Festar og endurteknum hluthafafundum og stjórnarkjöri í Sýn hafi opnað á það að lífeyrissjóðir muni hafa meiri afskipti af félögunum en þeir hafa gert á liðnum áratug eða svo.

Einkafjárfestar koma sterkir inn

Að lokum er rétt að taka fram að það gildir engin ein regla um það hvernig skráðum félögum er stýrt. Viðmælendur blaðsins nefna að fyrra bragði nokkur dæmi þar sem sterkir einkafjárfestar hafa komið inn í eigendahóp skráðra fyrirtækja og eigi í góðu samstarfi við lífeyrissjóði um stefnur og strauma í rekstri félaganna. Dæmi um þetta eru Stoðir í Símanum, Samherji í Eimskip, Útgerðarfélag Reykjavíkur í Brimi og Strengur í Skel (þó það samstarf hafi farið brösuglega af stað). Þessir aðilar eiga stóra hluti í fyrrnefndum félögum og segja má að þeir hafi mest um það að segja hvert félögin stefna og hvernig þau eru rekin.

Enn eru þó ekki mörg dæmi um erlenda fjárfesta í skráðum félögum hér á landi, að undanskildu Icelandair þar sem erlendir fjárfestar eiga nú rúmlega þriðjungshlut í félaginu. Þá eiga erlendir aðilar vissulega stóra hluti í Alvotech, Marel og Íslandsbanka – og þess má geta að markaðsvirði erlendra fjárfesta í þeim félögum vegur þungt þegar horft er til heildarmarkaðsvirðis í Kauphöllinni – en viðmælendur blaðsins telja þó að á næstu árum eigi erlendum aðilum eftir að fjölga á lista yfir 20 stærstu hluthafa skráðra félaga hér á landi.

Ólíklegt að sjóðirnir fylgi Gildi að málum

Eins og vikið er að hér á síðunni á sér reglega stað umræða um það hvaða hlutverki lífeyrissjóðir gegna við stjórnun fyrirtækja sem þeir eiga hlut í. Grein Árna Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Gildis, sem birt var á Innherja á visir.is á mánudag vakti til að mynda athygli. Í greininni fjallaði Árni um launakjör forstjóra í Kauphöllinni og hvatti til þess að aðrir fjárfestar – til að mynda lífeyrissjóðir – beittu sér gegn þeirri launaþróun sem hann segir hafa myndast í nokkrum félögum. Þess má geta að á síðasta ári greiddu fulltrúar sjóðsins atkvæði gegn tillögum að breytingum á starfskjarastefnu Arion banka, Skeljar og og Icelandair þar sem lagðar voru til breytingar á kaupaukakerfum, og sátu hjá þegar slík tillaga var lögð fram á aðalfundi Kviku banka.

Samkvæmt hluthafastefnu Gildis telur sjóðurinn að ef félög ákveða að styðjast við árangurstengd launakerfi sé rétt að föst laun séu að sama skapi lægri, samanborið við félög þar sem slík árangurstengd kerfi eru ekki til staðar. Í fyrrnefndri grein segir Árni að reynslan sýni að sífellt sé verið að bæta við kaupaukum í ýmsu formi til stjórnenda án þess að það komi niður á háum föstum launum. Rétt er að taka fram að það form er víða þekkt erlendis og því ekki um séríslensk dæmi að ræða. Reyndar má segja að heilt yfir séu kaupauka- og bónuskerfi skráðra fyrirtækja á Íslandi nokkuð langt á eftir sambærilegum félögum á Norðurlöndunum, annars staðar i Evrópu og í Bandaríkjunum.

Í þessu samhengi má þó geta þess að stjórnarformaður Gildis er Stefán Ólafsson, fv. prófessor í félagsfræði og nú sérfræðingur hjá Eflingu. Viðmælendur ViðskiptaMoggans gefa sér almennt að stjórn sjóðsins hafi ekki legið á skoðunum sínum er fjallað er um starfskjarastefnu skráðra fyrirtækja. Þá telja viðmælendur blaðsins að þrátt fyrir þá fjölmiðlaathygli sem grein Árna hefur vakið sé ólíklegt að lífeyrissjóðirnir sameinist um þessa skoðun Gildis, meðal annars vegna þess sem áður var vísað til hér, þar sem íslensk fyrirtæki séu að mörgu leyti eftirbátar erlendra félaga hvað starfskjarastefnu varðar. Í heimi, þar sem ríkir aukin samkeppni um fólk og hæfileika, sé þannig lítil ástæða fyrir íslensk fyrirtæki að gera verr við sína stjórnendur þegar þeir hafa menntun og hæfileika til að starfa annars staðar.

Þá vekja nokkrir máls á því að mörg skráð fyrirtæki hafi áhuga á því að fjölga erlendum stjórnarmönnum og starfsmönnum í stjórnunarstöðum. Þó stjórnarmönnum hafi fjölgað lítillega á liðnum árum eru fáir erlendir aðilar í stjórnunarstöðum skráðra fyrirtækja hér á landi. Ef íslensk fyrirtæki ætla sér að keppa á alþjóðavettvangi um stjórnendur þurfa launakjör hér, og allt sem þeim fylgir, að vera í takt við það sem gerist annars staðar að mati viðmælenda blaðsins.

Þá nefna nokkrir viðmælendur að á meðan rekstur í skráðu fyrirtæki gangi almennt vel sé það ekki forgangsmál að skerða launakjör eða tækifæri til bónusgreiðslna.