Werner Ívan Rasmusson
Werner Ívan Rasmusson
Verkefnaval Alþingis þykir okkur almúganum oft allsérkennilegt; þingmenn virðast hafa annað mat á nauðsynlegum forgangi mála á þingi en við.

Werner Ívan Rasmusson

Á árum áður var það talið til dyggða að láta sér aldrei verk úr hendi falla. Dísa gamla leit iðjuleysi óhýru auga og ef hún sá einhvern slíkan yrti hún jafnan á hinn sama með orðunum: Hefurðu ekkert að gera, auminginn!

Við almúginn dæmum störf Alþingis eftir fréttum úr fjölmiðlum og heyrum þar um miklar annir hjá þingheimi en eitthvað virðist forgangsröðin á stundum vera öðruvísi en við væntum. Enginn tími virðist vera til umræðna á raunverulegum vandamálum þjóðfélagsins en popúlisminn veður uppi.

Sem dæmi má nefna umræðuna um sölu á tilteknum eignarhlut ríkisins

í Íslandsbanka. Vandamálið er sagt vera að hugsanlega hefði verið unnt að fá 5% eða tveimur milljörðum króna meira fyrir hlutinn en endanlega fékkst, sem sagt verulegur tekjumissir. En ekki er allt sem sýnist. Um svipað leyti er sagt frá því að áætlaður byggingarkostnaður Nýja Landspítalans hafi aukist um 17 miljarða eða 27% og þingheimur þegir þunnu hljóði. Já, sínum augum lítur hver á silfrið.

Margir þeirra þingmanna er nú sitja á þingi voru í hópi þeirra sem samþykktu arðbæra innviðauppbygginu í covid-kreppunni. Forgangurinn sem valinn var er: Hús íslenskunnar, stuðlabergshöll fyrir Landsbankann, þjónustuhús fyrir Alþingi og nýtt hús við hlið Stjórnarráðsins. Nýjar fréttir herma að stækka eigi þjónustuhúsið til fjölgunar fundarsala, en það bendir til þess að um skrifstofuhúsnæði sé að ræða. Áætlaður byggingarkostnaður umræddra húsa hefur ekki verið birtur og ekki heldur áætluð arðsemi bygginganna. Ríkið hefur úrskurðað og húsin risin.

Mér er til efs að þjóðin hefði valið sömu forgangsröðun vegna þess að þá var fráflæðisvandi Landspítalans í hæstum hæðum, alvarleg vöntun á hjúkrunarheimilum um allt land og fjöldi opinberra bygginga meira eða minna ónothæfur vegna leka og myglu. Þrjár opinberar ferjur gamlar og bilanagjarnar, að maður nefni nú ekki heilbrigðismálin, sem þá bjuggu við og búa enn við mikið ófremdarástand.

Innanríkisráðherrann hefur kynnt áform um að leggja 200 króna gjald á hvern flugmiða, bæði í innanlands- og millilandaflugi. Áætlaðar árstekjur eru 1,4 milljarðar, sem nota á til uppbyggingar varaflugvalla, sem ekki mun vanþörf á. Um sama leyti tilkynnir utanríkisráðherra Íslands 100 miljóna evra framlag Íslands í sjóð til kaupa á rafölum fyrir Úkraínu. Þetta er sama upphæð og á að safna til varaflugvalla á næsta ári, en um mikið öryggismál er að ræða. Frestum framlaginu í Natósjóðinn og látum okkur nægja að hlýja þeim Úkraínumönnum sem hingað eru komnir. Látum varaflugvellina sitja í fyrirrúmi.

Íslensk stjórnvöld virðast haldin þeirri þráhyggju að láta heiminn halda að við séum stórveldi; „þjóð á meðal þjóða“. Ekki er laust við að smá minnimáttarhljómur sé í orðunum. Það virðist innbyggt í eðli okkar að eyða ávallt umfram efni, sem mér virðist umræddur ráðherra einnig hafa tilhneigingu til. Við erum örríki með takmarkaða getu, eins og best sést á meðferð stjórnvalda á okkar eigin öldruðum og öryrkjum. Ekki hef ég orðið var við annað en að t.d. Svisslendingar og Lúxemborgarbúar séu taldir þjóðir meðal þjóða, þótt þeir slái ekki um sig með aurum - sem þeir meira að segja eiga til.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Werner Ívan Rasmusson