Jónas Oddur Jónasson fæddist í Reykjavík 1. mars 1974. Hann lést 13. febrúar 2023.

Foreldrar Jónasar eru Jónína Herhborg Jónsdóttir, leikkona og sjúkraliði, f. 2.8. 1943 og Jónas M. Guðmundsson, stýrimaður, rithöfundur og listmálari, f. 15.10. 1930, d. 9.6. 1985.

Systkini Jónasar eru Ingibjörg Jónasdóttir, sérkennari, f. 27.6. 1954, d. 23.10. 2021, á sjúkrahúsi í Odense. Ingibjörg giftist Klemensi Eggertssyni, lögfræðingi, f. 22.12. 1952, d. 6.2. 2014. Þau skildu. Synir þeirra voru Jónas Þór Klemensson, f. 20.1. 1971, d. 19.6. 2004, og Davíð Klemensson, f. 25.2. 1976, d. 31.8. 2013. Ingibjörg giftist Helga Vigfússyni, sjómanni, f. 3.8. 1956, d. 7.9. 2013. Sambýlismaður Ingibjargar síðustu árin var Indriði Sigurðsson, sjómaður, f. 8.2. 1955. Grímur Þorkell Jónasson, starfsmaður Reykjavíkurborgar, f. 3.1. 1960. Jón Atli Jónasson, rithöfundur og leikskáld, f. 15.12. 1972. Jón Atli er í sambúð með Urði Hákonardóttur, tónlistarkonu, f. 22.9. 1980. Saman eiga þau Örk Von Jónsdóttur, f. 26.3. 2019. Fósturdóttir Jóns Atla og dóttir Urðar er Kría Ragnarsdóttir, f. 6.7. 2006. Dóttir Jóns Atla frá fyrra sambandi er Daniella Saga Jónsdóttir, f. 10.7. 1996. Móðir hennar er Eva Valdimarsdóttir, f. 27.1. 1970. Pétur Jökull Jónasson, tónlistarmaður, f. 2.2. 1979. Pétur á Helenu Birnu Pétursdóttur, f. 7.10. 2001. Móðir hennar er Laufey Lundbergsdóttir, f. 26.1. 1970. Herborg Drífa Jónasdóttir, tannfræðingur, f. 3.4. 1981. Börn hennar og Daða Hrafnkelssonar, f. 11.2. 1977, eru Mía Daðadóttir, f. 4.8. 2007, Nína Sif Daðadóttir, f. 18.2. 2009, og Hrafnkell Thor Daðason, f. 21.1. 2013. Stjúpdóttir Herborgar er Rebekka Ellen Daðadóttir, lögfræðingur, f. 15.8. 1998. Herborg og Daði skildu. Núverandi eiginmaður Herborgar er Walid El Hiyani, f. 24.9. 1992.

Jónas Oddur giftist Rut Valsdóttur, hjúkrunarfræðingi, f. 2.11. 1979, 6. apríl 1999. Þau skildu. Þau eiga saman einn son, Rökkva Jökul Jónasson, húsasmið, f. 24.5. 2000 í Reykjavik. Unnusta Rökkva er Ásdís Ósk Eiríksdóttir, stúdent, f. 8.9. 2002.

Jónas Oddur var í sambúð með Bjarnheiði Öldu Lárusdóttur, f. 18.3. 1979.

Jónas var glaðlyndur unglingur og efnilegur íþróttamaður. KR var félagið hans.

Jónas Oddur ólst upp í vesturbænum og bjó mestan hluta ævinnar í Reykjavík. Hann eyddi einnig miklum tíma á Eyrarbakka þar sem hann átti rætur að rekja. Hann gekk í Landakotsskóla og Hagaskóla og útskrifaðist sem stúdent úr Tækniskólanum. Jónas sinnti ýmsum störfum en var mest á sjó.

Útför fer fram frá Neskirkju í dag, 8. mars 2023, klukkan 13.

Það ríkir mikli sorg hjá fjölskyldunni við skyndilegt fráfall Jónasar Odds, við erum harmi slegin. Yndislegur og góður drengur, sem hann var, hefur nú kvatt og skilur okkur eftir í þvílíkri sorg að engin orð fá lýst. Héldum að nú yrði allt gott. Hann hafði innritað sig í Stýrimannaskólann, ætlaði að feta í fótspor föður síns, Jónasar Guðmundssonar, stýrimanns, heitins. Hann var kominn í fasta stöðu á góðu skipi frá Stykkishólmi, sem honum líkaði vel. Og eins og ávallt var hann með margar og góðar hugmyndir um framtíðina. En það gat ekki orðið. Dagurinn 13. febrúar var að kvöldi komin, tími kominn til að fara í rúmið og þakka fyrir góðan dag. Allt var með kyrrum kjörum, en skyndilega var barið að dyrum og úti fyrir stóð fjölskylda mín ásamt presti. Hvað gerir móðir í þessari stöðu? Hún fórnar höndum og hrópar á frelsara sinn sem öllu ræður, nei, nei, nei, ekki hingað inn. Það er komið nóg. Sá sem öllu ræður spyr ekki um stund né stað. Hans tími var kominn. Lífsbókin hans Jónasar Odds míns hafði lokast. En hver er tilgangur með dauðsfalli Jónasar Odds, sem elskaði lífið og allt sitt fólk, sá ekki sólina fyrir syni sínum, Rökkva Jökli, og öllum er stóðu honum næst? Svari hver fyrir sig. Ekki má gleyma hundinum Leó, sem hann elskaði, hann átti hug hans allan. Ekkert var nógu gott fyrir Leó. Flestir hændust að Jónasi Oddi, hann var spaugsamur með afbrigðum, hafði svör við öllu, skarpgreindur og vinur vina sinna.

Ég bið Guð og englana að gæta þín elsku fallegi drengurinn minn og lýk þessum orðum mínum nú með þínum, sem ég fékk alltaf að heyra er þú kvaddir mig. Ég elska þig.

Þín mamma

Jónína Herborg Jónsdóttir, Heiðdalshúsi Eyrarbakka.

Elsku hjartans Jónas minn, aldrei átti ég von á að þú yrðir bráðkvaddur og færir svona snögglega frá mér. Þú varst annar af mínum allra bestu vinum og við höfum upplifað svo margt saman. Við höfðum fyrir löngu ákveðið að ganga saman í gegnum lífið og söknuðurinn er mikill og erfiður. Allt hafði gengið svo vel og ég hlakkaði svo til að eyða okkar sérstöku stundum saman í framtíðinni. Mér finnst ég vera svo heppinn að hafa átt þig sem vin enda voru samverustundir okkar svo sérstakar og skemmtilegar, alltaf að grínast og stríða hvor öðrum. Við vorum alveg einstakir vinir í gegnum súrt og sætt. Alltaf þegar þú hringdir í mig þá sagðirðu sæll elsku bróðir, það verður sárt að fá ekki að heyra það aftur. Alltaf varstu mér trúr og tryggur og sannarlega vinur í raun. Ég er ekki að segja skilið við þig, Jónas minn, enda veit ég að þú verður með mér þangað til við hittumst aftur á öðrum stað.

Þinn vinur ávallt og að eilífu,

Skapti.

Tíminn læknar öll sár

Við vorum öll mjög sorgbitin

og beygurinn hafði heltekið okkur

rétt einu sinni einsog þegar svört

skýin leggjast yfir fuglana

sem geta ekki lengur hafið sig til flugs

aðeins þanið svarta vængina

einsog maður sem flettir

gömlu dagblaði

á biðstofunni hjá lækninum

þar sem hann bíður dauðans.

þá kom hann og sagði:

verið rólegir vinir mínir,

tíminn læknar öll sár.

Verið rólegir vinir mínir,

það er ennþá til meira af tíma

í heiminum

en af sársauka.

(Jónas Guðmundsson)

Okkar tími byrjaði einn eftirmiðdaginn sumarið 1995 uppi á annarri hæð á Kaffibarnum. Þar sat Jónas, sætasti töffari sem ég hafði nokkurn tíma hitt, og drakk kaffi með vini sínum, nýkominn af sjónum. Hann var ekki lengi að sjarmera okkur vinkonurnar upp úr skónum, sautján ára og nýbúnar með fyrsta ár í menntaskóla. Ég kolféll fyrir honum um leið, enda Jónas með skemmtilegustu, fyndnustu og klárustu mönnum sem ég hef hitt um ævina. Við entumst ekki lengi sem kærustupar en við tók margra ára vinskapur þar sem Jónas var mér og fjölskyldu minni alltaf einstaklega góður. Ég á ófáa litlu hlutina og kortin sem hann gaf mér í gegnum árin, þar sem hann titlaði okkur jafnan „Jonassis og Glæpaöldu“ af því að þannig var hann: hugulsamur töffari með húmor.

Tíminn læknar ekki öll sár, sumum þurfum við bara að læra að lifa með, en mikið er ég þakklát fyrir þann tíma sem við þó fengum saman.

Elsku gamli vinur. Við munum víst ekki dansa saman við Stone Temple Pilots á elliheimilinu eins og við ætluðum okkur en mikið vona ég að þú sért kominn á fallegri og betri stað. Elska þig, alltaf.

Alda Berglind.

hinsta kveðja