Akureyri Leikmenn og aðstandendur Skautafélags Akureyrar fagna Íslandsmeistaratitlinum ásamt áhorfendum eftir sigurinn á Fjölni í gærkvöld.
Akureyri Leikmenn og aðstandendur Skautafélags Akureyrar fagna Íslandsmeistaratitlinum ásamt áhorfendum eftir sigurinn á Fjölni í gærkvöld. — Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skautafélag Akureyrar er Íslandsmeistari kvenna í íshokkí 17. árið í röð og í 22. skipti. SA tók á móti Fjölni í þriðja leik úrslitakeppninnar í gærkvöldi í Skautahöllinni á Akureyri en SA hafði unnið tvo fyrri leikina, 1:0 og 4:2

Á Akureyri

Einar Sigtryggsson

sport@mbl.is

Skautafélag Akureyrar er Íslandsmeistari kvenna í íshokkí 17. árið í röð og í 22. skipti. SA tók á móti Fjölni í þriðja leik úrslitakeppninnar í gærkvöldi í Skautahöllinni á Akureyri en SA hafði unnið tvo fyrri leikina, 1:0 og 4:2.

Fyrstu tveir leikhlutarnir í leiknum voru mjög jafnir og hvort lið hefði getað skorað nokkur mörk. Staðan var lengi vel 1:0 fyrir SA en þrjú mörk á stuttum kafla undir lok annars leikhlutans og í byrjun þess þriðja gerðu vonir Fjölnis að engu.

Með 4:0 stöðu léku norðankonur við hvurn sinn fingur og þeim tókst að bæta við marki áður en yfir lauk. Fjölnir skoraði loks á lokasekúndunum og 5:1 urðu því lyktir leiksins. SA-konur fögnuðu vel og innilega í leikslok og Herborg Geirsdóttir lyfti bikarnum hátt á loft.

Hilma Bergsdóttir, Anna Ágústsdóttir, Berglind Leifsdóttir, Sólrún Arnardóttir og Inga Aradóttir skoruðu fyrir SA og Sigrún Agatha Árnadóttir fyrir Fjölni.

Bestu menn liðanna í leiknum voru markverðirnir. Shawlee Gaudreault í marki SA varði oft mjög vel og í stöðunum 0:0 og 1:0 voru markvörslur hennar mjög mikilvægar. Birta Júlía Þorbjörnsdóttir varði vel í marki Fjölnis þrátt fyrir allt.

Samt sjaldan jafnari

Í raun má segja að leikurinn hafi verið í járnum fram í byrjun fjórða leikhlutans því Fjölniskonur voru alltaf líklegar til að skora en í stöðunni 4:0 var verkefni þeirra orðið mjög erfitt.

Þrátt fyrir 3:0 sigur SA í úrslitakeppninni þá hefur hún sjaldan verið jafnari og lið Fjölnis veitti harða keppni í þremur jöfnum leikjum. Fjölnir leið sjálfsagt fyrir smæð leikmannahópsins og þétta leikjadagskrá en spilað var annan hvern dag með löngum ferðalögum norður og til baka. Það er líka merkilegt að SA skuli sífellt ná að unga út leikmönnum í stað þeirra sem færa sig í stærri deildir í útlöndum eða fara suður í nám. Nú er að sjá hvort SA takist að gera slíkt áfram eða hvort önnur lið fari að velta þeim af stalli.