Hefur brag persónulegrar hefndarráðstöfunar

Tvær athyglisverðar greinar birtust hér í blaðinu í gær, annars vegar frá starfandi borgarfulltrúa, Kolbrúnu Baldursdóttur, og hins vegar Ólafi F. Magnússyni, fyrrverandi borgarstjóra og borgarfulltrúa. Borgarstjórinn fyrrverandi segist sorgmæddur yfir aðförinni að Borgarskjalasafni Reykjavíkur. „Væri ekki nær,“ bætir hann við, „að „spara“ 170 milljónir króna („eða jafnvel milljarða“) með því að draga úr pólitískri yfirbyggingu í borginni og fjöldaráðningum á vinum Dagsmeirihlutans? Ekkert er þessu fólki heilagt, ekki einu sinni saga borgarinnar. Hver „sparnaðurinn“ yrði er enn óljóst, en hann yrði alla vega sáralítið hlutfall af flottræfilshætti Dags Eggertssonar á Nauthólsvíkurbragga og Óðinstorgi, fyrir framan heimili hans (sjálfs), auk allrar vitleysunnar um borgarlínu, flugvallarbrottnámið og jafnvel lest til Keflavíkur. Svo vilja þessir spekingar hindra umferð um borgina eða grafa hana niður og eru langt komnir með skemmdarverkum og skipulagsofforsi að eyðileggja möguleikann á að leggja Sundabraut norður yfir sundið til Gufuness.“

Ólafur vitnar til starfs síns sem borgarfulltrúa í 20 ár og þar af borgarstjóri um hríð, sem auðveldi honum að sjá að „þessi aðför er smánarleg og skammarleg“ og „sparar“ ekki neitt hjá „milljarðasóunarmeirihlutanum“ í borginni með öll sín gæluverkefni og víðtæku pólitísku spillingu og fyrirgreiðslu. Ólafur skrifar: „Í viðtali við Vísi 17. febrúar sl. segir Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður til 37 ára: „Þetta er Ráðhúsið. Þetta eru verklegu framkvæmdirnar, skólarnir og svo framvegis. Við tökum síðan við þessu, þetta kemur allt til okkar á Borgarskjalasafn og við sjáum til þess að þetta sé sómasamlega skráð svo það sé hægt að finna þetta og við erum sömuleiðis að hafa eftirlit með skjalastjórnuninni.“ Þá segir Ólafur: „Þess skal getið að einmitt þetta eftirlit kom upp um misferli og ólöglega gerninga félaga Dags Eggertssonar í braggamálinu alræmda árið 2018. Óhugnanlegt er, ef slík misferli verða látin viðgangast í öðrum og miklu dýrari gæluverkefnum Dags og félaga án dóms og laga. Bara í braggamálinu braut Dagur svo illa af sér, að hann hefði að minnsta kosti átt að víkja sem borgarstjóri.“ Þá segir greinarhöfundur að í frétt á Vísi frá 17. febrúar segði „Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í sagnfræði, að „tillagan gæti fært starfið áratugi aftur í tímann, ómetanleg sagnfræðiþekking gæti glatast“.“

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn, hefur verið öflug í sínu starfi þar og veitt mikilvægt aðhald þar, sem ekki veitir af, þegar sleifarlag „meirihlutans“ fer úr öllu hófi, sem virðist fremur regla en undantekning. Aðförin að Borgarskjalasafni er að mati Kolbrúnar óskiljanleg mistök og það að ætla að leggja niður þá starfsemi án þess að vísbending sé gefin um hvað eigi að koma í staðinn. Kolbrún segir: „Farið var á svig við allt samráð og samvinnu við starfsmenn og borgarskjalavörð og kom ákvörðun (Dags) um niðurlagningu safnsins eins og blaut tuska í andlit þeirra. Ekki er vitað hvað gera á við gríðarleg verðmæti sem safnið heldur utan um eða þjónustuna sem það veitir.“

Kolbrún borgarfulltrúi segir að í pantaðri skýrslu komi „fram margháttaðar ávirðingar á borgarskjalavörð. Hún segir að „það sé afar ófagmannlegt í skýrslu sem þessari, að birta slíkar ávirðingar án þess að andmælaréttur viðkomandi sé virtur, en í stjórnsýslulögum er kveðið sérstaklega á um andmælarétt.“ Og svo segir borgarfulltrúinn: „Hver er kominn til með að segja að þessar ávirðingar séu á rökum reistar og hvaðan skyldu þær koma?“ Það er góð spurning, þótt æði margir myndu ætla að svarið við þeirri spurningu lægi í augum uppi, ef miðað er við ofsann í málinu og hver það er sem beitir sér mest fyrir honum.