40 ára Guðmundur Pétursson ólst upp í Reykjavík í vesturbænum og í Hlíðunum og fór í Melaskóla og síðar í Æfingaskólann. Eftir að fara í Iðnskólann og síðan í Borgarholtsskóla lærði hann grafíska hönnun í Listaháskólanum

40 ára Guðmundur Pétursson ólst upp í Reykjavík í vesturbænum og í Hlíðunum og fór í Melaskóla og síðar í Æfingaskólann. Eftir að fara í Iðnskólann og síðan í Borgarholtsskóla lærði hann grafíska hönnun í Listaháskólanum. „Ég byrjaði fljótt að vinna í bókabúð meðfram námi og hafði alltaf haft mikinn áhuga á bókum, sem krakki var ég alltaf að teikna og skoða bækur og teiknimyndasögur og þær hafa alltaf átt stóran sess í mínu lífi. Þannig að áhugi minn á bókum og teikningu varð til þess að ég fór í grafíska hönnun,“ segir Guðmundur sem les einnig mikið. Lengst af var Guðmundur að vinna á Fréttablaðinu en þaðan fór hann í auglýsingabransann. „Ég var að vinna á Íslensku auglýsingastofunni, Döðlum og Brandenburg en núna í sumar byrjaði ég að vinna á hönnunarstofunni Kolofon.“ Guðmundur segir að það sé mjög líflegt vinnuumhverfi, en mest hafi hann unnið að ásýnd fyrirtækja. „Þetta er mjög skemmtilegt og fjölbreytt starf. Vinnan felst oft í því að leysa gátur eða finna leiðir til að miðla flóknum upplýsingum á skýran og skiljanlegan hátt og getur verið allt frá því að teikna táknmyndir fyrir leiðakerfi, hanna vefsíður, brjóta um skýrslur eða bækur eða að hanna heildarásýnd fyrirtækis eða vörumerkis.“

Þegar vinnunni sleppir hefur Guðmundur mjög gaman af því að veiða og að vera úti í íslenskri náttúru og ganga á fjöll. „Svo er samvera með fjölskyldunni dýrmæt og við fengum okkur hund í fyrra sem hefur verið mjög skemmtilegt.“

Fjölskylda Eiginkona Guðmundar er Anna Tómasdóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, f. 1983 og þau eiga börnin Þórkötlu Björgu, f. 2012, Melkorku Önnu, f. 2014 og Benjamín Stein, f. 2019. Þau búa í Hlíðunum í Reykjavík. Foreldrar Guðmundar eru Auður Hallsdóttir, skrifstofumaður í Pennanum/Eymundsson, búsett í Reykjavík og Pétur Björn Guðmundsson, búsettur á Blönduósi.