Beatriz er margt til lista lagt en hún bjó í Kína þega hún féll kylliflöt fyrir brasilísku bardagalistinni Capoeira.
Beatriz er margt til lista lagt en hún bjó í Kína þega hún féll kylliflöt fyrir brasilísku bardagalistinni Capoeira.
Óhætt er að segja að Beatriz hafi átt óvenjulegt lífshlaup. Hún fæddist á Kúbu árið 1982 og bjó þar og í Ekvador jöfnum fetum allt þar til hún hélt til Hollands í háskólanám. Frá 2007 bjó hún í Sjanghæ og Peking, lærði kínversku og varð hugfangin af …

Óhætt er að segja að Beatriz hafi átt óvenjulegt lífshlaup. Hún fæddist á Kúbu árið 1982 og bjó þar og í Ekvador jöfnum fetum allt þar til hún hélt til Hollands í háskólanám. Frá 2007 bjó hún í Sjanghæ og Peking, lærði kínversku og varð hugfangin af kínverskum menningarheimi og brasilísku bardagalistinni Capoeira. Árið 2014 flutti hún til Íslands með íslenskum eiginmanni sínum.

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

Það voru UT-messan hér í Reykjavík og Mobile World Congress (MWC) í Barselóna. Á UTmessunni var gaman að sjá góða samsetningu fyrirlestra á íslensku og ensku og umfjöllunarefnin voru mjög fjölbreytt. Ánægjulegt er að fjöldi fyrirtækja leggur áherslu á sjálfbærni og loftslagsbreytingar en Huawei hefur lagt ofuráherslu á heimsmarkmiðin og græna tækni í áraraðir.

Kenneth Fredriksen, varaforseti Huawei, kynnti gott dæmi um þetta starf á UT-messunni þar sem hann fjallaði um gervigreindartæknilausnir Huawei sem hægt er að nota til að fyrirbyggja ágang hnúðlaxastofnsins í íslenskum ám. MWC í Barselóna var ógleymanlegt: Ég hef aldrei verið á stærri viðburði bæði hvað varðar fjölda bása, nýjungar, fyrirlestra og þátttakendur. Ég var rosalega stolt af básnum okkar hjá Huawei – það var eins og að stíga inn í undratækniheim framtíðar.

Hvaða bók eða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ég les mest fagurbókmenntir þannig að einstaka bækur hafa hverfandi áhrif á mín störf. Ég er lögfræðingur að mennt og það litar störf mín. Hef búið í Kína í sjö ár og ferðast víða um heim og orðið fyrir kröftugum innblæstri af eljusemi Kínverja og Asíubúa almennt. En hvað varðar vinnuna skiptir það miklu máli að vakta umræðuna um heimsmálin, þróun tækni og viðskipta, með áherslu á ólík sjónarmið. Mér finnst gaman að hlusta á hlaðvarp eins og The Sinica Podcast sem fjallar um Kína á hlutlægan hátt, Tech Won’t Save Us, og Digging a Hole sem er lögfræðitengt og El Enjambre sem fjallar um heimaland mitt, Kúbu.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Það er rosalega gott að vinna hjá Huawei hvað þetta varðar þar sem þess er krafist að starfsmenn sæki endurmenntun. Þess vegna er mikil hefð fyrir námskeiðum innanhúss og rosalega öflug fundahöld milli landsskrifstofa. Þannig lærum við mikið hvert af öðru, deilum góðum viðskiptaháttum o.s.frv. Við erum líka með opið svæði sem heitir iLearningX sem er með gott framboð námskeiða um tækni, viðskipti, leiðtogahugsun o.fl. Þá langar mig líka að nefna hlaðvarpið Hidden Forces sem fjallar um allt frá netöryggi til sveiflna í fjármálaheiminum og í raun allt sem heldur gangverki heimshagkerfisins rúllandi.

Hugsarðu vel um líkamann?

Alveg rosalega vel þar sem ég er eitthvað miklu meira heldur en forfallinn Capoeira-iðkandi. Capoeira er brasilísk bardagalist sem á sér um 500 ára langa sögu og var nýlega skráð á heimsminjaskrá UNESCO. Hún er það fallegasta sem ég hef séð, veit og þekki og ég eyði svo til öllum lausum stundum í að æfa Capoeira. Þá þjálfa ég barna-, krakka- og fullorðinsflokka og rek lítið æfingastúdíó fyrir Capoeira-félagið á Íslandi sem ég stofnaði.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Það skemmtilega við að vinna hjá alþjóðlegu risafyrirtæki eins og Huawei er að ég hef aðgang að svo mörgum svölum verkefnum – sérstaklega á sviði sjálfbærni og samfélagslegrar ábyrgðar – á grasrótarstigi í samfélögum út um allan heim. Þetta geta verið verkefni allt frá því að nýta tækni Huawei til að telja, rannsaka og vernda fugla með því að taka upp hljóð og söng þeirra á austurrísku verndarsvæði yfir í samfélagsverkefni sem ganga út á að tryggja netaðgang í sveitarfélögum í Afríku og þannig bæta afkomu tugþúsunda manna í þróunarlöndunum.

Ævi og störf

Nám: BA í félagsvísindum með áherslu á lögfræði við University College í Utrecht árið 2004; LLM gráða í alþjóðlegum refsirétti við University College í Utrecht 2005; BA-próf í lögfræði frá University of London 2011.

Störf: M.a. aðstoðarlögfræðingur við alþjóðaglæpadómstólinn í Haag; verkefnastjóri hjá menntamálasamtökum í Sjanghæ og ráðgjafi fyrir mannréttindastofnun China University of Political Science and Law í Peking. Skrifstofustjóri Huawei á Íslandi frá 2018 og tók árið 2020 einnig við stöðu sem fulltrúi á sviði samskipta og samfélagslegrar ábyrgðar hjá fyrirtækinu.

Áhugamál: Hef stundað Capoeira frá 2005. Byrjaði að þjálfa í Peking í 2011 og hef síðan rekið Capoeira-skóla þar og á Íslandi þar sem ég þjálfa börn og fullorðna.

Fjölskylduhagir: Gift Hafliða Sævarssyni, verkefnastjóra og listmálara. Saman eigum við tvo drengi, 6 og 14 ára.