London Leikmenn Chelsea fagna Kai Havertz eftir að hann kom þeim í 2:0 með marki úr vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik gegn Dortmund.
London Leikmenn Chelsea fagna Kai Havertz eftir að hann kom þeim í 2:0 með marki úr vítaspyrnu snemma í seinni hálfleik gegn Dortmund. — AFP/Glyn Kirk
Þó enska knattspyrnuliðið Chelsea sé í tómu basli í úrvalsdeildinni er liðið komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir góðan sigur á þýska liðinu Borussia Dortmund, 2:0, á Stamford Bridge í London

Þó enska knattspyrnuliðið Chelsea sé í tómu basli í úrvalsdeildinni er liðið komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir góðan sigur á þýska liðinu Borussia Dortmund, 2:0, á Stamford Bridge í London.

Dortmund vann fyrri leikinn í Þýskalandi, 1:0, en Graham Potter og hans menn náðu að snúa blaðinu við og unnu á tveimur mörkum sem komu sitt hvorum megin við leikhlé.

Raheem Sterling skoraði á 44. mínútu eftir sendingu frá Ben Chilwell. Bakvörðurinn Chilwell kom aftur við sögu á 49. mínútu þegar Chelsea fékk vítaspyrnu eftir að hann átti fyrirgjöf og boltinn fór í hönd varnarmanns. Kai Havartz skoraði gegn löndum sínum, 2:0, og Chelsea hélt fengnum hlut af nokkru öryggi eftir það.

Benfica frá Portúgal fór auðveldlega í átta liða úrslitin með stórsigri á Club Brugge, 5:1, í Lissabon en Portúgalirnir höfðu unnið fyrri leikinn í Belgíu, 2:0.

Goncalo Ramos skoraði tvö mörk, Rafa Silva, João Mario og David Neres eitt mark hver, en Bjorn Meijer minnkaði muninn fyrir Belgana undir lok leiksins.

Tvö lið komast í átta liða úrslit í kvöld. Bayern München fær París SG í heimsókn, en Bayern vann fyrri leikinn í París, 1:0, og Tottenham tekur á móti AC Milan en Milan vann 1:0 á Ítalíu.