Sogavegur 73-81 Húsin voru byggð árið 2020 og þar eru fjölmargar íbúðir. Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis vill bæta stígakerfið við götuna.
Sogavegur 73-81 Húsin voru byggð árið 2020 og þar eru fjölmargar íbúðir. Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis vill bæta stígakerfið við götuna. — Morgunblaðið/sisi
Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis vill að gerðar verði úrbætur við nýbyggingar að Sogavegi 73-81. Þær séu illa tengdar við stígakerfi hverfisins og langt sé í næstu gönguþverun. Fjölmargar íbúðir eru í húsunum, sem byggð voru árið 2020

Íbúaráð Háaleitis- og Bústaðahverfis vill að gerðar verði úrbætur við nýbyggingar að Sogavegi 73-81. Þær séu illa tengdar við stígakerfi hverfisins og langt sé í næstu gönguþverun. Fjölmargar íbúðir eru í húsunum, sem byggð voru árið 2020.

Á síðasta fundi íbúaráðsins var tekið til umfjöllunar bréf frá íbúa, sem dagsett var 3. febrúar síðastliðinn. Hann hefur áhyggjur af umferðaröryggi barna og annarra gangandi vegfaranda yfir Sogaveginn.

„Það vantar alveg gangbraut yfir Sogaveg á þessu svæði, í raun er blokkin illa tengd við hverfið og virðist ekki gera ráð fyrir skólagöngu barna. Hinum megin við Sogaveg er nauðsynleg þjónusta eins og skóli og leikskóli en einnig eru þar leiksvæði og græn svæði. Því er freistandi fyrir börn og aðra að stytta sér leið yfir Sogaveg enda styttir það ferðalagið um mörg hundruð metra. Bílaumferð um Sogaveg er töluverð og bílar oft langt yfir hámarkshraða.“

Íbúaráðið tekur undir áhyggjur bréfritara. Til þess geti komið að gangandi vegfarendur þveri götuna við óöruggar aðstæður með tilheyrandi slysahættu. Íbúaráðið tekur því undir mikilvægi þess að gerðar verði þær úrbætur við Sogaveg sem bréfritari leggur til.

Samþykkt var að senda erindið til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, til upplýsingar. sisi@mbl.is