Vindmyllur Þessar voru settar upp við Búrfell fyrir nokkrum árum af Landsvirkjun til að kanna hagkvæmni vindorku.
Vindmyllur Þessar voru settar upp við Búrfell fyrir nokkrum árum af Landsvirkjun til að kanna hagkvæmni vindorku. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Tveggja ára vöktun á hegðun sjófugla sem flugu í grennd við vindorkuver á hafinu undan strönd Aberdeen leiddi í ljós að enginn sjófugl flaug á spaðana á þessu tímabili. Mismunandi var þó hversu nálægt þeir fóru í átt að vindmyllublöðum orkuveranna, eða í allt frá tíu metrum til 150 metra.

Sviðsljós

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Tveggja ára vöktun á hegðun sjófugla sem flugu í grennd við vindorkuver á hafinu undan strönd Aberdeen leiddi í ljós að enginn sjófugl flaug á spaðana á þessu tímabili. Mismunandi var þó hversu nálægt þeir fóru í átt að vindmyllublöðum orkuveranna, eða í allt frá tíu metrum til 150 metra.

Það var sænska orkufyrirtækið Vattenfall sem stóð fyrir rannsókninni. Hún er hluti af þriggja milljóna evra rannsóknarfjárfestingu Vattenfalls til að fræðast meira um áhrif vindorkuvera á hafi og er verkefnið eitt hið stærsta sinnar tegundar í heiminum. Niðurstaðan er byr í segl þeirra sem styðja nýtingu vindorkunnar.

Umdeild áform

Áhrif vindorkuvera á fuglalíf hafa sem kunnugt er mjög verið í sviðsljósinu bæði hér á landi og erlendis samhliða stórauknum áhuga stjórnvalda í mörgum löndum og fjársterkra aðila á þessum orkuöflunarkosti. Þeir sem hlynntir eru vindorkuverum benda á að þau séu umhverfisvænn orkugjafi og veiti ekki af, nú í glímunni við loftslagsvána.

Efasemdarmenn hafa hins vegar lagt áherslu á sjónmengun og hávaðamengun frá þessum orkuverum og ekki síður hugsanleg neikvæð áhrif þeirra á fuglalíf. Þá hafa áform um vindorkuver hér á landi líka mætt andstöðu vegna neikvæðra ásýndaráhrifa á ferðaþjónustu og verð jarðeigna.

Umræður um vindorkuver hér á landi hafa svo til eingöngu snúist um orkuver á landi. Vindmyllurnar við Aberdeen eru hins vegar á fljótandi stólpum svo langt frá landi að hávaði frá þeim veldur ekki ónæði og sjónmengun er takmörkuð. Staðsetningin er þó fyrst og fremst valin vegna þess að úti á hafinu er vindurinn sterkari og stöðugri. Rannsókn Vattenfall kann þó einnig að hafa gildi fyrir umræður um áhrif vindorkuvera af því tagi sem rætt er um að reisa hér.

Í nýlegu áliti Skipulagsstofnunar vegna matsáætlunar fyrirtækisins Zephyr Iceland um vindorkugarð á um 300 fermetra svæði að Brekku í Hvalfjarðarsveit segir að mat á áhrifum á fugla sé einn þýðingarmesti þáttur umhverfismats vindorkugarða. Fyrirhugað er að reisa um 8-12 vindmyllur á svæðinu í um 650 metra hæð yfir sjávarmáli og gætu vindmyllurnar orðið allt að 250 metra háar. Segir Skipulagsstofnun að slík uppbygging sé án fordæma hér á landi, en þekkt sé erlendis að vindorkuver geti haft mikil áhrif á fuglalíf.

Neikvæð áhrif á fuglalíf?

Fram kemur í álitinu að í mörgum umsögnum sem Skipulagsstofnun hefur fengið vegna áætlunarinnar sé bent á þau neikvæðu áhrif sem fyrirhugaður vindorkugarður kann að hafa á fugla.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar kemur fram að stofnunin hafi skilgreint Hvalfjörð sem mikilvægt fuglasvæði og tilnefnt svæðið á B-hluta náttúruminjaskrár. Um fjörðinn liggja m.a. farleiðir margæsa, rauðbrystinga og fleiri farfugla og þar verpa ýmsar tegundir. Hafernir heimsækja stundum Hvalfjörð sem og fálkar. Þótt framkvæmdasvæðið skarist ekki við mörk fuglasvæðisins er það mjög nálægt því og afar mikilvægt er að meta hvort farleiðir t.d. margæsa liggi þar um.

Náttúrufræðistofnun sem og Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppur telja ratsjármælingar nauðsynlegar til viðbótar við sjónarhólsmælingar til að meta för fugla um svæðið. Ratsjármælingarnar ættu að ná yfir sama tveggja ára tímabil og sjónarhólsmælingar.

Tímamótarannsókn

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Vattenfall að stuðst hafi verið við ratsjármælingar og myndavélar með gervigreindarbúnaði við eftirlitið með flugi sjófuglanna við vindorkuverin fyrir utan Aberdeen. Þannig var hægt að greina af nákvæmni hegðun fuglanna og áhrif vindspaðanna á flugslóð þeirra. Sumir fuglanna héldu sig frá vindorkuverinu en þeir sem komu nær forðuðust spaðana og flugu á milli þeirra og urðu þannig ekki fyrir neinu hnjaski af völdum þeirra.

Í rannsókninni var stuðst við um tíu þúsund myndbönd. Í tilvikum þeirra fugla sem flugu nær vindmyllunum en tíu metra breyttu um 96% þeirra um stefnu til að forðast árekstur við spaðana.

Haft er eftir Robin Cox, umhverfissérfræðingi hjá Vattenfall, að rannsóknin marki mikil tímamót og auki skilning á hegðun sjófugla í grennd við vindmyllur. Niðurstöðurnar komi til með að auka stuðning við uppbyggingu vindorkuvera, og um leið takist að vernda stofna sjófugla við strendur Bretlands.

Höf.: Guðmundur Magnússon