Störf Vísitalan er gefin úr árlega og mælir jafnrétti til vinnu í OECD.
Störf Vísitalan er gefin úr árlega og mælir jafnrétti til vinnu í OECD. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ísland er besti staðurinn fyrir konur á vinnumarkaði samkvæmt glerþaksvísitölu (e. glass-ceiling index) breska tímaritsins The Economist. Vísitalan er gefin úr árlega og mælir jafnrétti til vinnu í löndum innan OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar

Ísland er besti staðurinn fyrir konur á vinnumarkaði samkvæmt glerþaksvísitölu (e. glass-ceiling index) breska tímaritsins The Economist.

Vísitalan er gefin úr árlega og mælir jafnrétti til vinnu í löndum innan OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar.

Svíþjóð, Finnland, Noregur og Portúgal koma næst á eftir Íslandi á toppi vísitölunnar.

Eins og segir í frétt The Economist um málið þá standa Norðurlöndin sig best í að styðja konur við að ljúka háskólanámi, við starfsleit, að komast í stjórnunarstöður í fyrirtækjum og að nýta sér foreldraorlof og sveigjanlegan vinnutíma.

Þurfa að velja

Japan og Suður-Kórea reka lestina á listanum ellefta árið í röð, en löndin eru í 28. og 29. sæti næst á eftir Tyrklandi. Í grein tímaritsins er skýringin á þessum laka árangri neðstu landanna tveggja sú að þar er enn það viðhorf ríkjandi að konur þurfi að velja á milli starfsframa og þess að stofna fjölskyldu.

Bandaríkin og Bretland eru við meðaltal OECD þó bæði löndin nái hárri einkunn þegar kemur að konum í stjórnunarstöðum.

Í frétt The Economist segir einnig að kosið hafi verið í þrettán landa OECD á síðasta ári sem hafi ýtt hlutfalli kvenna á þingi yfir þriðjung (33,8%) í fyrsta skipti. Þá segir að hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja hafi farið yfir 30% í fyrsta skipti, en í júní setti Evrópusambandið markmið um að hlutfallið yrði 40% fyrir 2026.

Þetta er í ellefta sinn sem tímaritið birtir glerþaksvísitöluna en hún nær nú til 29 ríkja.