Flóttamaður Bókin er að mestu leyti byggð á ævi Dinu Nayeri sjálfrar.
Flóttamaður Bókin er að mestu leyti byggð á ævi Dinu Nayeri sjálfrar. — Ljósmynd/Anna Leader
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sannsögulegt efni Vanþakkláti flóttamaðurinn ★★★★· Eftir Dinu Nayeri. Bjarni Jónsson íslenskaði. Angústúra, 2022. Kilja, 400 bls.

Bækur

Ingibjörg Iða Auðunardóttir

Verk Dinu Nayeri, The Ungrateful Refugee, frá árinu 2019 kom út í íslenskri þýðingu Bjarna Jónssonar, sem Vanþakkláti flóttamaðurinn, skömmu fyrir jól. Þýðing Bjarna er flekklaus og flæðir gífurlega vel og á hann lof skilið fyrir vel unnið verk. Bókin er að mestu leyti byggð á ævi Nayeri sjálfrar. Þar segir hún frá því þegar hún þurfti að flýja Íran í lok níunda áratugar síðustu aldar með fjölskyldu sinni, að mestu vegna þess að móðir hennar hafði snúist til kristni frá íslam. Bókin hefst á hugleiðingum um hver sé skilgreining flóttamanns og hvenær hann eigi „rétt“ eða hvenær sé „tímabært“ að flýja heimkynni sín, líkt og hún kjarnar vel í eftirfarandi tilvitnun:

„Ólíkt því sem gerist með farandfólk þá reka flóttamenn í raun ekki sérstakt erindi; af þeim stafar að minnsta kosti engin ógn. Þeir eru oft niðurbrotnir og vilja ekkert frekar en að verða nákvæmlega eins og hinir innfæddu. Þeim er vorkunn að verða að þiggja greiða. [...] en sá sem fæðist í þriðja heiminum og vogar sér að leita leiða út úr yfirvofandi eymd er umsvifalaust tortryggilegur; afæta, tækifærissinni, þjófur, manneskja sem gerir fullkomlega óraunhæfar kröfur“ (19).

Og þetta er nákvæmlega kjarni bókarinnar og situr hvað mest eftir hjá gagnrýnanda eftir lestur hennar. Íslenskt samfélag fjallar stöðugt um þetta, síðasta minnisverða dæmið var til að mynda í áramótaskaupinu; þurfum við virkilega að „sanna“ að einhver sé samkynhneigður svo sögu hans sé trúað – að hann muni sæta ofsóknum vegna kynhneigðar sinnar í landi sínu? Hvaða forsendur höfum við til þess að meta hvaða ógn er yfirvofandi – hvað krefst okkar athygli strax og hvað megi bíða – þegar við búum í landi allsnægta? Höfum við, sem Íslendingar sem búum í öruggu og herlausu landi, einhvern rétt til að ákveða hvenær fólk er í raunverulegri neyð og hvenær ekki?

Um leið og Nayeri segir sögu sína fléttar hún inn í hana sögum annarra flóttamanna sem hún hefur kynnst eða heyrt um yfir ævi sína, enda þjóna sögur gífurlega mikilvægu hlutverki í lífi flóttamanna, líkt og greint er frá í bókinni. Saga flóttafólks verður nokkurs konar gjaldmiðill sem þau neyðast til að nota til að leita hælis og nýs lífs:

„Í flóttamannabúðunum eru sögurnar mikilvægastar. Allir eiga sér sögu, eftir að hafa sloppið naumlega með skrekkinn. Allir eru í biðstöðu, hafa hvorki leyfi til að vinna né fara burt, verða að sætta sig við að hafa lent á nýjum stað í veröldinni. Allir eru ókunnir, þurfa að kynna sig fyrir öðrum“ (16) og síðar segir: „Ekkert annað skiptir hlustendur þeirra máli, öll þjáningin virðist hreinn sparðatíningur í ljósi kraftaverksins sem sjálf undankoman var. Baráttan snýst ekki lengur um að halda sér á lífi, heldur að vernda söguna sem það hefur að segja; gæta þess að hún lendi ekki í skáldskaparhaugnum“ (24-25).

Sögurnar af lífinu í gamla heimalandinu og flóttanum sjálfum virðast því verða nokkurs konar sameiningartól, sem og aðferð til að lifa af. Þau líta svo á, líkt og Nayeri kemst svo vel að orði, „að þessir dramatísku mánuðir (eða ár) hafi umbreyst í sjálfsmynd þeirra“ (24). Út bókina má lesa í og skynja sáran söknuð höfundarins eftir heimalandinu; fjölskyldunni og heimilinu, fögru sólargeislunum og besta sælgæti í heimi – bláu ískrapi – sem mun víst vera umtalsvert betra en í Bandaríkjunum. Færa má rök fyrir að bókin endurspegli nokkuð vel hvernig Vesturlöndin gera gjarnan kröfur til flóttamanna um að aðlagast sinni menningu, frekar en að efla fjölmenningu og fagna fjölbreytileikanum. Líkt og Nayeri segir í bók sinni eru mörg, líkt og amma hennar, sem vilja laga sig alveg að samfélagi þess lands sem þau flýja til – þau vilja ekki vera skilgreind sem flóttafólk. En samtímis eru menning og samfélagslegt uppeldi órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd okkar, sem hverfur ekki, og það er ekki okkar að láta flóttafólk lúta okkar menningu skilyrðislaust, frekar en okkur að þeirra.

Þegar allt kemur til alls er Vanþakkláti flóttamaðurinn gífurlega sterk bók, og algjör skyldulestur fyrir þau sem vilja fræðast betur um stöðu og málefni flóttamanna. Bókin er í lengri kantinum og textinn þéttur og því ef til vill gott að gefa sér tíma í hana og melta vel svo skilaboðin sitji almennilega eftir hjá lesanda. Það sem væri kannski helst hægt að setja út á er að bókin getur orðið dálítið samhengislaus á köflum, sérstaklega þegar flakkað er úr einni örsögu í aðra, og síðan aftur í meginfrásagnarefnið. Þetta verður til þess að lesandinn getur ruglast í ríminu en setur þó ekki svip sinn á heildarverkið. Lestur þess er að mati undirritaðrar hollur og gæti vel átt erindi í skólakennslu fyrir ungt fólk svo hægt sé að vekja athygli á raunum og stöðu flóttafólks.

Dina Nayeri verður gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík í apríl næstkomandi.