Haffari Líkanið af konungsskipinu sem fórst 9. mars 1685. Um 800 vinnustundir liggja á bak við smíðina.
Haffari Líkanið af konungsskipinu sem fórst 9. mars 1685. Um 800 vinnustundir liggja á bak við smíðina. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í miklu óveðri sem gekk yfir sunnanvert landið á góuþræl, 9. mars árið 1685, hurfu mörg skip og áhafnir þeirra í hafið. Njörður S. Jóhannsson, þúsundþjalasmiður á Siglufirði, hefur nýlokið við að smíða nákvæmt líkan af einu þeirra

Sviðsljós

Sigurður Ægisson

sae@sae.is

Í miklu óveðri sem gekk yfir sunnanvert landið á góuþræl, 9. mars árið 1685, hurfu mörg skip og áhafnir þeirra í hafið. Njörður S. Jóhannsson, þúsundþjalasmiður á Siglufirði, hefur nýlokið við að smíða nákvæmt líkan af einu þeirra. Um er að ræða konungsskip sem bar nafnið Haffari. Það var einmöstrungur með þversegl, gerður út á þorsk.

Kveikjan að þessu nýjasta listaverki Njarðar, sem er unnið úr hægvaxta greni, var trilla, sem móðurafi hans, Jón Kristjánsson frá Lambanesi í Fljótum, smíðaði úr furu og eik árið 1954 og fékk heitið Rafn SI 109. Þetta var frambyggður, opinn súðbyrðingur, og með nafngiftinni vildi Jón heiðra minningu Rafns Helgasonar á Mói í Fljótum, sem var kunnur formaður á hákarlaskipum á 17. öld, en nokkurs konar goðsögn á sínum tíma, en hann fórst einmitt við Stafnes ásamt mörgum öðrum framangreindan dag. Hann var fæddur um 1657.

Goðsögn í Fljótum

„Þegar ég var ungur man ég að afi sagði mér frá því hvers vegna hann hefði látið trilluna heita þetta, og það vakti áhuga minn á að kanna betur sögu þessa manns,“ segir Njörður. „Það leiddi mig til Akraness, til Jónmundar Guðmundssonar, sem þá var bóndi á Laugalandi, og hann sagði hann mér eftir föður sínum, sem hafði búið í Langhúsum í Fljótum, að það hefði verið maður þar í sveit, Finnbogi Jónsson á Steinhóli, meðhjálpari í Barðskirkju, sem eftir messu þar 1845, eftir áramót, hefði verið að ráða menn á skip sitt, sem var stór áttæringur, og að hann hefði verið búinn að setja á skipið bænaborð, bæði að framan og aftan, eins og Rafn Helgason hefði gert á sínum tíma, þegar hann fór suður. Ég bað hann að lýsa þessu fyrir mig, hvurninn þessi bænaborð voru sett á og hvers vegna, og þá kemur í ljós, að frásögn hans var nákvæmlega eins og Jóns afa míns, sem var búinn að segja mér frá þessu. Rafn hefði farið við þriðja mann viku fyrr en vanalega suður á vertíð þetta umrædda ár, og þeir vildu vera fljótir í ferðum og fóru undir því yfirskini að þeir ætluðu að hvíla sig vel áður en róðrar hæfust. Þeir fóru með svokallaða trénagla með sér, fjörutíu talsins, og þegar þeir komu suður útvegar Rafn sér borð, og með aðstoð þessara ungu manna sem fóru með honum lætur hann á skipið þessi bænaborð svokölluðu, bæði að framan og aftan. Áður en hann gerir það þá hitar hann borðin að aftanverðu við eld, þannig að þau svitna, sem kallað er. Þetta voru bein borð, 9 tommu breið að aftan og 8 tommu breið að framan. Og svo voru þau negld, fyrst með trénöglum að augabandinu og þaðan með sérstökum hálsasaum. Ákveðnum reglum þurfti að fylgja í því sambandi. Þessir trénaglar voru kallaði blindingjar og gætu hafa verið hollenskir að uppruna; voru með kúlulaga haus, en annars sléttir þegar kom upp að byrðingnum.“

Talan þrettán forboðin

Að sögn Njarðar var sú trú við lýði, og eimir eftir af enn á mörgum sviðum, að aldrei mætti byggja skip með þrettán umförum. Haffari hefði verið tólf umför, en svo hafi þessi bænaborð að auki verið sett á skipið. Þetta hafi ekki verið þekkt víða, og ekkert sé um þau að finna í Íslenzkum sjávarháttum Lúðvíks Kristjánssonar. Ekki vissi Njörður hvers vegna þau voru kölluð þetta, en ljóst að þau hafi hlíft skipinu í miklu ölduróti og vera mætti, að trénaglarnir hafi átt sér einhverja skírskotun til sögu krossins á Golgata, og að þetta hafi verið hugsað sem bæn til almættisins um fyrirgefningu við að brjóta allt að því hefðina með slíkri upphækkun, að óheillatölunni.

Ýmislegt annað hafi verið sérstakt við Haffara, sem ekki fannst að jafnaði í öðrum skipum þess tíma, segir Njörður, m.a. 48 kálfar svonefndir, sem voru negldir á grindarböndin, lágu að skör en voru yfirleitt tommu lægri heldur en hæðin á grindarböndunum sjálfum. Margt hafi því verið forvitnilegt við þetta gamla konungsskip. Aldrei áður hefur Njörður smíðað líkan með bænaborðum og er hann þó búinn að gera á þriðja tug módela í líkingu við þetta. Hann kveðst þó vita um tvö skip, sem byggð voru á Siglunesi árið 1830, en þau voru með bænaborðum að aftan en svo með rúffi, hvalbak, að framan.

„Í sumum norðlensku hákarlaskipunum voru stafir í hólfunum, sem kölluð voru lifrarkassar, til þess að koma kjölfestunni nógu neðarlega. Þetta gerði skipið stöðugra, eftir því sem lifrin og þar með þyngdarpunkturinn komst neðar. Þetta var eitt af því, sem ekki var alls staðar fyrrum, en var í Haffara, og ekki er óeðlilegt að þetta skyldi berast upp hingað til lands og héldi áfram.“

Notaðist við gamlar þulur

„Þegar ég smíðaði líkanið af Haffara notaðist ég við gamlar þulur, sennilega ættaðar frá Sveini Jónssyni, presti á Barði í Fljótum frá 1648 til 1687, eða Jóni Sveinssyni, syni hans, sem var prestur þar frá 1687 til 1725. Þær eru um áttæring. Jónmundur kannaðist við nokkrar þeirra og þeim bar nákvæmlega saman við það sem ég hafði lært,“ segir Njörður.

„Það sem ég veit um sögu Haffara er, að þetta var skip sem Rafn Helgason hafði verið formaður á í nokkur ár. Og annar maður fór alltaf með honum, Magnús Tómasson, hann var frá Ytri-Ey á Skagaströnd. Hann var formaður líka á konungsskipi og það var mikill kunningsskapur með þeim þó að Magnús væri eldri. Ólafur Þorsteinsson hét svo sá sem fór fyrir norðanmönnum og var frá Hólum í Hjaltadal, hann var vinnumaður þar og stjórnaði niðurröðuninni, kom mönnunum fyrir á skipunum, sem voru með þessu að borga leigugjöld af jörðum fyrir norðan sem Hólastóll átti, bæði í Skagafirði og Húnavatnssýslum; Ólafi var falin umsjón með þessu.“

Fjörutíu lík rak upp við Stafnes í ofsaveðrinu. Þau voru tekin og lögð í sjóklæðum í eina, stóra gröf við Hvalsneskirkju.

„Ég veit ekki nákvæmlega hver byggði þetta skip, maður kemst ekki lengra en að vísa í þulurnar. Ég er búinn að láta skoða konungsskip í Danmörku og lýsingin á þeim passar við það sem ég kemst næst að hér hafi verið.“

Ef eitthvert safn suður með sjó hefur áhuga á að skoða þetta nýjasta líkan Njarðar, þá er hann tilbúinn að fara með það suður. Og reynist áhugi fyrir að varðveita það á viðeigandi stað, er það falt fyrir eina krónu.

Höf.: Sigurður Ægisson