Barátta Grindvíkingurinn Elma Dautovic sækir að Blikum í Smáranum í Kópavogi í gærkvöldi en hún skoraði 20 stig, ásamt því að taka 14 fráköst.
Barátta Grindvíkingurinn Elma Dautovic sækir að Blikum í Smáranum í Kópavogi í gærkvöldi en hún skoraði 20 stig, ásamt því að taka 14 fráköst. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hekla Eik Nökkvadóttir var stigahæst hjá Grindavík þegar liðið heimsótti Breiðablik í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Smárann í Kópavogi í 24. umferð deildarinnar í gær. Leiknum lauk með stórsigri Grindavíkur, 109:75, en…

Hekla Eik Nökkvadóttir var stigahæst hjá Grindavík þegar liðið heimsótti Breiðablik í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Smárann í Kópavogi í 24. umferð deildarinnar í gær.

Leiknum lauk með stórsigri Grindavíkur, 109:75, en Hekla Eik skoraði 21 stig, tók fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta þar sem Grindavík leiddi með sex stigum að honum loknum, 29:23. Blikar skoruðu einungis 9 stig í öðrum leikhluta gegn 22 stigum Grindavíkur og Grindavík leiddi 51:32 í hálfleik.

Grindvíkingar héldu áfram að auka forskot sitt í þriðja leikhluta og var staðan 77:49, Grindavík í vil, að honum loknum. Blikar voru aldrei líklegir til þess að ógna forskoti Grindavíkur í fjórða leikhluta og Grindvíkingar fögnuðu öruggum sigri.

Elma Dautovic og Hulda Björk Ólafsdóttir skoruðu 20 stig hvor fyrir Grindavík og þá tók Dautovic 14 fráköst. Anna Soffía Lárusdóttir var stigahæst hjá Breiðabliki með 23 stig, átta fráköst og tvær stoðsendingar.

Collier stigahæst í Njarðvík

Aliyah Collier var stigahæst hjá Njarðvík þegar liðið tók á móti Fjölni í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

Leiknum lauk með sjö stiga sigri Njarðvíkur, 80:73, en Collier skoraði 20 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Njarðvíkingar voru sterkara liðið í fyrri hálfleik og leiddu með sjö stigum í hálfleik, 45:38. Njarðvík leiddi með átta stigum eftir þriðja leikhluta og Fjölni tókst ekki að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta.

Lavina Gomes skoraði 18 stig fyrir Njarðvík og tók níu fráköst en Brittany Dinkins var stigahæst hjá Fjölni með 24 stig, 12 fráköst og sjö stoðsendingar.

Þá var Ásta Júlía Grimsdóttir stigahæst hjá Val þegar liðið vann stórsigur gegn ÍR í Skógarseli í Breiðholti, 94:53, en Ásta Júlía skoraði 22 stig, tók ellefu fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Kiana Johnson skoraði 15 stig fyrir Val, tók tvö fráköst og gaf sjö stoðsendingar en Greeta Uprus og Aníka Lind Hjálmarsdóttir voru stigahæstar hjá ÍR með tíu stig hvor.