Í Leifsstöð Sverrir Guðnason, Simon Manyonda, Timothy Spall í hjólastólnum, Lydia Leonard og Ella Rumpf.
Í Leifsstöð Sverrir Guðnason, Simon Manyonda, Timothy Spall í hjólastólnum, Lydia Leonard og Ella Rumpf.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta er frábær hátíð og hefur sérstaklega mikla þýðingu í Ameríku. Hátíðin hentar þessari mynd mjög vel sem tekur sig ekki of alvarlega en er samt listrænt metnaðarfull,“ segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri.

Viðtal

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er frábær hátíð og hefur sérstaklega mikla þýðingu í Ameríku. Hátíðin hentar þessari mynd mjög vel sem tekur sig ekki of alvarlega en er samt listrænt metnaðarfull,“ segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson kvikmyndaleikstjóri.

Nýjasta mynd Hafsteins, Northern Comfort, verður frumsýnd á South by Southwest hátíðinni í Austin í Texas á sunnudaginn kemur. South by Southwest er risavaxin og mikilsvirt listahátíð fyrir kvikmyndir, tónlist og uppistand og hefur verið haldin árlega frá árinu 1987.

Upptökur við Mývatn

Northern Comfort er lýst sem svartri kómedíu en myndin fjallar um skrautlegan hóp fólks á flughræðslunámskeiði í London þar sem ferðinni er heitið til Íslands. Hafsteinn skrifaði handritið ásamt þeim Dóra DNA og Tóbíasi Munthe og í aðalhluverkum eru Timothy Spall, einn þekktasti kvikmyndaleikari Breta, Sverrir Guðnason, breska leikkonan Lydia Leonard, Ella Rumpf, Simon Manyonda, Rob Delaney og Björn Hlynur Haraldsson. Þá bregður nokkrum íslenskum leikurum fyrir í smærri hlutverkum, svo sem Helgu Brögu Jónsdóttur. Íslenska framleiðslufyrirtækið Netop Films framleiðir myndina í samvinnu við One Two Films í Þýskalandi og Good Chaos í Bretlandi og fóru upptökur að langstærstum hluta fram hér á landi, við Mývatn, í myndveri í Reykjavík og í Leifsstöð. Myndin var einnig tekin í London og í Frakklandi.

Margir óvæntir snúningar

Hafsteinn segir í samtali við Morgunblaðið að vinnan við myndina hafi reynst skemmtileg og hann telur að það skili sér sterkt í efninu. „Ég hugsa að hvað sem fólki mun finnast þá verði þetta mjög skemmtilegar 90 mínútur. Það er hraður taktur í myndinni og þetta er hressandi ferðalag með óvæntum snúningum.“

Hafsteinn segir að hann hafi ekki velt því fyrir sér hvort Northern Comfort sé íslensk mynd eða útlensk. Hún sé sjálfsagt blanda af hvoru tveggja, skrifuð af tveimur Íslendingum og einum Breta með íslenskan aðalframleiðanda. „En vissulega gerist hún í mjög alþjóðlegu samhengi. Auðvitað koma karakterarnir héðan og þaðan en þeir eru að meirihluta breskir. Sagan gerist í heimi sem er ákveðin staðleysa, heimur ferðalaga og hótela. Þetta er heimur sem við öll þekkjum og liggur á milli þjóðerna. Myndin fjallar ekki um það að vera Íslendingur, Breti eða Svíi.“

Stutt í hugsunina um endalokin hjá mörgum

Leikstjórinn segir jafnframt að Northern Comfort sé tilvistarleg mynd að einhverju leyti. Vísar hann þar til umfjöllunarefnisins flughræðslu. „Flughræðslan er eins konar myndlíking fyrir óttann við dauðann. Mér þótti það áhugavert að nota hana sem farartæki til að spegla þessi stóru sammannlegu þemu, lífið og dauðann,“ segir hann og bætir við að flestir eigi það sennilega sameiginlegt að velta endalokunum fyrir sér þegar sest er upp í flugvél. Þar með setur fólk örlög sín í hendurnar á öðrum. „Ég hugsa að það sé oft stutt í þessa hugsun um endalokin þegar fólk fer í frí.“

Þrír leikarar mæta til Texas

Northern Comfort verður sem fyrr segir heimsfrumsýnd á South by Southwest um helgina. Hafsteinn verður viðstaddur frumsýninguna ásamt framleiðendum hennar og þremur af aðalleikurunum. „Tim er því miður upptekinn og kemst ekki því hann er í tökum. Það er brjálað að gera hjá honum,“ segir Hafsteinn þegar hann er spurður hvort Timothy Spall verði einn þeirra. Sá er óneitanlega stærsta nafnið á kreditlistanum enda á hann að baki leik í Harry Potter-myndunum, hlutverk málarans JMW Turner í Mr. Turner auk hlutverka í nokkrum kvikmynda Mike Leigh, til að mynda Secrets & Lies, svo dæmi séu tekin.

Stund sannleikans bíður

Hafsteinn kveðst renna nokkuð blint í sjóinn með þessa mynd. Erfitt geti verið að finna réttu blönduna af listrænni mynd og mynd sem njóti vinsælda. „Maður veit aldrei hvað maður hefur í höndunum fyrr en maður upplifir myndina með fólk í kringum sig. Fram undan er því stund sannleikans, þarna sjáum við kannski hvaða líf þessi mynd fær… eða dauða.“

Búið er að selja myndina víða að sögn Hafsteins og fram undan eru eflaust heimsóknir á fleiri kvikmyndahátíðir. Við Íslendingar fáum svo að sjá afraksturinn þegar Northern Comfort verður frumsýnd hér á landi í haust.

Nýir þættir um páskana

Þegar rætt var við Hafstein var hann í óða önn að klippa nýja sjónvarpsþáttaröð sem hann gerir einnig í samstarfi við Dóra DNA. Sú kallast Afturelding og verður fyrsti þátturinn sýndur á RÚV um páskana. Hann segir að ekki liggi fyrir hvað taki við þegar þessum tveimur verkefnum sleppir. „Það er búið að vera brjálað að gera síðasta eitt og hálfa árið og rúmlega það. Því hefur lítill tími gefist til að þróa framtíðarverkefni þó alltaf séu einhverjar hugmyndir á sveimi. Ég finn núna fyrir mikilli löngun til að setjast niður og fara að huga að nýjum verkefnum. Á næstunni verð ég eitthvað á ferðalögum út af myndinni og þá gefst nú stundum ráðrúm til slíks, í ókunnugri borg og fjarri barnauppeldi og slíku.“

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon