Umönnun Sölvi Rúnar sinnti smyrlinum af alúð eins og sjá má en smyrillinn drapst þó fljótlega eftir meðferðina sem hann fékk hjá mítlunum.
Umönnun Sölvi Rúnar sinnti smyrlinum af alúð eins og sjá má en smyrillinn drapst þó fljótlega eftir meðferðina sem hann fékk hjá mítlunum. — Ljósmynd/Þekkingarsetur Suðurnesja
Mítlategund sem er lítt þekkt hér á landi nema meðal sérfræðinga, Ornithonyssus sylviarum, fannst nýlega í fugli í Sandgerði. Dýrafræðingurinn Karl Skírnisson greindi tegundina á Tilraunastöðinni að Keldum

Mítlategund sem er lítt þekkt hér á landi nema meðal sérfræðinga, Ornithonyssus sylviarum, fannst nýlega í fugli í Sandgerði. Dýrafræðingurinn Karl Skírnisson greindi tegundina á Tilraunastöðinni að Keldum. Sníkjudýrið sem um ræðir er blóðsuga og lifir bæði í villtum fuglum og búrafuglum. Mítillinn er þekktur skaðvaldur í hænsnabúum víða um heim, til að mynda í Bandaríkjunum.

Karl tjáði Morgunblaðinu að þar af leiðandi vilji menn alls ekki sjá mítilinn hérlendis en ómögulegt sé að segja á þessum tímapunkti hvort hann sé að finna í fleiri fuglum hér á landi. Spurður um hvort mannfólkið þurfi að hafa áhyggjur af mítlinum segir Karl svo ekki vera. Komist mítillinn í aðstöðu til þess að sjúga blóð úr fólki gæti hann mögulega látið á það reyna en lifir ekki á því.

Mítillinn fannst ekki í farfuglategund heldur í smyrli sem er jú staðfugl. Sölvi Rúnar Vignisson, fuglafræðingur og doktorsnemi, fékk smyrilinn í hendurnar í Þekkingarsetrinu í Sandgerði.

„Starfsmaður Skinnfisks fann smyrilinn sem var slappur en ég sá ekkert áberandi að honum. Mér þóttu einkennin dæmigerð fyrir fugla sem eru langt komnir í fuglaflensu en þegar ég fór með hann inn þá komu mítlarnir í ljós. Þeir ruku af fuglinum og yfir á hendurnar á mér. Ég vissi strax að þetta var mjög óeðlilegt. Þá hafði ég samband við Karl Skírnisson, okkar helsta sérfræðing í sníkjudýrum í dýrum, og hann greindi tegundina. Fyrir þá sem þekkja lítið til myndi ég líkja þessu við veggjalúsina okkar en segja má að þetta séu nánir ættingjar. Mítlarnir lifa reyndar á fuglinum alla sína tíð og ná að fjölga sér á fuglunum sem skýrir þann mikla fjölda sem var á smyrlinum. Þetta er þekkt vandamál í alifuglarækt erlendis en hefur blessunarlega ekki verið hér. Að mítlarnir finnist í villtum fugli gerir þetta að sérstöku tilviki,“ segir Sölvi í samtali við Morgunblaðið.

Þeir sem handfjatla fugla eru beðnir um að safna blóðmítlum sem kunna að finnast og koma í greiningu. kris@mbl.is