Snorri Einarsson er hættur keppni á alþjóðlegum vettvangi eftir að hafa hafnað í 15. sæti í 50 kílómetra skíðagöngu á heimsmeistaramótinu í norrænum alpagreinum sem lauk í Planica í Slóveníu likt og kom fram í Morgunblaðinu í gær

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Snorri Einarsson er hættur keppni á alþjóðlegum vettvangi eftir að hafa hafnað í 15. sæti í 50 kílómetra skíðagöngu á heimsmeistaramótinu í norrænum alpagreinum sem lauk í Planica í Slóveníu likt og kom fram í Morgunblaðinu í gær.

Snorri undirbjó sig fyrir mótið heima á Ísafirði, mestmegnis í bílskúrnum heima hjá sér, og því er árangur hans sérstaklega eftirtektarverður enda skíðaganga mjög stór íþrótt á alþjóðlegan mælikvarða.

Snorri kom til mín í Dagmál í mars árið 2021 og höfum við verið góðir félagar síðan. Hann er ekki bara frábær íþróttamaður heldur einstaklega skemmtileg manneskja. Hann er hreinn og beinn og segir hlutina eins og þeir eru, skiptir þá engu máli hvort hann sé í fjölmiðlaviðtali eða maður sé að tala við hann um daginn og veginn.

Hann hefur lifað á 200.000 krónum á mánuði síðastliðin ár sem er náttúrlega hneyksli. Svo virðist sem hlutirnir hafi lítið breyst hjá íslensku afreksíþróttafólki, sérstaklega í einstaklingsíþróttum, undanfarna áratugi.

Íslensk stjórnvöld eru alla jafna gagnrýnd harðlega þegar umgjörð og umhverfi íþróttafólks er til umræðu. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvert hlutverk ÍSÍ er nákvæmlega, ef ekki að berjast fyrir betri kjörum afreksíþróttafólks hér á landi.

Einhvern tímann sagði mér einn hjá ÍSÍ að barátta sambandsins færi fram fyrir luktum dyrum. Spurning hvort baráttan megi ekki fara fram fyrir opnum dyrum, því hún virðist litlu sem engu skila, þrátt fyrir að sautján manns starfi ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi hjá sambandinu samkvæmt heimasíðu ÍSÍ.