Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Vænst er að endurbótum á Skálholtsdómkirkju ljúki endanlega þegar líða tekur á aprílmánuð. Í ársbyrjun var kirkjuskipið sjálft rýmt, allt laust þar tekið út og sett í geymslu. Veggir voru sparslaðir og málaðir og að hluta til í nýjum litum, lagnakerfi og ofnar endurnýjuð, lýsing endurhönnuð, nýr rafbúnaður settur upp og svo mætti áfram telja. Verktakarnir Múr og mál eru í aðalhlutverki í verkefni þessu, sem kemur í framhaldi af endurbótum á ytra byrði kirkjunnar í fyrra sem þeir höfðu einnig með höndum. „Að taka kirkjuna í gegn að innan er mikilvæg framkvæmd sem lengi hefur verið á dagskrá. Upphaflega stóð til að ljúka verkinu fyrir páska sem sennilega tefst þó um nokkrar vikur,“ segir sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti.
Á síðustu árum hefur kirkjunni verið gert til góða í mörgu, svo sem með viðgerðum á steindum gluggum. Spilverki og brotinni kirkjuklukku í turni var á síðasta ári skipt út fyrir ný. Á sama stað er einnig mikið safn gamalla bóka og miðaldaprents, sem nú stendur til að koma fyrir á aðgengilegri stað. Vegna endurbótanna nú hefur allt helgihald og annað starf í kirkjunni legið niðri að undanförnu. Það hefur þó ekki komið að sök og í önnur hús er að vernda, segir Kristján Björnsson. Hann bendir á að í Skálholtsprestakalli séu ellefu aðrar kirkjur. Útfarir og aðrar athafnir, sem fyrir fram er búist við að fjölmenni sæki, og hefðu að öðru jöfnu verið í Skálholti, hafa að undanförnu verið á Selfossi.
„Þegar endurbótunum lýkur verður að sjálfsögðu hátíð. Efnt verður til messu lita og ljóss,“ segir vígslubiskup. Hann minnir á að á þessu ári verði liðin 60 ár frá vígslu kirkjunnar í Skálholti. Verður þeirra tímamóta minnst með ýmsu móti á næstunni, meðal annars á Skálholtshátíð sem verður 23. júlí nk.