Sigurður Helgi Helgason
Sigurður Helgi Helgason
Fjögur tilboð bárust þegar Sjúkratryggingar óskuðu eftir tilboðum frá heilbrigðisfyrirtækjum á einkamarkaði sem framkvæma liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám. Hafa stjórnvöld sett sér það markmið að gerðar verði sjö hundruð liðskiptaaðgerðir á…

Ellen Geirsdóttir Håkansson

ellen@mbl.is

Fjögur tilboð bárust þegar Sjúkratryggingar óskuðu eftir tilboðum frá heilbrigðisfyrirtækjum á einkamarkaði sem framkvæma liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám.

Hafa stjórnvöld sett sér það markmið að gerðar verði sjö hundruð liðskiptaaðgerðir á þessu ári en átján hundruð manns eru á biðlista eftir slíkum aðgerðum.

Fjármagnið sem hefur verið tryggt í verkefnið er um það bil einn milljarður íslenskra króna.

Tilboð bárust frá fjórum fyrirtækjum, þremur íslenskum og einu sænsku en auglýsing Sjúkratrygginga gerði ráð fyrir því að allar aðgerðirnar yrðu framkvæmdar hér á landi.

Kostnaðaráætlun Sjúkratrygginga gerir ráð fyrir að greiddar verði 1.362.349 krónur fyrir liðskiptaaðgerð á mjöðm og 1.141.148 krónur fyrir liðskiptaaðgerð á hné. Öll tilboðin sem bárust Sjúkratryggingum voru undir kostnaðaráætlun vegna liðskiptaaðgerða á mjöðm en aðeins tvö tilboð voru undir áætluninni varðandi aðgerðir á hnjám.

Kostnaður Landspítala hærri

Samkvæmt reglugerð 801/2022 fær Landspítalinn greiddar 1.985.694 krónur fyrir liðskiptaaðgerð á mjöðm og 2.024.481 krónu fyrir liðskiptaaðgerð á hné. Sigurður Helgi Helgason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, sagði spurður um þetta að kostnaður spítalans myndist út frá kostnaðarstigi innan spítalans.

„Það er þá alveg eins hægt að spyrja spítalann að því hvers vegna kostnaðurinn sé hærri en einhverjir aðilar utan spítalans treysta sér til að bjóða. [...] Það er viðurkennt að kostnaðarstig bráðasjúkrahúsa vegna aðgerða af þessu tagi verður væntanlega alltaf eitthvað hærra en kostnaðarstig aðila sem eru sérhæfðir í einstökum aðgerðum og geta skipulagt þær með markvissari og betri hætti heldur en kannski hægt er á bráðasjúkrahúsi,“ segir Sigurður.

Möguleiki á fleiri aðgerðum með auknu fjármagni

Þegar því er velt upp hvort fjöldi tilboða geri það að verkum að hægt verði að hækka aðgerðamarkmið fyrir árið segir Sigurður markmiðið tengjast fjármagni fremur en afkastagetu.

„Það er alveg mögulegt, ef afkastageta reynist vera meiri en sjö hundruð og ef það fæst aukið fjármagn, að það yrði hægt að gera fleiri aðgerðir,“ segir Sigurður. Þá þyrfti að ráðstafa frekara fjármagni sem yrði afgangs úr öðrum verkefnum. Óvíst sé hvort sú staða komi upp.

Gert er ráð fyrir að samið verði við tvö fyrirtæki og mun það skýrast á næstu dögum hvaða tilboðum verði tekið reynist þau uppfylla skilyrði útboðsins.

Sigurður segir það vera matsatriði hvort samið verði við fyrirtæki sem hafi sent inn tilboð sem sé yfir kostnaðaráætlun stofnunarinnar. Sjúkratryggingar hafi heimild til þess að hafna tilboðum sem séu yfir kostnaðaráætlun en þeim beri ekki skylda til þess.

Höf.: Ellen Geirsdóttir Håkansson