Bjarni Friðrik Bjarnason fæddist 8. janúar 1954, að Laugarnesi í Reykjavík. Hann lést á 11EG, blóð- og krabbameinslækningadeild, þann 24. febrúar 2023.

Foreldrar Bjarna voru Bjarni Þorsteinsson, húsasmíðameistari frá Siglufirði, f. 28.9. 1920, d. 17.6. 1992 og Olga Axelsdóttir, húsmóðir frá Reykjavík, f. 2.4. 1923, d. 12.2. 2013.

Bjarni var næstyngstur fjögurra systkina. 1) Agnes Bjarnadóttir, f. 17.5. 1943, d. 30.4. 2008, gift Erik Rasmussen f. 26.3. 1939, d. 6.9. 2003. Synir þeirra eru Andreas og Olaf. 2) Halldór Bjarnason, f. 17.4. 1947, giftur Guðbjörgu Þorsteinsdóttur, f. 1.9. 1954, sonur þeirra er Snorri. 3) Ágúst Bjarnason, f. 11.7. 1957, d. 24.2. 2022, eftirlifandi eiginkona hans er Auður Ottadóttir, f. 8.4. 1958, synir þeirra eru Otti, Bjarni og Aron.

Bjarni fæddist að Laugarnesi og flutti síðan ungur að árum í Hlíðahverfið, fyrst í Mávahlíð og síðar í Bogahlíð þar sem hann bjó alla sína barnæsku. Hann gekk í Hlíðaskóla og eftir grunnskólagöngu hóf hann nám við Iðnskólann í Reykjavik að læra húsasmíði. Hann kláraði þó ekki námið þar sem sjómennskan kallaði á hann. Hann vann á nokkrum skipum um árabil og var lengst af á skipinu Svani, þar sem loðnuvertíðar voru sóttar hver á fætur annarri. Þegar sjómennskunni lauk starfaði hann við hlið föður síns við smíðar, lagfæringar og viðhaldsvinnu. Eftir að faðir hans féll frá hélt Bjarni áfram að vinna við sömu verkefni og þeir höfðu sinnt og það var hans starfsvettvangur þar til hann varð að leggja niður störf sökum veikinda. Árið 1975 kynntist Bjarni þáverandi sambýliskonu sinni, Sigríði Einarsdóttur, f. 10.5. 1950. Þau bjuggu lengst af í Árbænum, þar til þau slitu samvistum árið 1985. Dóttir þeirra er Olga Birgitta Bjarnadóttir, f. 16.1. 1976, gift Kjartani Viðari Jónssyni, f. 7.9. 1974. Börn þeirra eru 1) Hákon Daði Kjartansson, f. 30.12. 2000, 2) Birgitta Birta Kjartansdóttir, f. 21.5. 2005, 3) Harpa Karítas Kjartansdóttir, f. 7.6. 2009.

Útför Bjarna fer fram í Árbæjarkirkju í dag, 9. mars 2023, klukkan 13.

Elsku pabbi minn, ferðalagið í sumarlandið er hafið, kallið kom of snemma, aðeins 69 ára.

Þú valdir fallegan dag, sama dag og yngri bróðir þinn heitinn valdi fyrir ári. Átakanlegt hvað þú lagðir á þig til að ná þessum degi, þvílík þrautseigja.

Sorgin nístir, á sama tíma ylja minningarnar. Okkar besti staður eftir að þið mamma skilduð var Bogahlíðin hjá ömmu og afa. Hjá þeim var okkar beggja griðastaður og þar leið okkur vel. Ég er svo þakklát að hafa fengið bestu ömmuna og ævinlega þakklát hvað þú varst örlátur á tíma þinn og leyfðir mér að verja minni barnæsku hjá þeim.

Þú varst með skemmtilegan húmor og gerðir ekki mikið úr hlutunum. Gildin þín voru ávallt vinnan göfgar manninn og vannst þú alltof mikið og gafst þér lítinn slaka.

Styrkleikar þínir, lítillæti, góðvild, heiðarleiki, hjálpsemi, dugnaður og ofurminni, birtust oft. Dugnaður því þú vildir klára allt strax, oft bráðlátur og keyrðir hlutina í gegn af miklum eldmóð og hjálpsemi þín var einstök.

Þú þekktir alla, hvar sem við vorum þá var einhver sem þú heilsaðir. Á 11EG þekktir þú marga sjúklinga og ættingja og fólki var mjög hlýtt til þín, því þú komst fram við alla eins. Valur var þinn heimavöllur og áttir þú samleið með mörgum enda sannur vinur vina þinna. Tónlistin var í gangi hvar sem þú varst, í skúrnum, heima og í bílnum.

Ég syrgi þær stundir sem við hefðum getað átt saman en er á sama tíma þakklát fyrir þessi auka 10 ár sem við bjuggumst ekki við. Í janúar 2014 fékkst þú 60 ára afmælisgjöf sem reyndist vera krabbamein, þá hófst þín barátta. Þú vannst fyrstu baráttu af þrem, þvílíkur harðjaxl og seiglan þín skein í gegnum þá meðferð.

September 2022 kom meinið enn á ný og var illvígt og réðst á þig frá mörgum áttum. Þú barðist en nú var við ofurefli að etja, enda kroppurinn og sálin þreytt eftir fyrri baráttu. Þrátt fyrir viljastyrk, von, jákvæðni og hörku sem einkenndi þig, náðir þú ekki að klífa þennan tind sem var allra erfiðasti hingað til. Þú gerðir þitt besta og lífsvilji þinn var einstakur í þessari baráttu en þú tókst þá hugrökku ákvörðun þar sem lífsgæðin væru engin að þú ætlaðir í nýtt ferðalag til ömmu og afa í sumarlandið.

Við erum þakklát þér að hafa fengið að hlúa að þér, leyfa þér að finna hvað þú skiptir miklu máli og hvað við vorum stolt af þér. Mikið vildum við eitt lítið kraftaverk, þar sem þú barðist með von og kærleikann að vopni en allt kom fyrir ekki.

Fátt er dýrmætara en samverustundir, knúsin, þitt trausta handartak og samtölin sem við geymum í hjörtum okkar og fyllumst þakklæti yfir.

Okkar ferðalagi saman er lokið að sinni, elsku pabbi. Tíminn er dýrmætasta gjöfin sem við gáfum hvort öðru á lokasprettinum og ég myndi gera þetta allt aftur með þér, það veistu. Þú barðist í 38 daga á 11EG, við vorum oft hrædd, grétum saman en héldum í vonina og áttum fallegan tíma sem gleymist aldrei.

Fallegar minningar náðum við að skapa og ég stóla á að við verðum í léttu sambandi líkt og þú endaðir þín samtöl.

Elsku pabbi, þín verður alltaf saknað, aldrei gleymdur

Þín dóttir,

Olga.

Nú er komin tími til að kveðja Bjarna Friðrik tengdaföður minn

Bjarni var rólegur maður að eðlisfari, ekki málglaður í fjölmenni, var meira fyrir að hlusta og gerði ekki greinamun á fólki, hvert það var eða hvaðan það kom. Bjarni var með hæfileika sem hefur farið fram hjá mér til þessa, það var minni hans, hann var sá eini sem að ég þekkti sem var ekki með tengiliði skráða í símanum sínum, hann þurfti það ekki því hann mundi öll símanúmer, sannkallaður límheili þessi maður.

Á síðustu mánuðum sem ég og fjölskylda mín áttum í lífi Bjarna fékk ég að kynnast innri manni Bjarna, það er húmorinn sem hann hafði og velvildina sem stóð öllum til boða sem sóttu til hans.

Ávallt verð ég Bjarna þakklátur fyrir þegar hann leiddi dóttur sína upp að altari á mesta hraða sem sést hefur og hafði presturinn orð á því að ekki hefði þessi ganga upp að altari sést áður á þessum hraða hjá sér, enda ef það væri ekki fyrir tilvist Bjarna hefði mér ekki hlotnast sá heiður að kynnast dóttur hans.

Á meðan Bjarni lá á spítala fékk ég að kynnast góðum og hjartahlýjum manni sem þótti óendanlega vænt um dóttur sína og barnabörn, væntumþykju sína sýndi hann bæði með orðum og faðmlögum og lét sína nánustu vita að ekkert væri að hræðast og bað dóttur sína að gráta minna og vera hjá sér, sem hún gerði.

Hann sýndi gríðarlegan styrk og jafnaðargeð á ótrúlega erfiðum tímum í sínum veikindum. Bjarni hugsaði vel um sitt fólk og ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart þegar ég var sendur í Bakarameistarann Suðurveri til að kaupa slatta af kökum handa stelpunum á deildinni þar sem það væri nú konudagurinn, þar sló hann mig út.

Það sem ég tek með mér eftir kynni mín við Bjarna á hans seinustu mánuðum er að Bjarni þurfti ekki orð í okkar samskiptum, þegar ég tók í hönd hans og kvaddi hann á kvöldin þá setti hann alltaf hina höndina á hönd mína og klappaði, sagði ekkert enda orð óþörf – handtakið sagði allt sem segja þurfti.

Takk fyrir allt Bjarni og takk fyrir að treysta mér fyrir dóttur þinni.

Þinn tengdasonur

Kjartan.

Elsku afi okkar.

Okkur barnabörnunum þykir ótrúlega sárt að þú sért farinn frá okkur og erum við þakklát fyrir að hafa þig sem afa. Þú varst afinn sem var alltaf að græja og gera, enda keyrðir þú um bæinn alla daga hvort sem það var fyrir vinnu eða til þess að kíkja á vini og ættingja, enda áttir þú þrjá bíla og þurftir að hreyfa þá við og við.

Hefðin okkar hver áramót þar sem þú sóttir okkur og fórst með okkur á rúntinn að kaupa flugelda uppi á Höfða, voru okkar gæðastundir sem við munum sakna. Þegar þú komst til okkar þá laumaðist þú oft inn og varst kominn í sófann án þess við vissum og byrjaður að horfa á fréttir, fótbolta eða tónlistarþátt því það var eftirlætið þitt. Einnig varstu oft að fíflast með því að taka stuttan dans, hlæja og grínast – þær minningar ylja okkur, elsku afi.

Okkur fannst erfitt að horfa á þig berjast við veikindin síðustu mánuði enda voru þau mun skæðari en áður fyrr, en við vorum dugleg að kíkja á þig í heimsókn upp á spítala og á Eir og fengum því að kynnast þér á annan hátt en áður og var það okkur mjög dýrmætt að hafa fengið það tækifæri. Við fundum fyrir hvað þú varst stoltur af okkur barnabörnunum í skóla og vinnu og spurðir okkur alltaf hvernig gengi hjá okkur. Við klárlega höfum dugnaðinn og þrautseigjuna frá þér og erum mjög stolt af þér.

Alltaf saknað, aldrei gleymdur.

Þín barnabörn,

Hákon Daði, Birgitta Birta og Harpa Karítas.