Norður
♠ Á872
♥ 1098542
♦ 32
♣ 8
Vestur
♠ G653
♥ ÁK63
♦ 65
♣ ÁK10
Austur
♠ K109
♥ DG7
♦ 74
♣ 97643
Suður
♠ D4
♥ --
♦ ÁKDG1098
♣ DG52
Suður spilar 5♦ doblaða.
Vel lesnir spilarar þekkja vel útspilsheilræði Edgars heitins Kaplans, fyrrum ritstjóra The Bridge World: „Ef guð gefur þér ás-kóng í lit þá ætlast hann til að þú spilir þar út.“ En hvað á að gera með ÁK í tveimur litum?
Ómar Olgeirsson trompaði út. Spilið er frá fyrri degi Íslandsmótsins í tvímenningi sem þeir Ómar og Stefán Jóhannsson unnu með yfirburðum. Ómar doblaði opnun suðurs á 1♦, norður sagði 1♥ og suður stökk í 3G út á tígulinn góða. Norður breytti í 4♥, Stefán doblaði og suður hrökklaðist í 5♦, sem Ómar leyfði sér að dobla.
Samningurinn fer alltaf einn niður með því að lyfta öðrum ásnum, en Ómar ályktaði að makker ætti styrk í spaða eftir doblið á 4♥ og trompaði út. Þar með tryggði hann vörninni þrjá slagi á lauf, 500-kall og hreinan topp.