Jóhann Pálsson fæddist í Reykjavík 21. júlí 1931. Hann lést á Landakotsspítala 3. mars 2023.

Foreldrar Jóhanns voru Páll Magnússon, f. 17. júlí 1877, d. 26. mars 1960, járnsmiður í Reykjavík, og Guðfinna Einarsdóttir, f. 2. febrúar 1888, d. 4. mars 1950, húsfreyja í Reykjavík.

Systkini Jóhanns eru: Sigríður Pálsdóttir Gröndal, f. 1913, d. 1940, Einar Pálsson, f. 1914, d. 1973, Guðbjörg Pálsdóttir, f. 1915, d. 1992, Kristín Pálsdóttir, f. 1917, d. 2006, Guðrún Pálsdóttir Ullsten, f. 1918, d. 2004, Brynhildur Pálsdóttir, f. 1920, d. 1995, og Magnús Pálsson, f. 1922, d. 1984.

Þann 15. febrúar 1963 kvæntist Jóhann Hrafnhildi Kristínu Jónsdóttur þýðanda, f. 23. ágúst 1935. Foreldrar hennar voru Hrefna Hallgrímsdóttir, f. 1911, d. 1951, og Jón A. Sigurgeirsson, f. 1909, d. 30. desember 2003. Dóttir Jóhanns og Hrafnhildar Kristínar er Hrefna Kristín líffræðingur, f. 12. september 1974, en maður hennar er Kristinn Hauksson lögfræðingur og eru dætur þeirra Hrafnhildur Kristín, f. 2002, og Hera Rún, f. 2011.

Jóhann fæddist á Bergstaðastræti 4 í Reykjavík, á horni Bergstaðastrætis og Skólavörðustígs þar sem fjölskyldan bjó og faðir hans, Páll Magnússon, rak járnsmiðju. Fram til 15 ára aldurs dvaldi fjölskyldan sumarlangt í sumarbústað í Kálfamóa í landi Keldna. Þar kynntist Jóhann hefðbundnum sveitastörfum á bæjunum Grafarholti og Keldum, þar sem rekinn var hefðbundinn búskapur á þeim tíma. Einnig vaknaði hjá honum áhugi á gróðri og skógrækt við dvölina í Kálfamóa og vann hann mikið ræktunarstarf á landinu í yfir 70 ár.

Jóhann gekk í Landakotsskóla og Gagnfræðaskóla Reykjavíkur, hóf leiklistarnám í fyrsta árgangi Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1950-52 og nam við Kungliga Dramatiska Teaterns Elevskola veturinn 1953-54.

Jóhann var síðan leikari, lengst af við Þjóðleikhúsið en einnig hjá Leikfélagi Reykjavíkur og víðar til 1967. Jóhann lauk einnig prófi frá Loftskeytaskólanum 1959 og var loftskeytamaður á millilandaskipum í nokkur sumur. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1969 og BS-prófi í líffræði frá HÍ 1972, stundaði nám í grasafræði við Háskólann í Uppsölum 1973-79 og var ráðinn forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri árið 1978.

Jóhann vann við gróðurrannsóknir á hálendi Íslands í allnokkur ár eftir að hann lauk námi í grasafræði, einkum á Hofsöræfum, Kili, Þjórsárverum, Sprengisandi og Tungnáröræfum. Hann var einnig mikill rósaáhugamaður og vann að kynbótum á garðarósum; mörgum af rósayrkjum hans hefur verið komið fyrir í Laugardal. Hann skrifaði í gegnum tíðina mikið af greinum um gróðurrannsóknir og rósir og taldi sig einstaklega lánsaman að hafa fengið tækifæri til að starfa við sitt aðaláhugamál, gróður og ræktun landsins.

Útför Jóhanns fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 9. mars 2023, klukkan 13.

Slóð á streymi:
https://mbl.is/go/5unnd

Í gluggakistunni í herberginu hans Jóhanns á æskuheimili hans í hornhúsinu Bergstaðastræti 4 uxu fallegir þykkblöðungar sem minntu á tré, Paradísartré held ég að þeir nefnist. Þarna voru líka leikmyndir og ýmislegt annað forvitnilegt fyrir ung systkinabörn hans sem hlupu á milli herbergja í íbúðinni á Bergstaðastræti þar sem hægt var að hlaupa í hring og byrja og enda í eldhúsinu sem sneri að Esjunni. Þarna, sem og á sumrin í bústaðnum á Keldum (í Kálfamóa) ólst kær móðurbróðir minn Jóhann Pálsson upp, langyngstur átta barna Guðfinnu Einarsdóttur og Páls Magnússonar járnsmíðameistara. Elstu systkinabörnin voru nær honum í aldri og mörgum þeirra var hann mikilvæg fyrirmynd. Við Valdimar frændi sem bjó á neðri hæðinni á Bergstaðastræti stóðum til dæmis á öndinni af hrifningu þegar hann var að æfa framsögn fyrir leiklistarnámið og ætluðum bæði að verða leikarar. Og gróskan og umhverfið á Keldum hefur okkur öllum orðið minnisstætt þori ég að fullyrða. Jóhann var mér og fjölskyldu minni einnig mikilvægur vinur, ráðgjafi og hvatning í tilraunum okkar í skógrækt við erfið skilyrði og ég mun sakna þess að geta leitað til hans þegar kemur að næsta skrefi, grisjun skógarins. Við Jón og börnin okkar, Böðvar, Ágústa og Einar þökkum honum samfylgdina og færum Hrafnhildi, Hrefnu Kristínu og fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.

Arndís S. Árnadóttir (Addí).

Jóhann Pálsson, móðurbróðir minn, var einn af stærstu áhrifavöldum æsku minnar. Hann var langyngstur í stórum systkinahópi og brúaði þannig kynslóðabilið í fjölskyldunni, var aðeins nokkrum árum eldri en elstu börn systkina sinna. Kynslóðirnar áttu sinn samkomustað á heimili pabba hans (og afa míns), Páls Magnússonar járnsmiðs, að Bergstaðastræti 4. Á æskuárum mínum bjuggu þar í húsinu fjögur systkinanna, Magnús ásamt fjölskyldu sinni á efstu hæð, Jóhann og Brynhildur í föðurhúsum á annarri hæðinni, þar sem ráðskonan Borga réð ríkjum, og Einar ásamt sinni fjölskyldu á fyrstu hæðinni. Úti í porti var smiðjan þar sem þeir feðgar Páll og Magnús hömruðu eldheitt járnið dagana langa. Heimili Páls afa míns var auk þess vinsæll viðkomustaður fólks úr uppsveitum Árnessýslu í kaupstaðaferðum í höfuðborginni. Við hin sem ekki áttum heima í húsinu komum þar ævinlega við í miðbæjarferðum okkar, fylgdumst með smíðavinnunni í smiðjudyrunum og áttum vísa brauðsneið við stóra borðið í eldhúsinu. Gestagangur var því mikill. Jóhann var fastur liður í þessari mynd. Hann gaf sig að systkinabörnum sínum, smitaði þau af lifandi áhuga sínum og var þeim fyrirmynd. Hann var alltaf til í að ræða áhugamál sín, sem voru mörg og við áttum sum sameiginleg. Hann hafði frá blautu barnsbeini mikinn áhuga á leikhúsum, lærði leiklist og söng áður en hann lærði síðan til loftskeytamanns. Hann fékk snemma mikinn áhuga á náttúrufræði, gróðri og ræktun. Þessi miklu áhugamál og tvístígandi á lífsleiðinni reynast vera eins konar ættarfylgja og gætir hennar víða í fjölskyldunni. Jóhann var kominn á fullorðinsaldur þegar hann ákvað að taka stúdentspróf og hefja háskólanám í líffræði með grasafræði sem aðalfag. Það var öllum ljóst að hann var þar á réttri hillu. Auk fjölskylduhússins við Bergstaðastræti átti fjölskyldan sumarbústaðaland við Keldur sem þá voru í Mosfellssveit. Þar við Kálfamóa voru þrír bústaðir sem dvalið var í sumarlangt öll mín æskuár. Þar léku sér saman systkinabörnin og ærsluðust í náttúrunni, stífluðu lækinn og spiluðu fótbolta. Og þar átti Jóhann sinn sælureit sem hann girti af og ræktaði upp, að hluta til upp úr örfoka mel. Þar getur nú að líta alls konar framandi tré og runna, auk minni plantna. Þessi gróður hefur á síðari áratugum breiðst út um stærra svæði og fær vonandi að lifa þegar Keldnalandið verður tekið til annarra nota. Eftir háskólanámið í Svíþjóð var Jóhann um skeið forstöðumaður Lystigarðsins á Akureyri. Á þeim árum átti ég oft leið um Akureyri vegna umbrotanna við Kröflu í Mývatnssveit og átti þá vísa gistingu hjá Jóhanni og Hrafnhildi. Voru það fagnaðarfundir og margt rætt. Það var happafengur fyrir Reykjavíkurborg þegar Jóhann gerðist garðyrkjustjóri borgarinnar. Á hans tíð jókst trjárækt stórlega, sem hefur breytt yfirbragði borgarinnar mjög til hins betra. Ég minnist Jóhanns frænda míns með hlýju og þakklæti fyrir vinskapinn sem aldrei bar skugga á.

Páll
Einarsson.

Ég var ekki há í loftinu þegar ég kynntist Jóhanni Pálssyni. Hann hefur verið okkur kær fjölskylduvinur eins lengi og ég man eftir mér og á margan hátt áhrifavaldur í mínu lífi.

Fyrstu minningar mínar af Jóhanni eru af því þegar ég sat á hné hans, tveggja ára hnáta, og hlustaði hugfangin á sögur hans af margfætlunni Rafmagnúsi sem hljóp um rafmagnsvíra og bar ljós í húsin okkar. Hann var einstakur sögumaður og þar fékk leiklistarbakgrunnur hans að njóta sín. Það var um svipað leyti, að þau Hrafnhildur urðu foreldrar og ég stóra systir. Ég var hugfangin af litlu prinsessunni þeirra og ekki kom annað til greina en að nefna dúkkuna mína Hrefnu Kristínu. Þetta var í Uppsala, þar sem Jóhann og pabbi voru báðir við nám og mikill samgangur. Vinátta fjölskyldnanna nær þó lengra aftur og hefur vaxið með árunum, þrátt fyrir að iðulega hafi skilið höf og lönd.

Þegar Jóhann varð garðyrkjustjóri og flutti suður, jukust samskiptin aftur. Þau Hrafnhildur og Hrefna eru mikilvægur hluti af fjölskyldunni okkar og Jóhann uppáhaldsborðherra farmor, sem naut þess að gantast við hann.

Jóhann, pabbi og vinir þeirra í Gróðurbótafélaginu, léku stórt hlutverk í bernsku minni. Helgum og frídögum var gjarnan varið í að ræða, skipuleggja eða framkvæma hinar ýmsu tilraunir í birkikynbótum víða um land. Við börnin lékum þar töluvert hlutverk við gróðursetningar. Öll erum við stolt af Emblunni sem er afrakstur þessa mikla starfs.

En Jóhann beitti sér á fleiri sviðum og ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að taka þátt í sumarstarfi á vegum borgarinnar. Hann átti frumkvæði að uppbyggingu Húsdýragarðsins sem hefur veitt fjölskyldum borgarinnar ómælda gleði. Seinna vann ég í fegrunarnefnd Reykjavíkur sem erindreki garðyrkjustjóra. Við fórum um borgina þvera og endilanga til að ganga úr skugga um að allt liti sómasamlega út, skrifuðum áminningar og skýrslur og svöruðum í símann í hádeginu þar sem misglaðir borgarbúar gátu komið með athugasemdir sínar. Það var góður skóli og ég kynntist því hversu gott var að vinna fyrir Jóhann.

Jóhann var mikill náttúruunnandi og fagurkeri og þess sáust merki jafnt í störfum hans sem garðyrkjustjóri og í eigin ranni. Hann lagði mikið upp úr því að borgin skartaði sínu fegursta sem stærstan hluta ársins. Grasagarðurinn í Reykjavík var honum líka mikilvægur bæði til fegrunar og fræðslu. Hjá Jóhanni fóru saman ævistarfið og helsta áhugamálið og hafa borgarbúar fengið að njóta afraksturs þeirrar ástríðu.

Jóhann kunni líka að njóta lystisemda lífsins, góðs matar, félagsskapar og afsprengja listagyðjanna. Þau hjónin voru dugleg að sækja menningarviðburði og hafa lokkað okkur með á viðburði sem auðga lífið.

Fjölskyldan hefur þó alltaf verið Jóhanni mikilvægust. Hann hefur stoltur stutt við bakið á Hrefnu og tekið virkan þátt í uppeldi dótturdætra sinna.

Elsku Hrafnhildur, Hrefna Kristín, Hilda, Hera og Kristinn, ég samhryggist ykkur innilega og er þakklát fyrir að hafa fengið að njóta Jóhanns með ykkur í öll þessi ár. Blessuð sé minning þessa gleðigjafa.

Björg Þorsteinsdóttir.

Jóhann varð áhrifavaldur í mínu lífi. Hann bauð mér vinnu 1988, þá ungur landslagsarkitekt, já, auglýsingaskyldan var ekki alveg komin, en raunar voru landslagsarkitektar fáir þá. Jóhann var grasafræðingur og var sjálfur tiltölulega nýbyrjaður í starfi en hann taldi nauðsynlegt hafa landslagsarkitekt á garðyrkjudeildinni. Vaxandi áhugi var á trjárækt og uppbyggingu útivistarsvæða og á deildina réðst einnig vaskur hópur garðyrkjumanna sem tók þátt í þessari uppbyggingu. Jóhann hafði mikil áhrif á að breyta gróðurvali og bæta ræktunartækni. Hann leitaði að nýjum tegundum og kvæmum sem hentuðu betur í borgarlandslag. Um 1990 fór af stað uppbygging í Laugardal sem var að miklu leyti á vegum garðyrkjudeildar. Það var mikið ævintýri fyrir undirritaðan að taka þátt í hönnun Fjölskyldugarðsins. Leitað var fyrirmyndar og aðstoðar í norskan garð og fórum við þrír Jóhann, Magnús Sædal sem var verkefnisstjóri og undirritaður saman í ógleymanlega skoðunarferð til Lillehammer. Samstarf okkar Jóhanns var alla tíð mjög gott og mikið traust og vinskapur. Það æxlaðist svo að ég tók við starfi hans en við héldum alltaf góðu sambandi eftir starfslok hans. Jóhann dró mig nokkuð snemma inn í TBO, félagsskap borgarstarfsmanna, og vil ég nota tækifærið að senda kæra kveðju frá TBO-félögum.

Að leiðarlokum vil ég þakka fyrir ljúfa samfylgd, traustið og vinskapinn.

Ég sendi Hrafnhildi, Hrefnu og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Þórólfur Jónsson.